- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Á fundi bæjarstjórnar Grundarfjarðarbæjar þ. 19. maí sl. voru ársreikningar 2008 fyrir bæjarsjóð og stofnanir bæjarins afgreiddir eftir síðari umræðu. Afkoma bæjarsjóðsins var slæm á síðasta ári. Reksturinn varð þyngri en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir og má rekja ástæðu þess að miklu leyti til hækkaðs launakostnaðar vegna breytinga á kjarasamningum og óðaverðbólgu. Í sjóðstreymi kom fram að handbært fé frá rekstri varð rúmlega 80 milljón krónur en það dugði skammt þegar kom að fjármagnsgjöldunum.
Stærsti skellurinn var vegna hruns á gengi krónunnar og óeðlilega hárrar verðtryggingar lána vegna óðaverðbólgu. Fjármagnsgjöld urðu nærri 450 milljón krónur og þar af var gengismunur og verðbætur nálægt 406 milljón krónur. Þetta gat reksturinn ekki borið og varð neikvæð niðurstaða í ársreikningi samstæðu bæjarins að fjárhæð 398 milljón krónur. Afleiðing þessa er svo að eiginfjárstaðan varð neikvæð að fjárhæð 170 milljón krónur. Það verður mikið verkefni næstu ár að vinna þetta til baka því ekki virðist gengi krónunnar ætla að ganga til baka alveg á næstunni en vonandi gerist það til lengri tíma litið og þá lækkar höfuðstóll lána sem eru í erlendum myntum. Stærsti hlutinn af fjármagnsgjöldunum eru reiknaðir liðir sem ekki koma til greiðslu strax en dreifast á 10 - 15 ár og eins og áður sagði ef gengið lagast þá lækkar þessi staða samhliða. Helstu niðurstöður í ársreikningi samstæðu eru í fundargerð bæjarstjórnarinnar og svo verða ársreikningarnir birtir á heimasíðunni einnig.