- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Nú er ár liðið frá íbúaþingi sem haldið var á vegum Grundarfjarðarbæjar í nóvember í fyrra og því ekki úr vegi að rifja upp helstu skilaboð íbúa og hvernig þeim hefur verið fylgt eftir.
Á þinginu voru flutt erindi um sjávarútveg, ferðaþjónustu, Svæðisgarðinn Snæfellsnes, menntun og málefni ungs fólks og eldri borgara. Þátttakendur stungu síðan upp á umræðuefnum sem rædd voru í hópum.
Í samantekt um íbúaþingið er sagt frá erindunum og niðurstöðum umræðuhópa. Eftir þingið fór stýrihópur yfir hugmyndir sem fram komu og gerði tillögur um eftirfylgni, sem bæjarráð fjallaði um. Sumt var einfalt að framkvæma og annað stærra og flóknara og þarf lengri tíma. Einhverjar hugmyndanna eiga ekki eftir að verða að veruleika og aðrar snúa að félagasamtökum, fyrirtækjum og stofnunum, t.d. skólunum og eru í þeirra höndum.
Sem dæmi um atriði sem hafa verið framkvæmd má nefna að hjólabrettarampur var settur upp á skólalóð grunnskólans og haldinn var tiltektardagur. Opnunartími sundlaugar var lengdur, en draumurinn um heilsársopnun er háð nýjum og ódýrari lausnum í kyndingu. Vetrarnýting íþróttahúss hefur aukist, m.a. með íþróttaskóla barna. Verið er að efla starfsemi ungmennaráðs og verður á næsta ári lagt aukið fjármagn í starf félagsmiðstöðvarinnar Eden. Aðstaða við Kirkjufellsfoss hefur verið bætt til muna.
Sögumiðstöðin stendur öllum til boða fyrir félagsstarf, ungum sem öldnum og hugmyndir um þjónustu bókasafnsins eru í traustum höndum forstöðumanns.
Uppi eru hugmyndir um að Svæðisgarðurinn Snæfellsnes muni halda utan um ýmis þróunarverkefni í ferðaþjónustu, þar með afþreyingu fyrir farþega skemmtiferðaskipa.
Brátt kemur að endurskoðun aðalskipulags og þar verður m.a. mörkuð stefna um göngustíga og útivistarsvæði innan bæjar og utan.
Steinatjörn var fólki ofarlega í huga á þinginu og virðast bæði ungir og aldnir Grundfirðingar sakna tjarnarinnar. Tjörnin er hluti af stærra vatnakerfi og flókið að finna lausn sem hentar og kostar ekki of mikið, en er til skoðunar. En það er ánægjulegt að segja frá því að styrkur fékkst frá Menningarráði Vesturlands til að hanna Paimpolgarðinn, í samstarfi við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri og munu tillögur liggja fyrir í vor.