Líkt og undanfarin fimmtán ár gekkst Skessuhorn – Fréttaveita Vesturlands fyrir vali á Vestlendingi ársins, en verðlaunin falla í hlut þess eða þeirra íbúa í landshlutanum sem þykja hafa skarað framúr á einhvern hátt á árinu. Lesendur Skessuhorns sendu inn fjölmargar ábendingar og voru samtals 22 einstaklingar tilnefndir að þessu sinni. Í fyrsta skipti frá því val á Vestlendingi ársins hófst urðu hjón hlutskörpust. Það eru þau Bjarni Sigurbjörnsson og Guðrún Lilja Arnórsdóttir bændur og ábúendur að Eiði við Kolgrafafjörð á Snæfellsnesi. Hlutu þau langflestar tilnefningar.
Aðrir, sem hlutu þrjár tilnefningar eða fleiri að þessu sinni, eru í stafrófsröð: Dr. Bjarni Guðmundsson á Hvanneyri fyrir verðmæta skráningu heimilda um tækni og störf til sveita, Garðar Stefánsson og Sören Rosenkilde stofnendur Norðursalts á Reykhólum, Gísli Ólafsson ferðaþjónn í Grundarfirði, Guðrún Haraldsdóttir gangbrautavörður í Borgarnesi, Kristín Gísladóttir og Sigrún Katrín Halldórsdóttir í Borgarnesi fyrir vitundarvakningu gegn einelti, Ingólfur Árnason forstjóri Skagans á Akranesi fyrir uppbyggingu atvinnulífs, Ólafur Adolfsson lyfsali á Akranesi fyrir ríka þjónustulund, Vilhjálmur Birgisson formaður VLFA fyrir störf að hagsmunamálum launþega og Þór Magnússon á Gufuskálum fyrir uppbyggingu í ferðaþjónustu.