Grein bæjarstjóra í Bæjarblaðinu Jökli 31. maí sl. í tilefni af lokun útibús Landsbankans í Grundarfirði:
Stefnu Landsbankans er að finna í einkunnarorðunum „hlustum, lærum og þjónum“. Landsbankinn segist vera þjónustufyrirtæki með það meginmarkmið að þjóna viðskiptavinum. Gamla slagorðið „banki allra landsmanna“ finnst reyndar ekki lengur í stefnu hans. Það eru orð að sönnu.
Landsbankinn á sér langa og farsæla sögu í Grundarfirði allt frá því Samvinnubankinn opnaði útibú 1964 sem síðar varð útibú Landsbankans við sameiningu bankanna. Eftir 48 ára sögu ákveða yfirmenn bankans fyrirvaralaust að nú sé nóg komið, gróðinn er ekki nógu mikill og kostnaðarhlutfallið óhagstætt. Þetta eru þekktar forsendur sem okkur landsbyggðarfólki eru boðnar.