Mynd Sverrir Karlsson
Þriðjudaginn 18. maí sl. var nýtt móttökusvæði fyrir ferðamenn af skemmtiferðaskipum ásamt nýrri flotbryggju vígt við hátíðlega athöfn í Grundarfjarðarhöfn. Við athöfnina var gerð grein fyrir helstu kostnaðar- og magntölum í framkvæmdinni sem samtals hefur staðið yfir í þrú ár. Framkvæmdin fólst í dýpkun hafnarinnar, gerð sjóvarnargarðs sem er með öldudempandi fláa, kaupum og niðursetningu flotbryggju, uppsteypu landstólpa, uppsetningu á landgangi, gerð gangstígar og plana fyrir ferðafólk og fólksflutningabíla. Svæðið hefur verið afmarkað með "vitum" og komið var fyrir bekkjum og borðum fyrir ferðafólk og heimamenn. Öll framkvæmdin kostaði á framkvæmdatímabilinu 33 miljónir króna. Styrkur fékkst frá iðnaðarráðuneytinu í þetta verkefni að fjárhæð kr. 6,3 milljónir. Mannvirkin voru blessuð af sóknarprestinum Sr. Aðalsteini Þorvaldssyni. Tveir fullorðnir frumkvöðlar í Grundarfirði þeir Guðmundur Runólfsson, útgerðarmaður og skipstjóri og Elís Guðjónsson, fv. hafnarvörður, klipptu á borða og vígðu þar með hina nýju aðstöðu formlega. Viðstöddum var boðið í kaffi og meðlæti á svæðinu eftir athöfnina.
Hér má sjá myndir af vígslunni.
Myndir frá Sverri Karlssyni
Myndir frá Hirti H Kolsöe/Jóni P Péturssyni