Frétt á vef Skessuhorns 4. september 2009:
Í gærmorgun var Busadagur hjá Fjölbrautaskóla Snæfellinga í Grundarfirði. Um 80 nýnemar voru leiddir um bæinn af eldri nemendum, íklæddir svörtum ruslapokum með litað hár og andlit. Nýnemarnir urðu síðan að hlýða í einu og öllu fyriskipunum sér eldri nemenda og reyndari til að mynda að syngja og sýna með látbragði “Höfuð herðar hné og tær,” bæði á íslensku og ensku. Þeir sem ekki stóðu sig nógu vel fengu á sig væna sprautu úr vatnsbyssu þeirra elstu, eins og sjá má á myndinni. Allt fór þetta þó vel fram og allir sýndust hafa gaman af.
Þess má geta að svipuð busavígsla mun fara fram í Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi eftir hádegi í dag, en sú athöfn mun fara að mestu fram á Langasandi.