- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Frétt á vef Skessuhorns 9. september 2009:
„Við erum búin að taka púlsinn á þessu, bæði hjá Markaðsstofunni og eins öðrum samtökum í ferðaþjónustu á Vesturlandi. Ég held að það sé samdóma álit allra að þetta sumar sé algjört sprengisumar í ferðaþjónustunni,” segir Gísli Ólafsson hótelstjóri í Grundarfiði og formaður stjórnar Markaðsstofu Vesturlands í samtali við Skessuhorn. „Komum ferðamanna hefur fjölgað allt upp í hundrað prósent milli ára.
Gistingin sem var fyrir gat kannski ekki miklu bætt við sig, hún var fullbókuð fyrir, en gistirými á svæðinu hefur aukist mikið. Það hafa sprottið upp farfuglaheimili og þau hafa ekki haft undan, eins og til dæmis hér í Grundarfirði, þrátt fyrir að hafa tvöfaldað gistirýmið. Ég get nefnt nýja heimagistingu á þremur stöðum í Stykkishólmi sem hefur verið mjög vel nýtt. Hótelin hafa líka verið með betri nýtingu sem nær lengra fram í ágúst en áður var.
Áður fyrr var ekkert óalgengt að umferðin á hótelin dytti niður strax eftir verslunarmannahelgi en núna hefur verið fullt út ágúst og í byrjun september er þetta 60-70% nýting á flestum stöðum og jafnvel meira.”
Sjá ítarlegt viðtal við Gísla í Skessuhorni sem kemur út í dag.