Föstudaginn 9. nóvember sl. var frystihótel Snæfrosts hf. formlega tekið í notkun við hátíðlega athöfn. Kristján Guðmundsson rakti sögu og aðdraganda þess að þetta fyrirtæki varð til. Þórður Á. Magnússon rakti byggingasögu hússins. Báðir eru stjórnarmenn í Snæfrosti hf. ásamt þeim Ásgeiri Ragnarssyni, Árna Halldórssyni og Stefáni Kalmann. Var verktökum þökkuð vaskleg framganga við byggingu hússins sem aðeins tók 7 mánuði. Kostnaður við byggingu frystihótelsins varð 93 - 94% af kostnaðaráætlun sem þykir vel að verki staðið á þessum þenslutímum. Fyrstu dvalargestir í frystíhótelinu, yfir 20 tonn af rækju, komu í síðustu viku og von er á meiru í þessari viku svo segja má að fyrirtækið fái fljúgandi start. Gestir færðu fyrirtækinu hamingjuóskir og óskuðu því velfarnaðar um alla framtíð.