- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Kæru íbúar og aðrir lesendur! Nýtt ár heilsar okkur, með sitt fallega ártal, óskrifað blað í lífsbókum okkar. Megi það verða okkur gæfuríkt og gott. Árið 2019 var umtalsvert framkvæmdaár hjá Grundarfjarðarbæ, auk þess sem umfangsmikil stefnumótandi verkefni voru í gangi á árinu hjá bæjarstjórn og nefndum, sem búa okkur enn betur undir komandi ár. Mörg samstarfsverkefni sveitarfélaga voru unnin á árinu og upptaktur frekari samvinnu sleginn. Í huga undirritaðrar standa uppúr stór og jákvæð skref í atvinnulífi staðarins, kærkomið skíðaævintýri í byrjun árs og einmuna veðurblíða sumarsins, mikill fjöldi ferðamanna og ánægjuleg fjölgun yngstu íbúanna okkar á árinu. Hér verður stiklað á stóru um framkvæmdir og starfsemi Grundarfjarðarbæjar, starf bæjarstjórnar og ýmislegt fleira í mannlífinu í Grundarfirði. |
Framkvæmdir og starfsemi Grundarfjarðarhafnar Af framkvæmdum bar hæst að hafist var handa við lengingu Norðurgarðs Grundarfjarðarhafnar um 130 metra. Að loknu ferli leyfisveitinga var í mars samið við Björgun um fyrsta áfanga, sem fólst í að dæla malarefni úr sjó, í undirlag undir fyrirhugaða lengingu Norðurgarðs. Dælingin var unnin í tvennu lagi, í mars og september, og efnið látið síga á milli. Í október var samið við Borgarverk um byggingu brimvarnargarðs og rekstur stálþils. Báðir áfangar voru boðnir út, auk þess sem kaup stálþilsins fóru fram gegnum útboð. Efnistaka í varnargarðinn er úr námu í Lambakróarholti, í bæjarlandinu rétt austan við þéttbýlið, en gríðarlegur ávinningur er af því að þurfa ekki að sækja efnið lengra. Áætluð verklok eru í júní 2020. Hafnaraðstæður í Grundarfirði eru einstaklega ákjósanlegar og með framkvæmdinni skapast aðstaða til að taka inn stærri og djúpristari skip, allt að 10-11 metra. Árið var mjög gott í rekstri Grundarfjarðarhafnar. Aflaaukning var tæplega 18% milli ára en landað var samtals 16.224 tonnum í 963 löndunum, á móts við 13.797 tonn í 918 löndunum árið 2018. Komur skemmtiferðaskipa voru alls 52 á árinu 2019 samanborið við 27 komur árið 2018. Áætlað er að farþegafjöldi hafi verið allt að 20.000 manns. Hafnarstjóri sótti kaupstefnu fyrir skemmtiferðaskip, sem er hluti af langtímamarkaðsstarfi hafnarinnar. Á hafnarsvæðinu var malbik endurbætt, unnið að hefðbundnum endurbótum og viðhaldi. Sett var upp nýtt söguskilti um þróun hafnaraðstöðu og byggðar í Grundarfirði, sem okkur finnst sýna vel hversu mikilvæg höfnin hefur verið og er enn fyrir þróun byggðar og búsetu. Umhverfisframkvæmdir, viðhald fasteigna og fegrun umhverfis Umtalsverðar gatna- og umhverfisframkvæmdir fóru fram á árinu. Malbikaðar voru götur, gangstígar og plön, samtals rúmlega 10.000 m2, og lokið var við að steypa yfirlag og gangstétt við nýja götu sem hlotið hefur nafnið Bergþórugata. Það er eina gata bæjarins sem gefið hefur verið heiti einstaklings, en merking götunnar með formlegum hætti mun fara fram á þessu ári. Bergþóra Sigurðardóttir var ljósmóðir í áratugi og tók á móti miklum fjölda barna. Hún bjó að Sólvöllum, sem var eitt fyrsta húsið í þéttbýlinu sem myndaðist í Grafarnesi. Sólvellir stóðu við norðanverðan hluta nýju götunnar. Gatnaframkvæmdin kom til vegna breytinga á deiliskipulagi á svæðinu og nýs fiskvinnsluhúss G.Run og er jafnframt hluti af framtíðartengingu fyrir umferð á milli Framness og hafnarsvæðis. Göngustígar voru malbikaðir að og við leikskóla og víða steyptir gangstéttarbútar þar sem þá vantaði. Gerðar voru umbætur á gönguleiðum að grunnskóla, m.a. var aðkoma bætt að gangbraut við grunnskólann og göngustígur lagður gegnum Paimpolgarð. Markmiðið er að gera bæinn okkar gönguvænni og meira aðlaðandi. Á árinu var farið í umtalsverðar viðhaldsframkvæmdir á húsnæði grunnskólans; múrviðgerðir voru unnar utanhúss, viðgerð á þakkanti, gluggaskipti í elsta hluta skólans og endurbætur á lausafögum, endurbætur gerðar á þaki verknámshúss, sem varð fyrir foktjóni í byrjun ársins, en einnig innanhússviðhald í verknámshúsinu. Tilgangurinn var einkum að koma í veg fyrir leka og sinna almennu viðhaldi. Í tónlistarskóla var málað innanhúss, skipt um loftlýsingu og fleira. Umhverfi íþróttavallar var fegrað og endurbætt, ekki síst vegna framtaks í samvinnu við Ungmennafélagið, þar sem íbúar mættu og unnu frábært dagsverk á vellinum. Atrennubraut fyrir spjótkast var malbikuð og bætist þar við malbikaða atrennubraut fyrir langstökk, sem gengið var frá 2017. Í leikskóla var lokið við frágang í viðbyggingu frá 2018, lóð var lagfærð og drenuð, byggður nýr pallur við húsið, leiktæki máluð og hreinsuð og steypt undirstaða fyrir nýjan geymsluskúr sem bíður uppsetningar. Bílastæði voru malbikuð, sem og bílastæði við Samkomuhúsið. Skipt var um þak á yngri hluta samkomuhúss, hljóðkerfi hússins var endurbætt og ýmsar lagfæringar gerðar innanhúss, sem halda áfram nú í upphafi nýs árs. Skipulags- og umhverfisnefnd gekkst fyrir umhverfisrölti, eins og árið áður, þar sem íbúum var boðið til göngu í hverfum bæjarins og samtals um það sem betur má fara í umhverfismálum. Heilmikil vinna var lögð í úrvinnslu þeirra atriða. Fegrun umhverfis, tiltekt og umbætur á ýmsum svæðum bæjarins, voru án efa eitt helsta þema ársins og mikil áhersla lögð á það í verkum bæjarins, sem og með hvatningu til bæjarbúa. Svæðið á Framnesi var sérstaklega á radarnum, en einnig má nefna iðnaðarhverfið við Ártún/Hjallatún, en bæði þessi svæði tóku stakkaskiptum sl. sumar. Ég vil þakka lóðar- og húseigendum í bænum fyrir afar góð viðbrögð í því sameiginlega verkefni að gera bæinn okkar að snyrtilegasta sveitarfélagi á Íslandi, sem er klárlega markmiðið! Skólastarf Í Leikskólanum Sólvöllum er öflugt starf í sífelldri þróun. Tekið er á móti börnum við 12 mánaða aldur. Unnið er að ýmsum þróunarverkefnum, m.a. hefur skólinn stigið fyrstu skrefin í að verða heilsueflandi leikskóli. Í undirbúningi er verkefni sem heitir “Uppeldi til ábyrgðar” og margvíslegt annað umbótastarf markar þróun skólastarfsins. Grunnskólinn tekur nú þátt í Erasmus+ verkefni um sjálfbærni með skólum frá fjórum löndum. Nemendur taka virkan þátt í vinnunni og eru í samskiptum við jafnaldra sína þar. Í október tók Grunnskóli Grundarfjarðar þátt í Menningarmóti. Þar sögðu nemendur frá sinni menningu en hún er mismunandi eftir áhugamáli, uppeldi, tungu og nánast öllu því sem mótar okkur. Ferðafólk, framkvæmdir og aukin þjónusta Ekkert lát var á vinsældum Kirkjufellsins á árinu. Umferðartölur sýna að Snæfellsnes vex í vinsældum; áætlað er að um 600-900 þúsund gestir fari um Snæfellsnes á ári og fer stærstur hluti þeirra í gegn hjá okkur. Í samkomuhúsinu voru gerðar ráðstafanir til að nýta salerni hússins sem almenningssalerni, en þörf hefur verið á að bæta úr slíkri aðstöðu. Það fyrirkomulag gekk vonum framar. Rekstur tjaldsvæðis gekk glimrandi vel, enda einmuna sumarblíða og á árinu fór bærinn í samstarf við Útilegukortið, sem hafði í för með sér nokkra breytingu á samsetningu gestahóps tjaldsvæðis. Mun meira var af Íslendingum í hópi ferðafólks á þessu sumri. Í haust sem leið var farið í endurbætur vatnslagna á og að tjaldsvæðinu til að unnt væri að halda opnu þjónustuhúsi við tjaldsvæðið. Er þetta í fyrsta sinn sem bærinn sinnir vetrarþjónustu á tjaldsvæði og er, eftir því sem best er vitað, eitt af fáum tjaldsvæðum með vetrarþjónustu. Þetta fyrirkomulag er þó til reynslu, við viljum læra af því hvernig þetta gengur í vetur og sjá svo til með framhaldið. Grundarfjarðarbær hélt utan um framkvæmdir við gerð nýrra bílastæða við Kirkjufellsfoss, í samvinnu við landeigendur Kirkjufells. Malbikað var tæplega 3000 m2 bílastæði og lagður nýr aðkomuvegur. Verkið er unnið fyrir styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða og á árinu 2020 verða endurbættir stígar og önnur aðstaða fyrir gangandi á svæðinu. Arkitektastofan Landslag hannar svæðið í samvinnu við landeigendur. Vegagerðin ákvað að endurbæta þjóðveg 54 í Kirkjufellsbrekku og var vegurinn lækkaður í brekku og blindhæð við nýja aðkomuveginn, til að bæta umferðaröryggi á svæðinu til frambúðar. Það var mjög þörf og góð ráðstöfun. Gamla bílastæðið hefur nú verið aflagt og verða þessar endurbætur á aðstöðu til mikilla bóta fyrir ferðafólk og aðra vegfarendur. Bæjarstjóri sótti um fjóra styrki f.h. bæjarins í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða síðla árs 2018. Einn styrkur var samþykktur 2019, til öryggismála við Kirkjufell, og er það verkefni unnið 2019-2020 í samvinnu við landeigendur Kirkjufells og Háls. Grundarfjarðarbær tók að sér veghald gamla þjóðvegarins í Kolgrafafirði þegar fjörðurinn var þveraður 2004-5. Á árinu var ræsi tvöfaldað í Hjarðarbólsá, vestan Kolgrafafjarðar, vegurinn um Kolgrafafjörð var heflaður og unnið að undirbúningi viðgerða á gömlu brúnum yfir Slýá og Hrafnsá í Kolgrafafirði, m.a. vegna styrkfjár sem fékkst úr Styrkvegasjóði Vegagerðarinnar. Stefnumótun og fleiri verkefni Á árinu var lokið við gerð tillögu að nýju aðalskipulagi fyrir Grundarfjörð og var tillagan sett í opið auglýsingaferli í byrjun desember. Umfangsmikil vinna liggur í að móta þessa tillögu um meginstefnu sveitarfélagsins til næstu tuttugu ára, þó eflaust verði hún endurskoðuð áður en hún rennur það skeið á enda. Ég vil þakka fulltrúum í skipulagsnefnd fyrir sína góðu vinnu sem og þeim fjölmörgu sem tóku þátt í vinnunni og lögðu fram athugasemdir og tillögur við vinnslutillöguna, sem lögð var fram vorið 2018. Frestur til að gera athugasemdir við tillöguna er til 22. janúar nk. og hvet ég íbúa til að kynna sér hana vel – sjá vefinn www.skipulag.grundarfjordur.is Bæjarstjórn fékk Capacent til aðstoðar við að móta stefnu um mikilvæga þætti í starfsemi sveitarfélagsins. Haldnir voru fundir með íbúum, nefndarfólki og starfsfólki bæjarins, í tengslum við þá vinnu. Endurskoðun fjölskyldustefnu, íþrótta- og æskulýðsmál, menningarmál og fleira eru fyrirferðarmiklir málaflokkar í þessari vinnu, sem lýkur fyrrihluta þessa árs. Í menningarmálum er samfélagið okkar mjög háð framtaki og frumkvæði einstaklinga; að blómlegt grasrótarstarf sé fyrir hendi. Samtal þar að lútandi og nýsköpun liggja vonandi í spilunum á nýju ári, ekki síst í gegnum breytingar á starfsemi í Sögumiðstöð sem nú eru í mótun. Það skiptir mjög miklu máli að vel takist til með starfsemi þar og að sögunni okkar og menningu sé sinnt af alúð. Bæjarstjórn hóf einnig samtal við íþróttafélögin í tengslum við stefnumótunarvinnuna. Markmiðið er að setja fram sameiginlega sýn á helstu uppbyggingarverkefni, sem raunhæft er að ráðast í á næstu árum, og að efla samstarf íþróttafélaga og bæjarins. Unnin var greining á möguleikum til orkuskipta í húsnæði grunnskóla, í sundlaug og íþróttahúsi. Þessi mannvirki eru enn kynt með olíu og er það fyrirkomulag eins og nátttröll sem dagað hefur uppi og tímabært er að losna við. Í framhaldi af þeirri vinnu var sótt um styrki í Orkusjóð, til framkvæmda við að breyta yfir í húshitun með varmadælum. Nú í vikunni fékkst svar um að bænum hefðu verið veittir tveir styrkir til þeirra verkefna og er það mjög ánægjulegt. Í upphafi árs var lokið við lagningu ljósleiðara í dreifbýlinu. Framkvæmdin hefur haft í för með sér jákvæðar breytingar, ljósleiðarinn bætir aðstöðu og opnar á ný tækifæri. Samhliða verður þó kristalstært hversu mikilvægt er að ljósleiðaravæða þéttbýlisstaðina okkar eða finna sambærilegar leiðir til að við sitjum ekki eftir þegar kemur að því að nýta tækifærin sem liggjast í bættum fjarskiptum og nýrri tækni. Bæjarstjórn mun beita sér í þeim efnum, en samkvæmt lögum er þó ekki heimilt að verja opinberu fé, ríkis eða sveitarfélaga, í lagningu ljósleiðara í þéttbýli, eins og gert var með ljósleiðaraverkefnin í dreifbýli. Starf nefnda, viðburðir og heimsóknir Nefndir bæjarins höfðu ýmis mál á sinni könnu. Haldnir voru rúmlega 30 formlegir fundir á árinu í fimm af fastanefndum bæjarins, fyrir utan sérstaka vinnufundi um skipulagsgerðina, fundi ungmennaráðs og öldungaráðs, o.fl. Nefndarfólki er þakkað kærlega fyrir gott starf á árinu. Íþrótta- og æskulýðsnefnd hefur lagt áherslu á að koma af stað uppbyggingu fjölskyldu- og útivistarsvæðis í Þríhyrningi og leitaði til íbúa og félagasamtaka í þeirri vinnu sinni. Nefndin lagði upp góðar hugmyndir og undirbúning fyrir sumarnámskeið fyrir börn og kom með hugmynd um að útbúa skautasvell. Menningarnefnd bryddaði uppá ýmsum nýjungum, tók þátt í stefnumótun um menningarmálin og hefur Sögumiðstöð ekki síst verið þar til umræðu. Í upphafi árs vann bókasafnsfræðingurinn okkar þarft yfirlit yfir ljósmynda- og kvikmyndasafn Bærings Cecilssonar. Styrkir fengust til að vinna að skönnun ljósmynda og yfirfærslu kvikmynda í safninu og er ætlunin að því ljúki á árinu 2020. Fyrirferðarmikil var stóra listsýningin „Nr. 3 – Umhverfing“ sem fjórar listakonur, kraftaverkakonur, gengust fyrir á öllu Snæfellsnesi frá júní til september, með listaverkum snæfellskra og annarra góðra listamanna. Verkefnið var unnið í samstarfi við Svæðisgarðinn Snæfellsnes, Uppbyggingarsjóð Vesturlands og sveitarfélögin á Snæfellsnesi og var afar lærdómsríkt og gefandi. Hátíðin okkar, Á góðri stund, fór vel fram, þar sem sjálfstætt Hátíðarfélag, sem og íbúar, leggja gríðarmikla vinnu í dagskrá og umgjörð hátíðar. Hið sama má segja um Rökkurdaga. Þrettándagleði í upphafi liðins árs, sem og nýafstaðin gleði, fór fram í þeirri viðleitni að ná inn virkum samstarfsaðilum með bænum vegna þessa viðburðar. Ég á þá von að félagasamtök eða jafnvel einstaklingar fáist til að taka að sér afmarkaða viðburði eins og þennan, og setja mark sitt á undirbúning og framkvæmd, með gleði og nýbreytni að leiðarljósi. Stöð 2 heimsótti Grundarfjörð í þættinum „Um land allt“ í mars og í lok október nutum við heimsóknar forseta Íslands, hr. Guðna Th. Jóhannesson, og konu hans, frú Elizu Reid. Ég var mjög stolt af þeim fulltrúum okkar Grundfirðinga sem tóku á móti forsetahjónunum og sögðu þeim sínar sögur; af fyrirtækjarekstri og annarri starfsemi, lífinu og tilverunni í bænum okkar. Ýmis verkefni og samstarf Talsverð vinna var lögð í undirbúning og vandaða umgjörð fyrir vinnuskóla og sumarnámskeið fyrir börn á árinu. Við nutum þess að fá ungt og kraftmikið fólk í lið með okkur við að stýra þessu starfi og leituðumst við að styðja þau til góðra verka í þessu mikilvæga starfi okkar. Vinnuskólinn starfaði lengur en áður hefur verið og 7. bekkingum var að auki boðin vinna hluta sumars. Í byrjun desember útbjó bærinn skautasvell og var það vel nýtt þann tíma sem frostið vann með okkur. Gott skíðafæri og einstakt 25 daga skíðatímabil í upphafi ársins var himnasending. Þar nutum við dugnaðar sjálfboðaliða á vegum skíðadeildarinnar og annarra velunnara. Það er ánægjulegt að segja frá því að efri hæðin á Grundargötu 30 er nú stútfull af starfsemi. Húsnæðið er í eigu bæjarins og þar var bæjarskrifstofan áður til húsa. Á liðnu ári var fjarnemum á háskólastigi sköpuð námsaðstaða á hæðinni og viljum við þróa það áfram og betur, í samstarfi við fjarnemana og aðra sem þarna starfa. Ánægjulegt er einnig samstarf við Félag eldri borgara í Grundarfirði, og fleiri, um heilsueflingu 60+, sem fór af stað í lok janúarmánaðar. Þátttaka var afar góð og ég trúi því að markviss heilsuefling íbúa sé komin til að vera. Miklu skiptir að umgjörðin sé góð og hæft fólk haldist í að leiðbeina hópnum. Dvalarheimilið Fellaskjól vígði í byrjun desember viðbyggingu við húsnæði sitt, þar sem endurbætt er aðstaða íbúa og í framhaldinu vinnuaðstaða starfsmanna. Sjálfseignarstofnun sér um rekstur heimilisins, en bærinn og stjórn heimilisins eiga gott samstarf um ýmsa þætti. Grundarfjarðarbær hefur frá upphafi lagt heimilinu til styrki sem nema afborgunum húsnæðislána vegna byggingarkostnaðar sem ekki er dekkaður með öðrum fjárveitingum. Það er þyngra en tárum taki að hugsa um alla þá fyrirhöfn sem stjórnendur þurfa að leggja í samskipti við ríkið og um stöðu þessara mála, bæði í tengslum við rekstur svona heimilis og byggingarframkvæmdir eins og þær sem nú hafa verið í gangi. Stjórnendur og velunnarar heimilisins eiga þakkir skildar fyrir fórnfúst starf og hlýhug í verki. Biðlisti á heimilið lengdist á árinu og í árslok voru jafnmargir á biðlista og íbúarnir eru margir, eða tólf manns. Hagsmunagæsla og samstarfsverkefni sveitarfélaga Þjóðlendumálin tóku tíma á árinu. Í ágúst kvað óbyggðanefnd upp úrskurð um að Gunnungsfell (Gunnólfsfell) sé að hluta í eigu bæjarins en að hluta til þjóðlenda. Bærinn hélt því fram að fellið allt tilheyrði jörðinni Hrafnkelsstöðum, sem er eign bæjarins. Aðliggjandi svæði á Eyrarbotni, innst í Kolgrafafirði, var gert að þjóðlendu, en var áður talið tilheyra jörðinni Hallbjarnareyri, sem er í eigu ríkisins sjálfs. Beitarréttindi og önnur réttindi haldast þó óbreytt, frá því sem verið hefur. Bæjarstjórn hefur verið dugleg að halda á lofti ýmsum hagsmunamálum samfélagsins, sem ekki verða öll talin hér upp. Það er gert með margvíslegum eftirrekstri, aðhaldi og málaleitan, og ábendingum um það sem betur má fara. Þetta er drjúg vinna og þessum verkefnum lýkur aldrei. Ógrynni nýrra verkefna og umbótaverkefna eru óunnin á vettvangi bæjarstjórnar og stefnum við ótrauð áfram veginn. Bæjarstjórn og bæjarstjóri hafa leitast við að taka þátt í umræðum og stefnumótun um hagsmunamál okkar á vettvangi sveitarfélaganna og undirrituð hefur fengið tækifæri til að taka þátt í ýmsum ráðstefnum, með erindum, í pallborði eða öðru framlagi. Það er lærdómsríkt og oft gefandi. Bærinn tekur þátt í fjölmörgum samstarfsverkefnum með öðrum sveitarfélögum og samstarfsaðilum. Ég vil nefna Jeratún ehf. sem á húsnæði Fjölbrautaskólans og leigir það til ríkisins. Stjórn Jeratúns ákvað að ráðast í tímabærar umbætur á lóð fjölbrautaskólans, sem aldrei hefur að fullu verið lokið við. Ekki náðist að hefja framkvæmdir sl. sumar, en á komandi vori og sumri verður vonandi gengið frá grænum svæðum, tyrft og fleira lagfært á lóðinni. Samstarf sveitarfélaganna fimm á Snæfellsnesi, Ferðamálasamtaka Snæfellsness, búnaðarfélaga á svæðinu og SDS hefur verið í gangi í fimm ár. Á vegum Svæðisgarðsins Snæfellsness var í júní opnuð Gestastofa Snæfellsness að Breiðabliki, í samstarfi við Eyja- og Miklaholtshrepp, eiganda hússins. Starfsemi Gestastofu á að nýtast öllum sveitarfélögum á Snæfellsnesi og þjónustuaðilum á svæðinu. Á haustdögum var svo sett af stað metnaðarfullt og mjög spennandi matarverkefni, sem ég er sannfærð um að eigi eftir að þjóna hagsmunum mjög margra framleiðenda og þjónustuaðila á Snæfellsnesi. Hjá stjórn Svæðisgarðs fór fram mikil vinna við að rýna starf og afrakstur fimm ára samstarfs og marka meginstefnumál til næstu ára. Á aðalfundi í byrjun desember var sú vinna lögð fyrir eigendur og samþykkt stór þungavigtarmál fyrir Snæfellsnes, sem ætlunin er að vinna að á komandi árum. Sem formaður stjórnar Svæðisgarðsins vil ég þakka stjórnarfólki og samstarfsaðilum í Svæðisgarðssamstarfinu sérstaklega fyrir ánægjulegt, en krefjandi, starf á árinu. Meira um þessi verkefni síðar. Með samstarfi í gegnum Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga, með aðkomu fulltrúa hagsmunaaðila, var unnið að hönnun og undirbúningi byggingar íbúðakjarna, fimm íbúða, við Ólafsbraut 62 og 64 í Ólafsvík, sem verða búsetuúrræði fyrir fatlað fólk. Sveitarfélögin fengu umhverfisvottun í tíunda sinn, svokallaða platínuvottun, frá Earth Check, og sameiginlegt strandhreinsun í byrjun maí gekk mjög vel. Við eigum fyrir höndum umtalsverða vinnu við að þróa umhverfisstarf okkar enn frekar. Meira síðar um það. Sveitarfélögin á Snæfellsnesi áttu samstarfsfundi með stjórnendum HVE um heilbrigðisþjónustu á svæðinu, um aukið samstarf um þjónustu við eldri borgara og um geðheilbrigðismál ungs fólks. Frumkvæði að fundunum áttu sveitarstjórnarmenn á svæðinu, haustið 2018. Samtalið hefur verið mjög gott og jákvætt og vonandi skilar það enn betri þjónustu við íbúa, eins og að er stefnt. Á Vesturlandsvettvangi var m.a. unnið að nýrri sóknaráætlun landshlutans, m.a. með greiningum sviðsmynda fyrir atvinnulíf og búsetu á svæðinu. Bæjarstjóri tók m.a. þátt í þeirri vinnu. Haldið var uppá 50 ára afmæli samtakanna okkar, SSV, í lok nóvember sl. Atvinnulíf og þróun Því er ekki að neita að bæjarstjórn reiknaði með ögn jákvæðari þróun útsvarstekna, m.v. forsendur. Íbúafjöldi stóð í stað, sem vonandi veit á gott um að neikvæð íbúaþróun síðustu ára sé að snúast við. Jákvætt er einnig að nýburar ársins hafa ekki verið fleiri í langan tíma; 16 börn fæddust á árinu og börn í árgangi 2018 eru orðin 14 talsins. Það eru hærri tölur en sést hafa síðustu árin. Við finnum líka fyrir auknum áhuga og þreifingum um húsbyggingar, sem eru löngu tímabærar. Við fengum til okkar nýtt starfsfólk á árinu, m.a. til embættis skipulags- og byggingarfulltrúa, í markaðsmálin, nýja kennara, starfsfólk á leikskóla og nýr bókari hóf störf um áramótin. Ég þakka starfsfólki bæjarins innilega fyrir gott starf á árinu sem leið. Mjög margt jákvætt gerðist í atvinnulífi í Grundarfirði á árinu. Áður er minnst á fjölda ferðamanna; kajak- og hestaferðir, auk hvalaskoðunar, voru áberandi afþreying sl. sumar. Nefna má nýja hátæknifiskvinnslu G.Run sem tekin var í notkun eftir stuttan byggingartíma. Þrjú ný skip, í eigu FISK Seafood, SC og G.Run., komu til heimahafnar í Grundarfirði í september/október og vinnsla saltfisks hjá SC hefur verið mjög kraftmikil á árinu. Opnuð var Hestamiðstöð Snæfellsness í júlí, í afar fallega uppgerðu húsnæði í hesthúsahverfinu, með Kirkjufellið í forgrunni. Klifurfell, menningarhús, með klifurveggi og golfhermi, tók einnig til starfa sl. haust. Það er spennandi nýjung sem ég hvet fólk til að prófa. Bjargarsteinn Mathús fékk viðurkenningu frá Icelandic Lamb fyrir að skara fram úr, hlaut gullverðlaun í flokki nýsköpunar á Íslandsmeistaramóti í matarhandverki í nóvember og fleiri viðurkenningar. Mæðgurnar í Svansskála ehf., sem rekið hafa kaffi Emil síðustu ár, kvöddu Sögumiðstöðina og er þeim þakkað fyrir framlag sitt þar og úrvals veitingar sem þar var að sækja. Bókamarkaðurinn á Snæfellsnesi var glæsilegt framtak leshóps í Grundarfirði, starfræktur sl. sumar. Í íþróttunum stóð okkar fólk sig vel – ómetanlegt sjálfboðastarf er unnið af stjórnum og dyggum félagsmönnum allra íþróttafélaganna. Blakdeild og körfuknattleiksdeild UMFG sáu okkur fyrir skemmtilegum leikjum bæði á vori og hausti. Margt fleira mætti nefna. Sé litið til heimsmálanna voru umhverfismálin án efa í forgrunni, ógnir sem að steðja verða alvarlegri og sýnilegri – ákall unga fólksins um breytt gildismat og raunverulegar aðgerðir fóru ekki framhjá neinum. Við eigum að taka það til okkar – öll. Á persónulegri nótum leyfi ég mér að minnast á að í árslok var okkar litla samfélag minnt á það, sem oftar, hve lífið er hverfult og hve mikilvægt er því að njóta stundanna. Gott er líka að minna sig á hve stóran sess hver einstaklingur skipar í samfélaginu. Við verðum oft vitni að því hve dýrmætt það er í litlu samfélagi að samstaða og stuðningur sé ríkjandi, bæði sem lífsviðhorf einstaklinganna og sem birtingarmynd í framkvæmd. Svo ótalmörg góð verk og árangur mætti nefna sem spretta af þessu. Við skulum ekki vanmeta mátt samstöðu og samhjálpar. Við búum yfir dýrmætum auðlindum á svæðinu okkar og tækifærum til að skapa úr þeim enn frekari verðmæti. Ég tel að við eigum mikið inni. Megi okkur farnast vel á árinu 2020 við að smíða okkar eigin gæfu, með samvinnu, gleði og bjartsýni að leiðarljósi!
Björg Ágústsdóttir, bæjarstjóri |