Færst hefur í vöxt að ferðamenn stöðvi bíla sína við brúna yfir Kolgrafafjörð (og jafnvel á henni), til að njóta fegurðar og náttúru fjarðarins. Bæjarstjórn Grundarfjarðar ákvað því, í samvinnu við landeigendur, að skipuleggja og hanna fallegan áningarstað við brúna þar sem heimamenn og gestir geta notið lífríkis og landslags. Markmiðið er að auka umferðaröryggi og bæta aðstöðu til áningar.

 

Í verkefnislýsingu sem nú er kynnt eru settar fram spurningar sem bæjarstjórn þætti fengur að fá viðbrögð við vegna mótunar og þróunar áningarstaðarins. Bæjarstjórn hvetur því íbúa og aðra áhugasama til að kynna sér þá vinnu sem er að hefjast og koma á framfæri hugmyndum og ábendingum sem nýst gætu við skipulagsvinnuna og síðar frekari þróun og kynningu staðarins. Verkefnislýsinguna má nálgast á skrifstofu Grundarfjarðarbæjar og á vef bæjarins www.grundarfjordur.is

Í samræmi við 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010  samþykkti bæjarstjórn á fundi þann 27. okt. 2016, að auglýsa lýsingu vegna deiliskipulags áningarstaðar við brúna yfir Kolgrafafjörð.

 

Athugasemdir og ábendingar berist skriflega á netfangið grundarfjordur@grundarfjordur.is
eða með pósti merkt: Grundarfjarðarbær, Deiliskipulag, Borgarbraut 16, 350 Grundarfjörður
í síðasta lagi 26. nóvember 2016.

 

Bæjarstjórn Grundarfjarðar