Í gær, þriðjudag sammæltist bæjarstjórna Grundarfjarðar um eftirfarandi ályktun vegna boðaðra aðgerða ríkisstjórnarinnar í fiskveiðistjórnun:

Sjávarútvegur er undirstaða atvinnurekstrar í Grundarfirði. Áríðandi er að halda aflaheimildum í byggðarlaginu og standa vörð um störf. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir víðtækum breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfinu sem munu hafa áhrif á afkomu þeirra sem starfa við sjávarútveginn. Bæjarstjórn Grundarfjarðar varar alfarið við áformum ríkisstjórnarinnar um að fyrna aflaheimildir útgerða sem stefnir atvinnuöryggi og velferð íbúa Grundarfjarðar í mikla óvissu. Nauðsynlegt er að skapa vinnufrið um sjávarútveg með því að ná sátt um stjórn fiskveiða. Allar breytingar á fiskveiðistjórnun ber að gera með varúð og í fullu samráði við hagsmunaaðila. Óvissa um starfsgrundvöll sjávarútvegsins og illa ígrundaðar breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu hafa strax neikvæð áhrif á samfélagið og fyrirtæki munu óhjákvæmilega halda að sér höndum hvað varðar uppbyggingu, viðhald og þróun rekstrar.

Bæjarstjórn Grundarfjarðar, 12. maí 2009