- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
„Bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar tekur undir ályktun stjórnar Hafnasambands Íslands frá 2. nóvember 2009, þar sem mótmælt er harðlega hugmyndum um upptöku skatts á farþega skemmtiferðaskipa og tvöföldun vitagjalds.
Á undanförnum árum hefur Grundarfjarðarhöfn lagt í umtalsverða markaðssetningu á höfninni til að laða að aukinn fjölda skemmtiferðaskipa. Áform stjórnvalda geta, ef af verða, kippt grunninum undan þessari starfsemi og hleypt fjárfestingu heimamanna í innviðum hafnarinnar og markaðssetningu í uppnám.
„Stjórn Hafnasambands Íslands mótmælir harðlega öllum hugmyndum um
upptöku nýs skatts á ferðamenn á Íslandi og hækkun vitagjalds, en hvort
tveggja mun leiða til aukinnar gjaldtöku af farþegum og útgerðum
skemmtiferðaskipa sem leggja leið sína til landsins.
Stjórn hafnasambandsins skorar á ríkisstjórnina að endurskoða þessar
fyrirætlanir, sem munu ef af verður skaða þá markaðssetningu sem hafnir og
ferðaþjónustuaðilar hafa staðið fyrir á liðnum árum varðandi
skemmtiferðaskipin og fækka verulega komum þessara skipa til landsins. Það
mun hafa ófyrirsjáanlegar afleiðingar til hins verra fyrir fjárhag þeirra hafna,
sem skemmtiferðaskipin hafa átt viðskipti við eða stefna að viðskiptum við.
Greinargerð:
Nú er að störfum nefnd fjármálaráðuneytisins sem skoðar valkosti um skattlagningu
vegna komu ferðamanna til Íslands, þ.m.t. skatt á farþega skemmtiferðaskipa. Þá liggur
fyrir tillaga um tvöföldun svonefnds vitagjalds, sem skilar ríkissjóði nú þegar 145
m.kr., en er áætlað að skili um 290 m.kr. á árinu 2010. Stjórn Hafnasambands Íslands
hefur skilning á þörf ríkissjóðs til frekari tekjuöflunar, en varar við handahófskenndri
skattlagningu af þessum toga. Á síðustu árum hafa hafnir og ferðaþjónustuaðilar unnið
öflugt markaðsstarf við að fjölga komum skemmtiferðaskipa til Íslands og hefur
farþegum með þessum skipum einnig fjölgað verulega. Ríkissjóður hefur notið góðs af
þessari markaðssetningu án þess að leggja fram teljandi fjármuni. Stjórn Hafnasambands
Íslands hvetur ráðherra ríkisstjórnarinnar að gæta hófs í nýrri skattlagningu
af þessum toga og varar við afleiðingum óskynsamlegrar skattlagningar. Þá undrast
stjórnin að á sama tíma og hafnir, sem flestar standa afar höllum fæti fjárhagslega, eru
hvattar til að gæta hófs í breytingum á gjaldskrám, þá gengur ríkissjóður fram í
veigamiklum hækkunum skatta. Stjórn Hafnasambands Íslands bendir á eftirfarandi í
þessu efni:
a) Ný skattlagning á farþega skemmtiferðaskipa heggur í heimildir hafna til gjaldtöku
samkvæmt hafnalögum.
b) Bent er á reynslu frá Alaska og Noregi þar sem vanhugsuð gjöld drógu úr fjölda
ferðamanna.
c) Af hálfu hafna kemur ekki til greina að hafnirnar annist innheimtu fyrir ríkissjóð á
nýjum farþegaskatti.
d) Samkvæmt lögum er gert ráð fyrir að vitagjald standi undir rekstri
Siglingastofnunar. Þar er nú gert ráð fyrir 10% niðurskurði og verulegum
breytingum á starfsemi stofnunarinnar þannig að hækkun vitagjaldsins er
augljóslega hugsuð sem nýr tekjustofn ríkissjóðs.
e) Hækkun vitagjaldsins mun væntanlega nema hærri fjárhæð en heildarhækkun
hafna á gjaldskrám sínum fyrir árið 2010.
f) Hækkun vitagjaldsins og nýr farþegaskattur munu skaða þá markaðssetningu sem
hafnir og ferðaþjónustuaðilar hafa staðið fyrir á liðnum árum varðandi
skemmtiferðaskipin.““