- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Um síðustu helgi fór fram í annað sinn kvikmynda- og menningarhátíðin Northern Wave í Grundarfirði. Um 200 manns sóttu hátíðina heim, bæði erlendis frá sem og heimafólk og var öll gistiaðstaða í Grundarfirði fullbókuð um helgina. Dögg Mósesdóttir, skipuleggjandi hátíðarinnar, var mjög ánægð með útkomuna.
Eftir opnunarhátíð var hafin sýning á erlendum stuttmyndum. Gjörningahópurinn The Weird girls tók upp myndband og heimildarmynd á meðan að á hátíðinni stóð og frumsýndu brot úr henni á laugardeginum en þá voru sýndar teiknimyndir og tónlistarmyndbönd. Á hátíðinni voru ekki aðeins sýndar stuttmyndir heldur voru einnig haldnir fernir tónleikar með hljómsveitunum Dlx Atx, Sykur, Anonymous og ameríska harmonikkuleikarinn Matt Rock en á laugardagskvöldið sáu Dj Kiki-OW og DJ MOKKI úr Weird girls um tónlistina. Á laugardeginum hélt franski leikstjórinn og gestadómari hátíðarinnar í ár Bertrand Mandico fyrirlestur fyrir fullu húsi og sýndi brot úr myndum sínum. Á sunnudeginum voru svo sýndir tveir klukkutímar af íslenskum stuttmyndum. Hátíðin var haldin í samkomuhúsi Grundarfjarðar en hápunktur hátíðarinnar var á sunnudaginn þegar að verðlaunin voru kynnt. Fyrstu verðlaun að upphæð 100.000 krónur voru veitt stuttmyndinni “Smáfuglum” eftir Rúnar Rúnarsson. Önnur verðlaun að upphæð 70.000 krónur fékk pólska klippimyndin “The Wedding” eða Giftingin eftir Maciek Salomon sem að var viðstaddur hátíðina ásamt vini sínum Maciek Szupica sem að vann verðlaun á hátíðinni í fyrra fyrir besta tónlistarmyndbandið. Sérstaka viðurkenningu fékk svo myndin “Harmsaga” eftir Valdimar Jóhannsson. Fyrstu verðlaun í flokki tónlistarmyndbanda fékk myndbandið “Hair” eftir Milos Tomic frá Tékklandi. Verðlaunin voru styrkt af tveimur stærstu fyrirtækjum Grundarfjarðar, Guðmundi Runólfssyni hf. og Soffanías Cecilssyni hf. Hátíðin hefur nú fengið styrk frá Menningarsjóði Vesturlands fyrir næsta ár svo allt bendir nú til þess að Northern Wave hafi fest sig í sessi.