- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Á 113. fundi bæjarstjórnar s.l. föstudag, var fjárhagsáætlun Grundarfjarðarbæjar fyrir árið 2010 lögð fram. Áætlunin er lögð fram eftir ítarlega umfjöllun í bæjarráði og var mótuð sameiginlega af meirihluta og minnihluta bæjarstjórnar.
Bókun bæjarstjórnar Grundarfjarðarbæjar með afgreiðslu fjárhagsáætlunar fyrir árið 2010 gerð á bæjarstjórnarfundi þ. 14. desember 2009:
„Fjárhagsáætlun Grundarfjarðar fyrir árið 2010 er lögð fram eftir ítarlega umfjöllun í bæjarráði og hefur verið mótuð sameiginlega af bæði meirihluta og minnihluta bæjarstjórnar. Einsog fyrir ári síðan hefur bæjarstjórn haft að leiðarljósi að standa vörð um grunnþjónustu við íbúa, og gæta ýtrasta aðhalds á öllum sviðum.
Helstu atriði fjárhagsáætlunarinnar eru:
Tekjur bæjarfélagsins munu fara lækkandi, aðallega vegna lækkunar á framlögum frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga frá áætlun þessa árs. Fasteignaskattar hækka og gjaldskrár hækka almennt um 8 prósent.
Allir kostnaðarliðir hafa verið yfirfarnir og skornir niður eins og framast er kostur. Verklegar framkvæmdir miða við lágmarks viðhald og frágang á verkefnum sem eru í gangi. Bæjarráð tók fyrir stuttu ákvörðun um að halda ekki áfram framkvæmdum við lagningu gerviefnis á hlaupa-, stökk- og kastbrautir íþróttavallarins á næsta vori í ljósi efnahagsaðstæðna. Nauðsynlegt reynist að framlengja aðgerðaráætlun bæjarstjórnar frá desember 2008 um eitt ár til viðbótar.
Óvenju mikil óvissa er um tekjuhlið fjárhagsáætlunarinnar og mun bæjarstjórn fylgja áætluninni vel eftir og jafnvel grípa til frekari aðhaldsaðgerða á árinu 2010, reynist þess þörf.
Af rekstri A- hluta bæjarsjóðs er áætlaður afgangur kr. 76.135 þús. fyrir afskriftir og fjármagnsliði. Af rekstri samstæðu Grundarfjarðarbæjar er áætlaður afgangur kr. 118.472 þús. fyrir afskriftir og fjármagnsliði. Heildartekjur eru áætlaðar kr. 628.887 þús., þar af eru skatttekjur kr. 459.807 þús. Heildargjöld eru áætluð kr. 636.939 þús. með afskriftum og fjármagnsliðum, þar af er kostnaður við laun og launatengd gjöld kr. 300.343 þús. Heildarniðurstaða af rekstri samstæðu Grundarfjarðarbæjar er kr.
– 8.052 þús.“