- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Fulltrúar úr stjórn og starfsmenn Orkuveitu Reykjavíkur komu á fund bæjarstjórnar fyrir nokkrum dögum. Tilgangur heimsóknarinnar var að fara yfir núverandi stöðu varðandi nýtingu borhola í Berserkseyri til kyndingar í Grundarfirði. Í sem stystu máli kom það fram, að holan hefur fengið sýrumeðferð og eftir er að prufudæla hana til þess að finna út hvað hún mun hugsanlega gefa mikið magn af vinnsluhæfu vatni. Við fyrri prufudælingar hefur ekki náðst nægilegt magn svo það dugi fyrir þarfir byggðarinnar í Grundarfirði en vonir eru bundnar við að sýrumeðferðin hjálpi upp á það. Það olli vandræðum við borunina í vetur að lega og halli sprungunnar var ekki sá sem vænst hafði verið og því fór borinn í gegn um hana miklu ofar en stefnt var að. Að auki kom í ljós að aðeins
var um eina sprungu að ræða en ekki tvær eins og haldið hafði verið. Þegar holan hefur verið prufudæld á ný, verður sest á rökstóla með Orkuveitunni og metið hver næstu skref verða. Allt þetta hefur tafið það verulega að hitaveita fáist í Grundarfjörð en öll von er þó ekki úti. Skiljanlega er fólk orðið langeygt eftir niðurstöðum í þessu máli en taka verður á þolinmæðinni þegar jarðfræði og eðliseiginleikar jarðlaga eiga í hlut. Hvert skref kallar á rannsóknir og prófanir sem geta tekið langan tíma. Við bindum vonir við að með haustinu fáist niðurstöður og áætlanir um framkvæmdir.