- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Aðventan er handan við hornið og Grundarfjarðarbær er hægt og rólega farinn að taka á sig vetrarlega mynd, með fallegum ljósum og skreytingum sem minna á aðventuna framundan. Í fyrra brydduðum við upp á skemmtilegri nýjung, Aðventugluggunum, sem lýstu virkilega upp bæinn okkar á aðventunni.
Þar sem þeir slógu svo vel í gegn í fyrra þá höfum við ákveðið að endurtaka leikinn og halda áfram með jólagluggana, sjá nánar hér.
Á hverjum degi frá 1. til 24. desember opnast einn jólagluggi, sem fyrirtæki, stofnun eða íbúi í Grundarfirði hefur skreytt og býður vegfarendum að kíkja á gluggann. Gluggarnir voru hver öðrum skemmtilegri í fyrra og gaman að sjá mismunandi útfærslur. Það þarf ekki að vera mikið, dýrt eða flókið - einfalt er gott!
Eins og í fyrra geta fyrirtæki, stofnanir eða einstaklingar tekið þátt.
Menningarnefnd auglýsir eftir áhugasömum aðilum til að taka þátt í þessu verkefni með okkur.
Á hverjum degi til jóla birtum við mynd af aðventuglugganum snemma morguns á vef og Facebook-síðu Grundarfjarðarbæjar, þar sem fólki gefst tækifæri til að reyna að giska á hvar hann er í bænum. Það er líka tilvalin hreyfistund með fjölskyldunni á aðventunni, að fara saman út að skoða jólagluggana í bænum.
Áhugasamir eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við Þuríði Gíu á bæjarskrifstofunni á netfangið thuri(hjá)grundarfjordur.is fyrir mánudaginn 22. nóvember.
Aðventukveðjur,
Menningarnefnd