- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Fimmtán ára strákur úr Grafarvogi, Ívar Smárason, varð fimm þúsundasti gesturinn í Eyrbyggju Sögumiðstöð þetta sumarið. Ívar var á ferðalagi ásamt foreldrum sínum og bróður og annarri fjölskyldu. Þau höfðu varið verslunarmannahelginni í blíðu og góðu yfirlæti á tjaldstæðinu í Grundarfirði og komu við í Sögumiðstöðinni áður en haldið var heim á leið.
Á myndinni sést hvar Ingi Hans Jónsson forstöðumaður afhendir Ívari stóra Macintosh dós, í tilefni af því að hann var fimmþúsundasti gestur sumarsins. Einnig var honum boðið upp á veitingar á Kaffi Emil. |
Ívar og samferðafólk hans nutu leiðsagnar um sýningar Sögumiðstöðvar og höfðu öll gaman af, þó hópurinn væri á ólíkum aldri, barn, fullorðnir og tveir unglingar.
Talsverð aukning er á gestakomum í Sögumiðstöð milli ára í þá tvo mánuði sem miðstöðin hefur verið opin í sumar. Íslenskum ferðamönnum hefur fjölgað um 49% og erlendum um rúm 84%. Með því að fjöldi gesta í júní og júlí er nú kominn yfir 5000, er þetta aðsóknarmet miðað við gestafjölda að sumri, allt frá því að Sögumiðstöðin hóf starfsemi sína árið 2003.