- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Aðalfundur Héraðsnefndar Snæfellinga var haldinn í gær, 22. nóvember 2004, í Samkomuhúsinu í Grundarfirði.
Aðilar að héraðsnefnd eru öll sveitarfélög í Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu, þ.e. Kolbeinsstaðahreppur, Eyja- og Miklaholtshreppur, Stykkishólmsbær, Helgafellssveit, Grundarfjarðarbær og Snæfellsbær.
Aðalefni fundarins voru umræður um sameiningu sveitarfélaga, en öll þessi sveitarfélög, utan Kolbeinsstaðahrepps, eiga nú fulltrúa í samstarfsnefnd sem skoðar kosti og galla sameiningar sveitarfélaganna fimm. Vinna nefndarinnar var kynnt, auk þess sem gerð var grein fyrir niðurstöðum könnunar Rannsóknastofnunar Háskólans á Akureyri meðal íbúa á Vesturlandi um sameiningu sveitarfélaga. Könnunin fór fram í september og október sl. og var unnin að beiðni Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi.
Aðalfundurinn samþykkti að leggja til við sveitarstjórnir á Snæfellsnesi að þær fresti því að svara erindi sameiningarnefndar átaks um eflingu sveitarstjórnarstigsins (á vegum félagsmálaráðuneytis) til 1. febrúar 2005, í stað 1. desember 2004, eins og frestur var gefinn til umsagna/athugasemda.
Rökin fyrir því eru aðallega að sveitarfélögin hafa skipað samstarfsnefnd sem vinnur að athugun á kostum og göllum sameiningar. Sú nefnd mun skila niðurstöðum í janúar og var talið rétt að bíða eftir þeim áður en tillögum sameiningarnefndar ráðuneytisins væri svarað. Ennfremur var það talið til röksemda að tillögur tekjustofnanefndar (um skiptingu tekna ríkis og sveitarfélaga) liggja ekki fyrir, en þær eru ein af meginforsendum ákvarðana um sameiningu.
Á fundinum voru eftirtalin kosin í héraðsráð (stjórn héraðsnefndar) til næstu 2ja ára:
Sigríður Finsen, Grundarfirði
Guðbjartur Gunnarsson, Eyja- og Miklaholtshreppi
Dagný Þórisdóttir, Stykkishólmi
Jón Þór Lúðvíksson, Snæfellsbæ
Gunnar Örn Gunnarsson, Snæfellsbæ
Benedikt Benediktsson, Helgafellssveit