Aðalfundur Ferðamálasamtaka Snæfellsness verður haldinn á Hótel Ólafsvík sunnudaginn 5. mars 2006 kl. 16.00

Dagskrá: Venjuleg aðalfundarstörf – Útgáfumál – Green Globe 21 – Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull

Ferðaþjónustuaðilar, sveitarstjórnarmenn og aðrir sem vilja taka þátt í umræðu um ferðamál á Snæfellsnesi eru hvattir til að mæta.


Ferðamálasamtök Snæfellsness 15 ára
Samtökin eru nú orðin 15 ára og verður saga þeirra rakin á aðalfundinum. Hver veit nema nokkrir upphafsmenn samtakanna mæti á fundinn og segi frá tilurð þeirra og hver voru helstu verkefnin fyrstu árin.


Útgáfumál
Stjórn samtakanna hefur ákveðið að gefa út Snæfellsneskortið í þeirri mynd sem það hefur komið út síðan 1998. Þetta er nú fimmta prentun en kortið hefur verið gefið út annaðhvert ár í um 25-30 þús eintökum í hverri prentun. Nokkur breyting varð á kortagrunninum árið 2004 þegar Reynir Ingibjartsson tók að sér að leiðrétta örnefni og bæta inn t.d. gönguleiðum.

Nadine í Stykkishólmi mun eins og vorið 2004, vera í sambandi við þá sem vilja kaupa þjónustuauglýsingar á kortið. Ferðaþjónustuaðilar munu einnig geta komið athugasemdum á framfæri vegna upplýsinga og uppsetningar á kortinu. Hægt er að fylgjast með þeirri vinnu á heimasíðu samtakanna: www.snaefellsnes.net


Ályktun um vega- og fjarskiptamál
"Stjórn Ferðamálasamtaka Snæfellsness fagnar þeim samgöngubótum sem hafa orðið á Snæfellsnesi á liðnum árum og hvetur til þess að hugað verði að áframhaldandi uppbyggingu vega. Þar má telja framkvæmdir á Útnesvegi, uppbyggðan veg með bundnu slitlagi um Fróðaárheiði og uppbyggingu vegar um Skógarströnd. Þessar framkvæmdir eru hagsmunamál allra Snæfellinga og hafa jákvæð áhrif á ferðaþjónustu á öllu Snæfellsnesi en ekki aðeins hagsmunamál þeirrar byggðar sem er næst framkvæmdunum. Stjórn Ferðamálasamtaka Snæfellsnes fagnar einnig fyrirhuguðum bótum á fjarskiptasambandi og Internettenginum á öllu svæðinu samkvæmt nýrri fjarskiptaáætlun og bendir á að þessar úrbætur er allri ferðaþjónustu á svæðinu nauðsynlegar og mjög mikilvægar."


Green Globe 21 vottun Snæfellsness
Nú í apríl mun erlendur úttektaraðili gera úttekt á öllu Snæfellsnesi og er það liður í úttektarferli Green Globe 21. Það er Framkvæmdaráð Snæfellsnes sem sér um þessa vinnu. Green Globe vottun Snæfellsness er vottun á samfélagi/svæði og mun hún færa öllum atvinnufyrirtækjum og sveitarfélögum mikil tækifæri í t.d. markaðssetningu og innra starfi. Með því umhverfisstjórnunarkerfi sem Green Globe 21 staðallinn gefur okkur, getum við náð miklum hagrænum árangri - en innbyggt í Green Globe er einmitt þessi hagræni ávinningur - hvort sem það er í sparnaði í aðföngum, bættri ímynd eða aukinni sérstöðu á mörkuðum okkar afurða - gildir þá einu hvort um ferðaþjónustu, fiskafurðir eða eftirsókn um mannauð er að ræða.


Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull
Fulltrúi ferðamálasamtakanna í þjóðgarðsnefnd er Skúli Alexandersson. Í fréttum sagði Skúli að undirbúningur að byggingu Þjóðgarðsmiðstöðvar á Hellissandi sé nú hafinn. Samkeppni um hönnun hússins er í gangi. Þess er vænst að úrslit keppninnar verði kunn í júní. Þjóðgarðsmiðstöðinni er ætlaður staður ofan Útnesvegar vestan við sjóminjasafnið á Hellissandi. Starfsemin á komandi sumri verður með svipuðum hætti og s.l. sumar. Til staðar verður góð þjónusta á Gestastofunni á Hellnum, upplýsingar gefnar um Þjóðgarðinn og leiðsögn veitt svo sem gert hefur verið.
Unnið er nú að því að laga aðgengi að forminjunum á Gufuskálum: Fiskbyrgjunum, Írskabrunni og Gufuskálavör og verður þar mikil og góð breyting á til batnaðar fyrir ferðamenn. Einnig stendur
til að gera eitthvað til að auðvelda fólki að komast að sandfjörunni í Skarðsvík. Vinna við verndaráætlun fyrir Þjóðgarðinn er nú á lokastigi. Þar verður tekið á þáttum eins og umferðinni á og aðkomunni að Snæfellsjökli, aðgengi að skoðunarstöðum út frá Útnesvegi o.fl. Skrifstofa þjóðgarðsvarðar Guðbjargar Gunnarsdóttur er á Klettsbúð 7 á Hellissandi.


Snæfellsjökull mesta upplifunin
Bandaríska tímaritið New Yorker hefur valið þá tíu staði í heiminum sem sem ferðamenn eru sagðir verða að skoða. Í efsta sæti á þessum lista er Snæfellsjökull á Íslandi og tímaritið segir að þar sé hægt að láta sér líða vel uppi á jökli - og renna sér síðan á skíðum niður.

Aðrir staðir á lista tímaritsins eru Yap í Míkrónesíu, Bray í Berkshire þar sem blaðið segir að hægt sé að fá sniglahafragraut og beikonís. Tókýó þar sem hægt er að eyða öllum gjaldeyrinum án þess að fá samviskubit, Boca Paila á Yucatanskaga, Glasgow í Skotlandi þar sem hægt sé að dansa á staðnum King Tut Wah Wah Hut, þar sem Oasis urðu frægir, Macao þar sem spilavítin eru nefnd, fjallið Kilimanjaro og Gobieyðimörkin.

(frétt á mbl.is 17.1.2006)


Aðalfundir Upplýsinga- og kynningarmiðstöðvar Vesturlands, UKV og Ferðamálasamtaka Vesturlands
verða haldnir að Fossatúni, Borgarfirði fimmtudaginn 9. mars 2006

Dagskrá:

Kl. 12.00 Aðalfundur UKV, venjuleg aðalfundarstörf og önnur mál.

Athugið að fundargestir geta keypt sér léttan hádegisverð á meðan á fundinum stendur.

Kl. 13.15 'Tónmilda Ísland' atriði frá gestgjafanum Steinari Berg.

Kl. 14.00 Aðalfundur Ferðamálasamtaka Vesturlands, venjuleg aðalfundarstörf og önnur mál.

Kaffiveitingar í boði fundanna - Markaðssetning Vesturlands, kynning á All Senses og umhverfismál

Ferðaþjónustuaðilar, sveitarstjórnarmenn og starfsmenn sveitarfélaga eru hvattir til að mæta
og taka þátt í störfum um ferðamál. Stjórnir FSVL og UKV.

Ferðamálasamtök Snæfellsness - www.snaefellsnes.net - ferdamalasamtok@snaefellsnes.net