Þjóðvegur 54, við Kaldá, júlí 2023.
Þjóðvegur 54, við Kaldá, júlí 2023.

Bæjarstjóri skrifar:

Þjóðvegur 54*, Snæfellsnesvegur, frá Hítará að og um Snæfellsnes, er að stórum hluta ónýtur. Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi og bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar hafa ítrekað ályktað um bágborið ástand þjóðvegarins, síðast þann 12. mars 2024

Slæmt ástand 

“Jarðsig og frostskemmdir hafa gert veginn ósléttan yfirferðar, slitlag er gróft og bútakennt eftir áralangar holufyllingar, vegkantar eru víða brotnir og hafa gefið eftir á löngum köflum og víða eru vegir of mjóir. Á sumum stöðum er vatnsagi á vegi mikið vandamál.”

Framangreind lýsing í ályktun bæjarstjórnar Grundarfjarðarbæjar frá árinu 2020 er því miður enn í fullu gildi og hefur ástand þjóðveganna sjaldan verið eins slæmt og nú. Hættan sem leiðir af ástandi veganna er algjörlega óviðunandi fyrir notendurna. Á það jafnt við um íbúa, gesti, atvinnubílstjóra og neyðarflutninga.  

Aukin umferð 

“Verulega aukin umferð, þar á meðal stórauknir þungaflutningar á síðustu árum, sumar sem vetur, kallar á aukin framlög til vegagerðar, ekki síst til almenns viðhalds” segir í ályktunum bæjarstjórnar Grundarfjarðarbæjar síðustu árin.

Það er ótækt að benda á einstaka atvinnugreinar eða tegundir ökutækja sem “sökudólga” fyrir versnandi ástandi þjóðvega. Þjóðvegirnir eru innviðir sem þurfa að geta þjónað samfélaginu og þörfum atvinnulífs eftir því sem það breytist. Á okkar svæði hafa breytingarnar falist í auknum hreyfanleika íbúa og stóraukinni umferð farartækja með ferðamenn og fisk. 

Þróun umferðar árin 1980-2023, vísitala
Mynd SSV (Tölfræði um Vesturland, 2023) byggð á tölum Vegagerðarinnar.

 

Fjármagn til viðhalds á Vestursvæði

Samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar fóru árið 2023 um 1.330 millj. kr. í viðhald þjóðvega á Vestursvæði (athugið, að Vestursvæði nær yfir bæði Vesturland og Vestfirði). Líkindi eru fyrir sambærilegri fjárhæð í ár og sé horft til þróunar verðlags þýðir það raunlækkun fjárveitinga milli ára. Fjármagn þetta, til styrkinga og endurbóta, er einungis talið standa undir tæpum 7% af kostnaði við allra brýnustu verkefnin á öllu Vestursvæðinu. 

Í þjóðvegunum liggja mikil verðmæti sem fara forgörðum, sé viðhaldi þeirra ekki sinnt. Nýlegt dæmi er slæmt ástand á þjóðvegi 60, Vestfjarðavegi, í Dölum og Reykhólasveit. Þar hafa heilu vegarkaflarnir gefið sig og verður vegum sem lagðir voru bundnu slitlagi breytt tímabundið í malarvegi. Ef fram heldur sem horfir, verður þess ekki langt að bíða að það sama gerist á Snæfellsnesvegi.

Fjármagn til nýrra framkvæmda á Vesturlandi 

Samkvæmt samantekt SSV (september 2023) námu fjárveitingar til nýframkvæmda við stofnvegi á Vesturlandi sl. ellefu ár (2013-2023) um 4,2 milljörðum kr.
Í meðförum Alþingis er nú samgönguáætlun áranna 2024-2038. Henni er skipt niður í þrjú 5 ára tímabil. Í tillögu að aðgerðaáætlun sem nær yfir fyrsta tímabilið, árin 2024-2028, eru áætlaðir 44,4 milljarðar kr. til stofnvega á landsbyggðinni (utan höfuðborgarsvæðisins og Reykjaness). Af þeim 44,4 milljörðum eru einungis 700 milljónir kr. ætlaðar til framkvæmda á Vesturlandi. Til fróðleiks þá teljast 700 milljónir kr. vera 1,6% fjárveitinga til stofnvega á landsbyggðinni, en á Vesturlandi eru um 14% alls vegakerfis landsins í lengdarmetrum talið. Af einstökum landshlutum (utan höfuðborgarsvæðis) færi mest á Suðurland eða 18,8 milljarðar kr. verði áætlunin samþykkt. Það segir sig sjálft að 700 milljónir eru í engu samræmi við brýna framkvæmdaþörf svæðisins. 

Og sé horft sérstaklega til Snæfellsnesvegar, þjóðvegar 54, þá er í drögum að samgönguáætlun í fyrsta sinn gert ráð fyrir nýrri framkvæmd sem felst í að endurbyggja 19,5 km vegarkafla frá Brúarhrauni að Dalsmynni fyrir næstum 2 milljarða kr. Sú dýra framkvæmd er einkum komin til vegna áralangs skorts á viðhlítandi viðhaldi, en er hins vegar ekki áætluð fyrr en á þriðja tímabili, eða eftir tíu ár! 

Fyrsta tímabil samgönguáætlunar er þegar hafið og liðnir tveir og hálfur mánuðir, án þess að áætlunin hafi verið afgreidd og óvissu eytt um fjárveitingar. Það er kannski eins gott, því 700 milljónir króna á næstu fimm árum er blaut tuska í andlit Vestlendinga. 

Forgangsröðun 

Þegar fjölskyldan stækkar, vinum fjölgar og gestagangurinn eykst á heimilinu, grípa höfuð fjölskyldunnar til þess ráðs að stækka við sig húsnæðið. Sama á við um íslenskt samfélag síðustu áratugina, þar sem íbúum hefur fjölgað en gestunum þó enn meira. Allir þurfa að komast leiðar sinnar og þörf fyrir ný mannvirki, m.a. samgöngumannvirki, er brýn. Að sinna viðhaldi eldri eigna, eins og þjóðvega, er samt jafn nauðsynlegt og að fjárfesta í nýjum, jafnvel brýnna, þannig að sú fjárfesting skili þjóðinni stöðugum ávinningi, en verði ekki aukin byrði þegar fram í sækir. Eða hver byrjar á nýrri viðbyggingu við húsið sitt, meðan eldri hluti þess er að grotna niður?  

* þessi lýsing á einnig við um kafla á fleiri vegum á Snæfellsnesi, t.d. 56 um Vatnaleið.

Grundarfirði, 13. mars 2024,
Björg Ágústsdóttir, bæjarstjóri

- Grein um sama efni birtist einnig í héraðsfréttablaðinu Skessuhorni 13. mars 2024.