- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Það hefur ekki farið framhjá íbúum Grundarfjarðar frekar en landsmönnum öllum það tíðarfar sem verið hefur undanfarið. Þar hefur mikill klaki og hálka gert íbúum erfitt um vik með að komast ferðar sinnar á öruggan hátt. Ástandið þykir óvenjulegt og hafa elstu menn varla upplifað annað eins. Hið sama á við víða um landið. Ástandið er erfitt og ekki síst hversu langan tíma það hefur varað.
Starfsmenn bæjarins og verktakar við snjómokstur hafa unnið sleitulaust að því að vinna bug á þessum erfiða vanda. Salt og sandur hefur verið notaður í ómældu magni til að reyna að vinna bug á klakanum, en saltað hefur verið upp á hvern einasta dag frá jólum. Saltnotkun frá jólum er orðin meiri en hún var allan veturinn á undan.
Gæta þarf varúðar við notkun sands í einhverju magni þar sem hann getur auðveldlega stíflað frárennsliskerfið. Þá daga sem hlýrra hefur verið, hafa starfsmenn notað til að brjóta niður klakann, sem einungis er hægt að gera við rétt hitastig. Þá er ekki hægt að sleppa dýrmætu tækifæri þegar réttar aðstæður gefast, jafnvel þó beri upp á helgi. Mikið hefur áunnist þessa dagana við niðurbrotið.
Algengt hefur verið að hitastigið hafi verið rétt yfir frostmarki á daginn en undir því á kvöldin. Við söltun hefur klakinn aðeins bráðnað, en einungis meðan hitastigið er yfir frostmarki. Þegar frýs að kvöldi verður klakinn enn sleipari en fyrr. Við söndun fer sandurinn ofan í klakann sem gerir ástandið skárra yfir daginn, en þegar frystir um kvöldið myndast glerungur yfir, sem gerir fólki erfitt fyrir að átta sig á hversu hált er í raun.
Flestir íbúar sýna ástandinu skilning og umburðarlyndi enda er það ekki í mannlegu valdi að stjórna veðurfari. Íbúar þurfa þó líkt og gert er með dekk bifreiða að huga vel að skóbúnaði og velja hann miðað við aðstæður hverju sinni. Í verslunum bæjarins er m.a. hægt að kaupa ýmis hjálpartæki til að festa við skó.
Snjómokstur og hálkuvarnir byggja á mati á aðstæðum hverju sinni og þekkingu og reynslu þeirra sem á þessum málum halda. Allir eru að gera sitt besta. Að þessu sinni eru aðstæðurnar mjög óvenjulegar, en við getum þó huggað okkur við að þetta er tímabundið ástand. Leiðarljósið hjá Grundarfjarðarbæ er að gera allt sem mögulegt er og skynsamlegt, til að tryggja öryggi íbúa.