Bæjarhátíðin Á góðri stund fór fram um nýliðna helgi og var mikið af gestum, líf og fjör í bænum. Skemmtileg og fjölskylduvæn dagskrá var í boði frá fimmtudegi og fram á laugardagskvöld. Bærinn var fallega skreyttur í hverfalitunum og falleg listaverk og skreytingar mátti sjá víðsvegar um bæinn. 

Að vanda var "þjófstart" í hátíðartjaldi niðrá höfn á fimmtudagskvöldi og þar komu fram glæsilegar söngkonur úr Grundarfirði, Bjartmar Guðlaugsson og Bryndís Ásmundsdóttir. Á föstudeginum var Páll Óskar með vel heppnað krakkaball í hátíðartjaldi og síðan var hátíðardagskrá á kirkjutúni, Latabæjar gengið, Bmx brós, Sylvía Rún og fleiri með brekkusöng. Kvöldið endaði á stórdansleik með Páli Óskari. Á laugardeginum var dagskrá víðsvegar um bæinn, uppákomur og hin sívinsæla fiskisúpa Lions við Sögumiðstöðina, keppnin Snillingar Grundarfjarðar og froðugaman í Paimpolgarði í umsjón slökkviliðsins. Ingi Hans var með þrjú ólík erindi í Sögumiðstöð, m.a. var afhjúpað endurgert píanó sem listakonan Elsa Björnsdóttir hefur myndskreytt fallega - með myndum af fólki sem lagði skerf til tónlistarlífs í Grundarfirði á árum áður. Eftir kvöldmat og heilagan hvíldartíma fór skrúðganga frá kirkjutúni, þar sem öll hverfi gengu saman niðrá höfn. Þar sáu þeir Ásgeir Páll og Björgvin Franz um kynningu og sprell. Börnin sem tóku þátt í söngsmiðju í umsjón Sylvíu stigu á stokk með söngatriði . Kvöldið endaði svo á dansleik í hátíðartjaldi með Stefáni Hilmars, Gunna Óla, Unni Birnu og fleirum. 

    

 

Grundarfjarðarbær færir stjórn og starfsfólki Hátíðarfélagsins innilegar þakkir fyrir frábæra háíðardagskrá og góðan undirbúning, íbúum og gestum er þakkað fyrir þátttökuna og góða umgengni. Sérstakar þakkir einnig til þjónustuaðila í bænum og til starfsfólks bæjarins, s.s. tjaldsvæðis, áhaldahúss, sundlaugar, hafnar og annarra sem stóðu vaktina og sáu um að þjónusta hátíðargesti og halda svæðum hreinum og öruggum.