Þessa dagana fer fram bæjarhátíðin okkar "Á góðri stund í Grundarfirði". Hátíðin er töluvert umfangsminni þetta árið, í ljósi aukningar á COVID-smitum á landinu undanfarna daga.  Sumum dagskrárliðum hátíðarinnar hefur verið frestað, en annað er þó ennþá á dagskrá.

Hátíðin fór af stað á miðvikudagskvöldið þegar Ingi Hans Jónsson var með fyrsta erindi sitt af þremur, um það hvernig þorp varð til. Fjallaði hann þar um áhrif hafnarframkvæmda á uppyggingu þorpsins. Á fimmtudagskvöldinu var Ingi með stórfróðlegt erindi undir fyrirsögninni "Og áttu börn og buru" þar sem hann stiklaði skemmtilega á íbúa- og húsasögu í vaxandi þorpi.

Mynd Tómas Freyr Kristjánsson

Á fimmtudagskvöldið voru einnig þeir Friðrik Ómar og Jógvan og héldu uppi stuðinu á algjörlega frábærum tónleikum, eins og þeim einum er lagið. Tónleikarnir, Sveitalíf 2, voru haldnir í Fjölbrautaskóla Snæfellinga og er óhætt að segja að fólk hafi skemmt sér konunglega. 

 

 

Föstudagur 23. júlí

Veltibíllinn verður á hafnarsvæðinu frá kl 12:00-15:00 í boði Sjóvár.

Garðpartý Græna Kompanísins í garðinum hjá þeim, Hrannarstíg 5, kl. 14:30. Amelía Rún og Kristbjörg Ásta ætla ásamt fylgisveinum að flytja ljúfa tónlist og hita okkur upp fyrir helgina. Hafið með ykkur garðstóla og verið klædd í samræmi við aðstæður.

Viðburður á Facebook

Ingi Hans verður síðan með erindi um upphaf bílaaldar í Grundarfirði, kl. 20:00 í kvöld í Sögumiðstöðinni.

Munum öll að huga vel að sóttvörnum - hver fyrir sig - sýna líka tillitssemi og fara varlega.

Góða skemmtun!