- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Þann 6. janúar síðastliðinn var grunnskólinn 50 ára og er þá miðað við þann tíma sem flutt var í elsta hluta núverandi skólahúsnæðis. Í tilefni þess var opið hús í skólanum og boðið upp á léttar veitingar.
Á veggjum skólans var að finna brot úr byggingasögu og sögu skólans og dagbókarbrot Elimars Tómassonar sem var hér skólastjóri þegar skólahald var í samkomuhúsinu. Ennfremur var myndasýning með yfir 300 myndum úr skólalífinu frá ýmsum tímum. Fjöldi manns kom í heimsókn og bárust skólanum margar góðar gjafir. Grundarfjarðarbær gaf skólanum 300.000 kr. til tækjakaupa, Kvenfélagið Gleym mér ei gaf stjörnukíki og smásjá sem tengja á við tölvu, Lionsklúbbur Grundarfjarðar gaf uppþvottavél í heimilisfræðistofuna, Sæból ehf. gaf 50.000 kr. til innkaupa í heimilisfræði, Mareind gaf eldhúseiningu í heilsdagsskólann en auk þessa gáfu einstaklingar og stofnanir góðar og gagnlegar gjafir sem nýtast vel í skólastarfinu. Dagurinn var hinn ánægjulegasti og til gamans má geta þess að einn starfsmaður skólans, Jenný Ríkharðsdóttir varð fimmtug sama dag og skólinn.
Hægt verður að sjá myndasýninguna á heimasíðu skólans grundo.is undir tenglinum 50 ára afmæli skólans.