- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
48. stjórnarfundur Eyrbyggja 4. nov. 2003 kl 20:00 í Lágmúla í Reykjavík.
Viðstaddir: Ásthildur Elva Kristjánsdóttir, Orri Árnason, Guðlaugur Þór Pálsson, Bjarni Júlíusson, Hafdís Gísladóttir, Hermann Jóhannesson.
1. Sögufélög á Breiðafirði
Bjarni Júlíusson sagði frá fundi í Sögumiðstöðinni í Grundarfirði, þar sem reifaðar voru hugmyndir um að stofna eitt sögufélag sem næði til alls Breiðafjarðarsvæðisins og/eða koma á samvinnu núverandi sögufélaga á svæðinu.
2. Rekstraráætlun
Gjaldkera félagsins, Ásthildi Kristjánsdóttur, var falið að stilla upp rekstraráætlun fyrir starfsárið, til að auðveldara verði að meta fjárþörf félagsins.
3. Fiskislóðir
Ítarlegt yfirlit yfir fiskislóðir í grennd Grundarfjarðar hefur verið gert á vegum félagsins, en ástæða þykir til að hafa samband við skipstjóra af yngri kynslóðinni til að gera það enn ítarlegra.
4. Næsta bók
Stefnt er að uppkasti að efnisyfirliti næstu bókar fyrir næsta fund. Áhugi er fyrir því að auka verulega fjölda ljósmynda, sem tengjast Grundarfirði, í bókinni.
5. Endurprentun bóka
Fyrsta bók félagsins er löngu uppseld og rétt þykir að athuga hver kostnaður væri af því að prenta fleiri eintök af henni um leið og nýja bókin kemur út. Bjarna var falið að athuga málið.
Þeir sem áhuga hafa á að eignast fyrstu bókina er bent á að hafa samband við Hermann í síma 898 2793 eða senda honum tölvupóst í hermann@bhs.is
6. Grundfirðingar á vídeo
Stefnt skal að því að taka viðtöl við Grundfirðinga á vídeo. Þannig myndu ekki einungis varðveitast fróðlegar og skemmtilegar sögur, heldur einnig yfirbragð sögumanna og frásagnamáti. Hermanni var falið að útfæra
hugmyndina frekar.
7. Grundfirðingakvöld
Áhugi er fyrir því að efna til Grundfirðingakvölds í Reykjavík. Slík kvöld væru góður vettvangur fyrir Grundfirðinga til að hittast og rifja upp liðna tíma og sögur frá Grundarfirði.
8. Framfaraverðlaun
Fjörugar umræður urðu um veitingu framfaraverðlauna.
9. Geymsla undir bækur
Óseldar bækur félagsins eru dreyfðar vítt og breitt í geymslum nú- og fyrrverandi stjórnarmanna. Því er erfitt að henda reiður á fjölda þeirra og staðsetningu og æskilegt væri að finna varanlega geymslu undir þær í Grundarfirði.
10. Útsýnisstaðir
Nú er unnið við að hrinda hugmyndum af stað um útsýnisstað við Kolgrafarfjörð. Það er von Eyrbyggja og trúa að vel muni takast til og verða tilefni til að útbúa fleiri slíka staði á leiðinni til Grundarfjarðar. Í því sambandi vilja Eyrbyggjar vekja upp gamlar hugmyndir um útsýnisstað í Hamrahlíðinni. Á slíkum stað væri upplagt að setja upp útsýnisskífu þar sem tilgreind væru helstu örnefni. Þar gætu ferðalangar stansað og virt fyrir sér bæinn og fjallahringinn sem umvefur hann. Útsýnistaðurinn gæti orðið að nokkurskonar fordyri Grundarfjarðar.
11. Efnisöflun
Hefja þarf vinnu við öflun efnis í þar næstu bók og sérstaklega efnis sem tengist útsveitinni, því samtímis útgáfu bókarinnar verður prentuð örnefnamynd úr sveitinni.
12. Næsti fundur
Ákveðið var að halda næsta fund þriðjudaginn 2. desember, kl. 20.00