- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
28. Stjórnarfundur Eyrbyggja kl 20 7. jan 2002 í Perlunni.
Viðstaddir: Hildur Mósesdóttir, Elínbjörg Kristjánsdóttir, Gísli Karel Halldórsson, Guðlaugur Pálsson, Ólafur Hjálmarsson
1. Framfaraverðlaun Eyrbyggja.
Framfaraverðlaun Eyrbyggja voru afhent síðastliðinn laugardag. Viðurkenninguna hlaut að þessu sinni Mareind ehf. fyrir farsæla uppbyggingu á fyrirtæki sem starfar á sviði sem var ekki til áður í byggðarlaginu. Því til staðfestingar var afhent skjal sem Freyja Bergsveinsdóttir skrautritaði og listmunur eftir Inga Hans Jónsson.
2. Styrkur Búnaðarbankans.
Nú fyrir jólin fengu sögunefnd Eyrarsveitar og Eyrbyggjar styrk úr Styrktar og menningarsjóði Búnaðarbankans. Styrkurinn var veittur vegna útgáfu á safni til sögu Eyrarsveitar. Styrkupphæð var 200.000 kr.
3. Loftmyndir.
Eyrbyggjar hafa keypt 14 loftmyndir á tölvutæku formi af Grundarfirði frá 1946 til 1993. Fyrirhugað er að nota myndirnar til að gera grein fyrir uppbyggingu byggðarlagsins og þróun.
Sigurberg Árnason frá Hellnafelli og fyrrverandi byggingarfulltrúi í Grundarfirði hefur tekið að sér í samvinnu við Gísla að skrá inn á myndirnar á tölvutæku formi upplýsingar um hús og byggingar og þróun byggðarlagsins. Stefnt er að því að birta tvær elstu myndirnar í næstu bók.
4. Kvíabryggjuplássið.
Vilhjálmur Pétursson forstöðumaður á Kvíabryggju er með miklar upplýsingar um gamla Kvíabryggjuplássið. Vilhjálmur hefur tekið vel í að koma þessum fróðleik á blað þannig að við gætum birt það í bókinni okkar.
5. Sagnfræðiritgerð.
Davíð Wíum sagnfræðinemi hefur áhuga á að skrifa lokaritgerð sem tengist Grundarfirði. Stungið var upp á því við hann að skrifa um útgerðarsögu Eyrarsveitar , flutning fólks frá Kvíabryggju í Grundarfjörð og þróun útgerðarinnar. Davíð mun bera þessa tillögu undir sína kennara í Háskólanum. Ef vel tekst til gæti hér komið skemmtileg sögugreining
6. Örnefnaskilti.
Lögð var fram mynd sem Gunnar Magnússon og Hildur Sæmundsdóttir í örnefnanefnd hafa unnið á panoramamynd frá Guðjóni Elíssyni. Myndin er mjög glæsileg.
Gísli las upp bréf frá Gunnari M og Hildi S. Þau varpa þar fram þeirri hugmynd að setja örnefnaskiltið frekar upp á kampinum við Fornu-Grund. Stjórn Eyrbyggja var sammála um að þessi hugmynd væri góð og þyrfti að útfæra hana betur. Taka þyrfti myndir frá Fornu-Grund og fullvissa sig um ágæti útsýnisstaðarins. Eftirfarandi rök hafa komið fram fyrir því að hafa útsýnisstaðinn frekar á kampinum við Fornu-Grund.
a) Þjóðvegurinn er beinn og breiður á þessum kafla, góð aðstaða fyrir útskot og slysahætta minni en vegna útskots á Hamrahlíðinni.
b) Merkar fornminjar eru á Fornu-Grund. Á sama stað gæti fólk þannig skoðað fornminjar og örnefnaskilti. Tengingum við þjóðveginn er fækkað með því að hafa þetta á sama stað.
c) Fjallahringurinn fallegri ef eitthvað er, vel sést inn í Grundarbotninn og allan hringinn að Höfðakúlum. Einnig sést Framsveitin að Eyrarfjalli.
Lögð var fram tillaga frá Freyju Bergsveinsdóttur að útfærslu á örnefnaskiltinu. Um er að ræða að stálplata með innbrenndum fjallahringnum og örnefnum verði fest á hlaðið steinborð. Tillagar fékk góðar undirtektir. Tillagan að örnefnaskiltinu og nýrri staðsetninu við Fornu-Grund var rædd við Hildi Sæmundsdóttur, Sigríði Finsen og Björgu Ágústsdóttur síðastliðinn laugardag . Næsta skref er að fjalla um þessar tillögur innan bæjarstjórnar. Vegagerðin samþykkti sumarið 2001 að taka þátt í kostnaði við gerð áningarstaðar á Hamrahlíðinni. Hafa þarf samráð við Vegagerðina um að flytja áningarstaðinn og að Vegagerðin komi að hönnun og útfærslu landslagsarkitekts á áningarstaðnum. Væntanlega hugnast Vegagerðinni betur að útbúa áningarstað við Fornu-Grund því hann er umferðartæknilega öruggari og framkvæmdin sjálf hagkvæmari. Við útfærslu á áningarstaðnum við Fornu-Grund þarf að huga að heildarskipulagi svæðisins sem er í vinnslu.
7. Örnefnanefnd og loftmyndir.
Samþykkt að Eyrbyggjar kaupi loftmyndir á tölvutæku formi af byggðarlaginu frá Hraunsfirði að Búlandshöfða milli fjalls og fjöru til að færa inn á örnefni. Gísla falið að panta loftmyndirnar í samráði við Hildi Sæmundsdóttur
8. Mjólkurstöðin í Grundarfirði.
Njáll Gunnarsson er að skrifa sögu Mjólkurstöðvarinnar. Hann hefur nýlega fengið frumgögn, bréf og fundargerðarbók frá Ásgeiri Guðmundssyni sem vann að söguritun. Njáll stefnir að því að ljúka við greinina í mánuðinum. Góðar myndir vantar af Mjólkurstöðinni bæði af vinnslunni og búðinni. Góðar líkur eru á að þær séu til.
9. Jólavörur 1955 og Edduslysið.
Tryggvi Gunnarsson hyggst skrifa grein um áhugaverða og erfiða flutninga á jólavörum í ófærð á þorláksmessu 1955.
Tryggvi hyggst einnig skrifa grein um hvernig fólkið í Suður-Bár upplifði Edduslysið 1953.
10. Gestur á næsta stjórnarfund.
Guðlaugur Pálsson stakk upp á því að við myndum bjóða sögumanni á næsta stjórnarfund og taka viðtalið upp á segulband. Stungið var upp á að hafa fundinn á kyrrlátara kaffihúsi. Óla Hjálmars falið að velja nýjan fundarstað. Stungið upp á að fá Palla Ásgeirs sem sögumann á fundinn
.
11. Næsti fundur.
Næsti stjórnarfundur verður mánudaginn 4. febrúar 2002 kl 20.