- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Í dag eru 99 ár frá fæðingu Bærings Cecilssonar. Af því tilefni fögnum við Grundfirðingar þeim menningararfi sem felst í myndunum hans Bæja og þeirri ástríðu fyrir ljósmyndun sem hann ól með sér frá unga aldri. Sú ástríða skilaði okkur ómetanlegum heimildum sem hafa – og munu um ókomin ár – fræða okkur og gleðja. Myndirnar hans Bæja eru ekki einungis sögulegar heimildir um fólk og byggð í Grundarfirði og nærsveitum, heldur hafa margar þeirra skýrt listrænt gildi. Myndir Bærings færa okkur einnig nær hvert öðru, burtséð frá búsetu, aldri og uppruna, því þegar við skoðum myndirnar og rifjum upp, eða spyrjum út í efni mynda og horfna tíma, þá verður til samtal og tengsl, sem eru ekki síður dýrmæt, en heimildagildi myndanna sjálfra. Myndasafn Bærings er fjársjóður sem við erum rík af að eiga.
Æviágrip
Bæring Cecilsson fæddist og ólst upp á Búðum undir Kirkjufelli í Eyrarsveit 24. mars 1923. Hann lést 17. maí 2002. Móðir Bærings var Oddfríður Kristín Runólfsdóttir, húsmóðir, f. 21. febrúar 1898, d. 16. nóvember 1972, dóttir Pálínu Pálsdóttur og Runólfs Jónatanssonar bónda að Naustum í Eyrarsveit. Faðir Bærings var Cecil Sigurbjörnsson, bóndi og sjómaður að Búðum, f. 22. ágúst 1896, en hann fórst með línuveiðaranum Papey 20. febrúar 1933, eftir ásiglingu þýsks skips. Cecil var sonur Sigurbjörns Helgasonar bónda á Setbergi og konu hans Soffíu. Bæring átti fjögur systkini, þau Kristínu (1921-2000), Soffanías (1924-1999), Guðbjart (1927-1994) og Pál (1932).
Bæring, eða Bæi eins og hann var alltaf kallaður, flutti árið 1945 ásamt móður sinni og bræðrum að Grundargötu 17 í Grafarnesi sem var þá byrjað að vaxa upp sem þéttbýli við Grundarfjörð. Bæi átti heima þar alla tíð síðan, fyrir utan síðustu æviárin þegar hann bjó á Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Fellaskjóli.
Bæi réri á eigin trillubáti með bróður sínum Soffaníasi frá 14 ára aldri. Síðar sótti hann vélstjóranámskeið hjá Vélskóla Íslands og starfaði síðan sem vélstjóri bæði á sjó og í landi. Eftir miðjan aldur vann hann á eigin vélaverkstæði sem hann rak að Borgarbraut 16, þar sem nú er Ráðhús Grundarfjarðarbæjar.
Bæi var áhugaljósmyndari og eftir hann liggur mikið safn ljósmynda sem spannar alla sögu þéttbýlis í Grundarfirði. Ljósmyndirnar hans ná yfir tímann frá myndun þéttbýlis í Grafarnesi (síðar Grundarfjörður) eftir 1938 og fram undir árið 2000. Hann starfaði einnig sem fréttaljósmyndari Sjónvarpsins og dagblaða. Bæring var gerður að heiðursborgara Grundarfjarðar árið 1997.
(byggt á umfjöllun í Mbl. 1. júní 2002)
Skönnun ljósmynda Bærings
Á vegum Grundarfjarðarbæjar hefur nú í rúmt ár verið unnið að skönnun á ljósmyndum Bærings, mestmegnis filmum. Hafa nú þegar verið skannaðar tæplega 21.000 myndir úr filmuvinnslunni. Grundarfjarðarbær hefur síðan í júlí 2021 birt hluta af skönnuðum myndum Bærings á bæjarvefnum í „Sjöunni“. Þar birtast sjö myndir í upphafi hverrar viku og við sérstök tilefni hafa verið teknar saman myndir til sérstakrar birtingar. Sótt hefur verið um aðild að Sarpi, sem er menningarsögulegt gagnasafn – nokkurs konar „stafrænt safn“. Ætlunin er að birta þar myndir úr skönnuðu ljósmyndasafni Bærings og gera þær aðgengilegar almenningi.
Taumur líðandi stundar
Guðmundur Rúnar Guðmundsson vann á vegum Eyrbyggju-Sögumiðstöðvar um tíma að skönnun og vinnslu á myndum Bærings. Guðmundur skrifaði að auki ritgerð til B.A. prófs í listfræði við Hugvísindasvið Háskóla Íslands sem hann nefndi „Taumur líðandi stundar – Um tíma og endurtekningar í ljósmyndum Bærings Cecilssonar”. Þar lýsir Guðmundur vel ljósmyndavinnu Bærings sem verður síðan í rauninni skrásetning á þorpinu við Grundarfjörð sem er að verða til um það leyti sem Bæring byrjar að mynda. Sú saga nær yfir alla ævi Bærings til þess tíma þegar þorpið við Grundarfjörð er orðið að Grundarfjarðarbæ, en Bæring lést árið 2002. Vitnað í ritgerð Guðmundar Rúnars:
Bæring Cecilsson var ekki upptekinn af leit ljósmyndarans af hinu fullkomna sjónarhorni, hann var í raun óháður þeirri ljósmyndahefð sem þekkist enda sjálflærður og að því er virðist ómeðvitaður um þær stórstjörnur ljósmyndasögunnar sem komu á undan honum. Ekki er vitað til þess að hann hafi átt eina einustu ljósmyndabók, eða hafi nokkurn tíman lýst áhuga sínum yfir myndum nokkurs annars en sjálfs síns. Sú tilfinning kemur óneitanlega upp þegar skoðað er ævistarf Bærings að fyrir honum hafi áherslan aldrei verið á ljósmynduninni sem slíkri heldur fremur á skrásetningunni á atburðinum sem hann myndaði. Þetta lýsir sér einna best í þeirri fjölbreytni myndefna sem finna má á hverri hans filmu.
Og:
Ljóst má nú vera orðið að ævistarf Bærings Cecilssonar er hlaðið upplýsingum, bæði um líf hans sjálfs sem og þau gildi mannlífsins sem gera hvern stað að heimili. Vel á því við orðatiltæki sem Bæring mun jafnan hafa haft á takteinum: „Ljósmyndin sýnir oft meira en sést“.
Myndir í tilefni dagsins
Á þessum degi birtum við nú fleiri myndir úr safni Bærings, hér er hlekkur á þær. Við ímyndum okkur að Bæi hefði orðið ánægður með þá ánægju og athygli sem myndirnar hans eru að vekja í dag, þegar æ fleiri myndir eru gerðar aðgengilegar úr safni hans. Myndirnar vekja upp minningar hjá fólki og halda uppi þræði á milli þeirra sem eiga rætur og taugar til Grundarfjarðar sem og annarra áhugasamra. Einnig eru myndirnar merkar heimildir þegar horft er yfir uppbyggingu þorpsins og þróunina fram til dagsins í dag.