- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Þann 19. júní ár hvert er þess minnst að þann dag árið 1915 hlutu íslenskar konur, fjörutíu ára og eldri, kosningarétt til Alþingis. Fimm árum síðar öðluðust konur hér á landi kosningarétt til jafns við karla.
Þessa er minnst með ýmsum hætti og konur gera sér gjarnan dagamun á þessum degi.
Í dag fór hún Systa - Helga Ingibjörg Reynisdóttir - í golf á Bárarvelli, eins og hún gerir oft. Nema að í tilefni dagsins klæddi hún sig upp fyrir golfið og skartaði nýjum peysufötum sem hún hefur nýlokið við að sauma sér! Á þriðju braut skipti hún reyndar yfir í golfpeysu og skó, en pilsið, svuntan og skotthúfan sveifluðust með henni allar níu holurnar!
Um búninginn hennar Systu er það að segja að þetta eru 19. aldar peysuföt. Svuntuefnið er ofið af vinkonu foreldra hennar, Ólöfu Pálsdóttur frá Húsavík, en hún vann í Hraðfrystihúsi Grundarfjarðar fyrir 55 árum. Systa segist hafa tekið sér 13 ár í að sauma búninginn, með góðum hléum inná milli.
Við ætlum að fullyrða að þarna fari best klæddi golfari landsins - a.m.k. í dag, 19. júní!