- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Samkomulag menntamálaráðuneytis og iðnaðarráðuneytis
um verkefni á sviði byggðamála
Tómas Ingi Olrich, menntamálaráðherra, og Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðarráðherra, undirrituðu á Akureyri í morgun samkomulag um átak í uppbyggingu menntunar og menningar á landsbyggðinni.
Í fréttatilkynningu ráðuneytanna segir m.a.;
,,Skilgreind hafa verið verkefni í samræmi við byggðaáætlun 2002-2005 þar sem lögð er áhersla á tengsl menntunar og menningar við þróun atvinnulífs í dreifðum byggðum”.
,,Upplýsingatækni verður markvisst nýtt til að efla símenntun og starfsmenntun á landsbyggðinni og stuðla að auknu námsframboði á öllum skólastigum. Einnig verður unnið að því að auka aðgengi að menningarefni frá ólíkum landssvæðum.”
Ráðuneytin munu til samans leggja fram að lágmarki 100 millj. kr. á ári í þrjú ár, eða 300 millj. kr., í ýmis verkefni.
Á árinu 2003 hefur verið ákveðið að leggja 41 millj. kr. í eflingu símenntunarmiðstöðva og uppbyggingu háskólanámssetra (Vestfirðir, Egilsstaðir, Húsavík og símenntunarmiðstöðvar um allt land), til uppbyggingar starfsnáms á landsbyggðinni með fjarnámi eru lagðar 14 millj. kr., til dreifmenntunar í dreifbýli eru lagðar 38 millj. kr. og þar af eru ætlaðar 13 millj. kr. til þróunar framhaldsskóla á Snæfellsnesi.
Að lokum eru ætlaðar 15 millj. kr. til menningar á landsbyggðinni, nánar tiltekið til skráningarvinnu í menningarstofnunum og til miðlunar menningarefnis.
Um fjárveitingar til dreifmenntunar í dreifbýli, segir nánar tiltekið svo, í fréttatilkynningunni;
,,Í verkefnáætlun sinni um rafræna menntun, Forskot til framtíðar, hefur menntamálaráðuneytið lagt áherslu á þróun dreifmenntunar. Dreifmenntun er hugtak sem lýsir blöndu af menntun sem er sótt með aðferðum fjarnáms/kennslu og staðbundins náms/kennslu. Dreifmenntun jafnar möguleika nemenda til náms og nýtir betur sérþekkingu kennara óháð búsetu. Þannig geta nemendur sem eru búsettir í dreifbýli sótt dreifnám sem er sniðið að þeirra þörfum án þess að flytjast búferlum. Kennarar geta stundað starf sitt í fjarvinnu óháð búsetu.
Í byggðaáætlun segir að mikilvægt sé að halda áfram uppbyggingu framhaldsskóla í landinu og miða við að sem flest ungmenni geti sótt skóla daglega frá heimili sínu, a.m.k. til 18 ára aldurs.
Hér að neðan er hægt að finna fréttatilkynninguna í heild sinni og ræður menntamálaráðherra og iðnaðar- og viðskiptaráðherra af þessu tilefni;
Snæfellingar eru að vonum ánægðir með að fá aukið framlag til undirbúnings/þróunar Framhaldsskólans, en þetta fjármagn kemur til viðbótar framlagi sem menntamálaráðherra hefur gefið vilyrði fyrir til að ráða starfsmann í undirbúning framhaldsskólaverkefnisins (sjá bæjardagbók 6. febrúar 2003).