Bæjarstjórn samþykkti fyrir nokkru að ráðast í átaksverkefni við trjáræktun, þannig að gróðursett verður skjólbelti ofan byggðarinnar. Þetta er nokkurs konar ,,grænn kragi” til að skýla þéttbýlinu fyrir veðri og vindum í framtíðinni, þegar trén ná vexti. Skógræktarfélag Íslands tók að sér að gera áætlun um ræktun, staðsetningu, plöntuval og framkvæmd verkefnisins, sem líklega verður unnið í áföngum á nokkrum árum. Ætlunin er að hefja gróðursetningu og undirbúning í sumar.