624. fundur 27. ágúst 2024 kl. 13:30 - 15:37 í Ráðhúsi Grundarfjarðar
Nefndarmenn
  • Ágústa Einarsdóttir (ÁE) formaður
  • Signý Gunnarsdóttir (SG)
  • Sigurður Gísli Guðjónsson (SGG)
Starfsmenn
  • Björg Ágústsdóttir (BÁ) bæjarstjóri
  • Sigurlaug R. Sævarsdóttir (SRS) skrifstofustjóri
Fundargerð ritaði: Sigurlaug R. Sævarsdóttir skrifstofustjóri
Dagskrá
Formaður setti fund og gengið var til dagskrár.

1.Lausafjárstaða 2024

Málsnúmer 2401026Vakta málsnúmer

Lagt fram yfirlit yfir lausafjárstöðu.

2.Greitt útsvar 2024

Málsnúmer 2402013Vakta málsnúmer

Lagt fram yfirlit yfir greitt útsvar janúar-júlí 2024.

Skv. yfirlitinu hefur greitt útsvar hækkað um 4,4% miðað við sama tímabil í fyrra.

3.Yfirlit yfir ógreiddar viðskiptakröfur

Málsnúmer 2405026Vakta málsnúmer

Lagt fram yfirlit yfir ógreiddar viðskiptakröfur.

4.Tillaga um afskriftir viðskiptakrafna

Málsnúmer 2405027Vakta málsnúmer

Lögð fram tillaga að afskrift viðskiptakrafna að fjárhæð 48.354 kr. vegna afskráðrar eignar úr bókum sýslumanns sem unnið hefur verið að af hálfu bæjarins að fá í gegn.

Tillaga um afskrift viðskiptakrafna að fjárhæð 48.354 kr. samþykkt samhljóða.

5.Menningarnefnd - 40

Málsnúmer 2403010FVakta málsnúmer

Bæjarráð samþykkir samhljóða fundargerð 40. fundar menningarnefndar.
  • 5.1 1801048 Sögumiðstöðin
    Fundur haldinn í Sögumiðstöðinni og húsið og aðstaðan þar skoðuð.



    Menningarnefnd - 40 Farið yfir öll rými Sögumiðstöðvarinnar og metin staða fyrir áframhaldandi starfsemi í húsinu, rætt um framkvæmdir og framkvæmdaþörf.


  • Menningarnefnd - 40 Farið var yfir ýmis verkefni og rætt almennt um verksvið nefndarinnar, nýs starfsmanns og um menningarmál almennt, einnig um styrkjamöguleika og fleira.

    Rætt um komandi verkefni á miðbæjarreit bæjarins og mögulega aðkomu menningarnefndar að því. Nefndin hefur áhuga á að fá fleiri listaverk á þennan reit, þó hann sé hugsaður til bráðabirgða fyrir þau not sem hann hefur í dag.

6.Menningarnefnd - 41

Málsnúmer 2404004FVakta málsnúmer

Bæjarráð samþykkir samhljóða fundargerð 41. fundar menningarnefndar.
  • Rætt um samkomuhúsið, aðstöðu þar og nýtingu hússins.

    Menningarnefnd - 41 Bæjarstjóri sagði frá helstu framkvæmdum og viðhaldsverkefnum, sem unnin hafa verið í samkomuhúsinu og fyrirhuguð eru.

    Rætt um nýtingu samkomuhúss.
    Rætt um möguleika á að hafa handverksmarkað í Samkomuhúsinu á komandi vori/sumri.
    Hugmyndir um sameiginlegan markað heimamanna í handverki, mat o.fl. Markaður gæti verið gott tækifæri til að þjónusta mestu toppana á skemmtiferðaskipadögum, eins og bent hefur verið á í niðurstöðum úr skemmtiferðaskipavinnu hafnar og bæjar með hagsmunaaðilum. Nefndin leggur þó áherslu á að slíkir markaðsdagar eigi ekki að verða til þess að skekkja markaðsstöðu fyrirtækjanna í bænum - og þeim verði boðið að verkefninu.

    Nefndin felur Láru Lind að kanna áhuga heimamanna á slíkum markaðsdögum.
  • 6.2 1801048 Sögumiðstöðin
    Sýningarveggur í Sögumiðstöð og tillaga um viðbót við gjaldskrá hússins.
    Menningarnefnd - 41 Rætt um nýtingu á Bæringsstofu og Sögumiðstöð yfir sumarið.

    Með hliðsjón af mögulegum framkvæmdum og nýtingu hússins að öðru leyti, og því að ætlunin er að útvista upplýsingamiðstöð, vill nefndin að starfsemi í húsinu sé fyrst og fremst menningarstarfsemi. Æskilegt sé að leita til einstaklinga og hópa um menningarviðburði sem fram færu í húsinu.

    Samþykkt að auglýsa eftir viðburðum til að gera menningardagskrá fyrir haustið, sem og að auglýsa eftir viðburðum á 17. júní.

    Menningarnefnd leggur til að sýningarveggur verði opinn og aðgengilegur fyrir sýningar í Sögumiðstöð. Nefndin leggur til við bæjarstjórn að bætt verði við gjaldskrá hússins lið, sem felist í leigu fyrir að halda sýningu á veggnum og verði til að byrja með 10.000 kr.

    Forstöðumanni falið að auglýsa eftir áhugasömum aðilum og hugmyndum, í samræmi við framangreindar umræður.

7.Menningarnefnd - 42

Málsnúmer 2404005FVakta málsnúmer

Bæjarráð samþykkir samhljóða fundargerð 42. fundar menningarnefndar.
  • Rætt um nokkur verkefni menningarnefndar.

    Menningarnefnd - 42
    Samkomuhús fyrir markað, framhald af umræðu síðasta fundar.
    Auglýst var eftir áhugasömum aðilum til að taka þátt í markaðsdögum í samkomuhúsinu. Fáar umsóknir eða fyrirspurnir hafa borist.

    Menningardagskrá. Skoðaðir voru möguleikar til að ýta undir viðburðadagatal menningarlegra viðburða. Áfram í vinnslu.

    Nýtt götukort sem er í vinnslu, var skoðað.

  • 7.2 1801048 Sögumiðstöðin
    Menningarnefnd - 42 Rætt um möguleika á því að nefndin hefði yfir að ráða styrkfé, til þess að úthluta í lítil menningarverkefni sem fram færu t.d. í Bæringsstofu, einkum fyrir sumarið.

    Vegna knapps tímaramma eru fundarmenn sammála um að ræða þetta betur síðar, með sumarið 2025 í huga.

8.Menningarnefnd - 43

Málsnúmer 2408005FVakta málsnúmer

Bæjarráð samþykkir samhljóða fundargerð 43. fundar menningarnefndar.
  • Ýmis verkefni nefndarinnar til umræðu. Menningarnefnd - 43 Sögumiðstöð, Farið yfir byggingaráætlun og fyrirhugaðar framkvæmdir og notkun húss á meðan, í sumar.

    Þjónusta á götukorti - farið yfir hvað vantar.

    Rætt um heimamarkað / local market, en ekki náðist næg þátttaka til að halda markað þegar stærstu skemmtiferðaskipin eru í höfn yfir sumartímann. Þess í stað kom hugmynd um að halda markað á laugardeginum 27.júlí á Góðri Stundu í staðinn og prófa. Verkefnið fer vel af stað.

    Rætt um menningarviðburði sem gætu verið yfir sumarið.

    Farið yfir hugmyndir fyrir menningar-Instagrammið. Nýr miðill til að auglýsa viðburði í Grundarfirði.

    Rætt um torg í biðstöðu - miðbæjarreit, fjármagn til endurbóta.
    Samhljóða álit menningarnefndar er að gott sé að byrja á því að þökuleggja norðanverðan hluta af reitnum. Víkingasvæðið hefur verið tekið niður.

9.Menningarnefnd - 44

Málsnúmer 2408006FVakta málsnúmer

Bæjarráð samþykkir samhljóða fundargerð 44. fundar menningarnefndar.
  • Rætt um ýmis verkefni á borði menningarnefndar.
    Menningarnefnd - 44 "Instagram rammi"
    Listamennirnir Helen og Mykola smíðuðu "ramma" þegar þau voru starfsmenn hjá Grundarfjarðarbæ. Ramminn er ætlaður til uppsetningar úti við, á hentugum stað þannig að fólk geti stillt sér upp í "rammann" og tekið mynd af sér, með fallegt sjónarhorn og landslag í bakgrunn.
    Rætt var um mögulega staðsetningu fyrir listaverkarammann.

    Miðbæjarreitur, við Grundargötu/Hrannarstíg
    Ætlunin er að bæta aðstöðu fyrir gesti á reitnum og gera svæðið aðeins hlýlegra.
    Skoðaðar hugmyndir með fleiri bekki, listaverkasteina eftir Liston, o.fl.
    Ætlunin er að beina bílaumferð af svæðinu, enda ekki heppilegt að bílar séu innan um gangandi fólk og gesti sem sitja og gæða sér á mat á svæðinu. Bílastæði eru næg í kring.

    Söguskilti
    Farið yfir verkefni sem búið var að undirbúa, um þrjú söguskilti í miðbæ (bærinn - þorpið - kaupstaðurinn). Rætt um verkefnið. Nefndin vill ljúka uppsetningu skiltanna, þó með breytingum.

    Samkomuhúsið
    Farið yfir fyrirhugaðar framkvæmdir í samkomuhúsinu, uppsetningu gjaldhliðs o.fl.

    Handverkssala í Sögumiðstöð
    Beiðni frá Gallerí Grúsk um að fá aðstöðu í Sögumiðstöðinni til að selja handverk. Af ástæðum sem tengjast húsinu sjálfu og fyrirhuguðum viðgerðum/framkvæmdum, og út frá nýtingu hússins telur menningarnefnd ekki heppilegt að leggja rými Sögumiðstöðvar undir handverkssölu í allt sumar. Gallerí Grúsk og fleirum býðst hinsvegar að nýta rými í samkomuhúsinu í sumar.

    Vinabæjarsamskipti
    Rætt um undirbúning fyrir heimsókn til Paimpol í október nk.
    athöfn í Sögumiðstöðinni 19. júní þar sem ætlunin er að heiðra Marie Madeleine Geoffrey, sem var fyrsti formaður Grundapol-samtakanna í Paimpol og öflugur samstarfsmaður í vinabæjarsamskiptunum.

10.Skipulags- og umhverfisnefnd - 260

Málsnúmer 2407002FVakta málsnúmer

Bæjarráð samþykkir samhljóða fundargerð 260. fundar skipulags- og umhverfisnefndar.
  • Til umræðu var vinna við endurskoðun deiliskipulags iðnaðarsvæðisins vestan Kvernár og tilheyrandi breyting á Aðalskipulagi Grundarfjarðar 2019-2039, m.s.br.

    Halldóra Hreggviðsdóttir og Þóra Kjarval skipulagsráðgjafar hjá Alta voru gestir fundarins gegnum fjarfund undir þessum lið.

    Endurskoðun deiliskipulags:

    Vinnslutillaga deiliskipulags fyrir svæðið var auglýst þann 10. júní til 1. júlí 2024, skv. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Opið hús var haldið þann 20. júní sl. vegna tillögunnar.

    Fyrir fundinn voru lagðar fram til umræðu þær umsagnir og athugasemdir sem bárust við kynnta tillögu, en þær eru frá eftirtöldum aðilum:

    Umsagnir: Umhverfisstofnun, Vegagerðin, Landsnet, Slökkvilið Grundarfjarðar, Heilbrigðiseftirlit Vesturlands og Minjastofnun.
    Athugasemdir: Land lögmenn f.h. eigenda Innri Grafar og Grafar 3.


    Aðalskipulagsbreyting:

    Tillaga að breytingu á aðalskipulagi var kynnt á vinnslustigi frá 28. febrúar til 20. mars 2024, skv. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Umsagnir bárust sem voru hafðar til hliðsjónar við gerð endanlegrar tillögu um breytingu aðalskipulags vegna iðnaðarsvæðisins, sem afgreidd var á 258. fundi skipulags- og umhverfisnefndar þann 22. maí sl.
    Skipulagsstofnun hefur nú lokið yfirferð á lokatillögu að breytingu á aðalskipulagi, skv. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. bréf dags. 11. júlí 2024, sem liggur fyrir fundinum, og fer tillagan nú í auglýsingu.

    Nánar um báðar tilllögurnar vísast til kynningargagna.

    Skipulags- og umhverfisnefnd - 260 Farið var yfir þær umsagnir og athugasemdir sem bárust við kynnta vinnslutillögu deiliskipulags svæðisins.

    Skipulags- og umhverfisnefnd telur þörf á að bregðast við hluta athugasemda núna, en önnur atriði verða höfð til hliðsjónar við áframhaldandi vinnslu deiliskipulagstillögunnar. Farið var yfir valkosti og leiðir til að koma til móts við athugasemdir. Bæjarstjóra og skipulagsfulltrúa falið að útfæra hugsanlegar leiðir í samstarfi við skipulagsráðgjafa.

    Gerðar voru lagfæringar 10. júlí sl. á tillögu um breytingu aðalskipulags, í samræmi við ábendingar Skipulagsstofnunar 9. júlí sl.
    Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir að skilmálum verði bætt við tillöguna um aðalskipulagsbreytingu, þar sem kveðið verði á um hljóðmön við vesturmörk iðnaðarsvæðisins.

    Uppfærð gögn um breytingu aðalskipulags, eftir yfirferð, eru tilbúin til auglýsingar skv. 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

    Bókun fundar Bæjarráð samþykkir samhljóða afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar.
  • Til umræðu var vinna við endurskoðun deiliskipulags Ölkeldudals (staða vinnu við vinnslutillögu) og tilheyrandi breyting á Aðalskipulagi Grundarfjarðar 2019-2039, m.s.br.

    Halldóra Hreggviðsdóttir og Þóra Kjarval skipulagsráðgjafar hjá Alta voru gestir fundarins undir þessum lið gegnum fjarfund.
    Skipulags- og umhverfisnefnd - 260 Deiliskipulagstillagan:

    Farið var yfir stöðuna á vinnslutillögu fyrir endurskoðun deiliskipulags Ölkeldudals.

    Stefnt er að því að vinnslutillaga að deiliskipulagi Ölkeldudals verði kynnt á næstu vikum, skv. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.


    Aðalskipulagsbreyting:

    Vinnslutillaga að breytingu á aðalskipulagi var auglýst skv. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 frá 5. júlí. Umsagnir hafa þegar borist frá eftirtöldum lögbundnum umsagnaraðilum:

    Land og skógur, Slökkvilið Grundarfjarðar, Heilbrigðiseftirlit Vesturlands, Landsnet, Umhverfisstofnun, Minjastofnun og Sveitarfélagið Stykkishólmur.

    Farið var yfir umsagnirnar og verða þær hafðar til hliðsjónar við vinnslu endanlegrar tillögu.

    Þá er einnig stefnt að opnu húsi síðar í ágúst þar sem vinnslutillaga að breytingu á aðalskipulagi verður aðgengileg til kynningar fyrir íbúa og aðra hagsmunaaðila.

    Skipulagsfulltrúa er jafnframt falið að vinna með bæjarstjóra og skipulagsráðgjöfum að gerð endanlegrar tillögu um breytingu aðalskipulags vegna Ölkeldudals. Lokatillaga verður lögð fyrir nefndina og send Skipulagsstofnun til yfirferðar skv. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og svo auglýst skv. 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

    Nánar um tillögurnar vísast til kynningargagna.

    Bókun fundar Bæjarráð samþykkir samhljóða afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar.
  • Olíudreifing hefur óskað eftir framtíðaraðstöðu á norðurhluta hafnarsvæðis Grundarfjarðarhafnar.

    Nú liggur fyrir staðfesting Skipulagsstofnunar á endurskoðuðu deiliskipulagi fyrir þann hluta hafnarsvæðisins.
    Skipulags- og umhverfisnefnd - 260 Þar sem staðfesting Skipulagsstofnunar á endurskoðuðu deiliskipulagi fyrir hafnarsvæði norður liggur fyrir, samþykkir skipulags- og umhverfisnefnd fyrir sitt leyti að fela skipulagsfulltrúa og bæjarstjóra umboð til að ræða við Olíudreifingu um óskir þeirra á svæðinu, í samvinnu við hafnarstjórn/hafnarstjóra, og leiðbeina um framhald málsins.

    Bókun fundar Bæjarráð samþykkir samhljóða afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar um umboð til bæjarstjóra, skipulagsfulltrúa og hafnarstjóra skv. tillögu nefndarinnar.
  • Skipulagsstofnun hefur lokið yfirferð og staðfest nýtt deiliskipulag fyrir hafnarsvæði norður og eru lok málsins staðfest í Skipulagsgátt.

    Skipulags- og umhverfisnefnd - 260
  • Sótt er um byggingarleyfi/byggingarheimild fyrir stækkun til suðurs á bílskúr að Fagurhóli 10.

    Á 9. afgreiðslufundi byggingarfulltrúa, þann 12. ágúst sl., vísaði byggingarfulltrúi málinu til skipulags- og umhverfisnefndar þar sem ekki er til deiliskipulag fyrir svæðið.

    Umsókninni fylgdu áritanir/samþykki eigenda nágrannahúsa að Fagurhóli 3, 5 og 8a, fyrir umræddum áformum.
    Skipulags- og umhverfisnefnd - 260 Málið er lagt fyrir nefndina, skv. gr. 2.3.4 í byggingarreglugerð nr. 112/2012, þar sem húsið er ekki á deiliskipulögðu svæði.

    Skipulags- og umhverfisnefnd gerir ekki athugasemdir við byggingaráformin og telur jafnframt, í ljósi framlagðra gagna, að grenndarkynning skv. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þurfi ekki að fara fram. Skipulagsfulltrúa þó falið að kynna nágrönnum þessa afgreiðslu.

    Nefndin felur jafnframt byggingarfulltrúa að gefa út byggingarleyfi að uppfylltum skilyrðum greinar 2.4.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 m.s.br.
    Bókun fundar Bæjarráð samþykkir samhljóða afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar.
  • Fjölbrautaskóli Snæfellinga sækir um byggingarleyfi vegna uppsetningar skiltis, austanvert við hús skólans að Grundargötu 44. Skiltið á að segja sögu skólans og lóðarinnar sem húsið er byggt á.

    Skipulagsfulltrúi sagði frá samtölum við umsækjanda og nágranna um málið.

    Skipulags- og umhverfisnefnd - 260 Skipulagsfulltrúa er falið að grenndarkynna framkvæmdina fyrir lóðarhöfum að Sæbóli 13 og Grundargötu 42 þegar öll gögn hafa borist.

    Berist ekki athugasemdir í grenndarkynningu er byggingarfulltrúa falið að gefa út byggingarleyfi að uppfylltum skilyrðum gr. 2.4.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 með síðari breytingum.

    Bókun fundar Bæjarráð samþykkir samhljóða afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar.
  • Hér vék Signý af fundi.

    Tekið fyrir erindi frá Sigurbjarti Loftssyni merkjalýsanda, fyrir hönd landeiganda Suður-Bárar, um uppskiptingu lands þannig að úr landi Suður-Bárar, landnúmer L136658, verði til 23,19 hektara land sem fái heitið "Suður-Bár Golfvallarland".

    Óskað er eftir samþykki sveitarstjórnar fyrir uppskiptingunni skv. 1. mgr. 48. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 m.s.br.

    Ekki er til deiliskipulag fyrir svæðið, en í Aðalskipulagi Grundarfjarðar 2019-2039 er umrætt land golfvallar skilgreint innan landnotkunarreitsins ÍÞ-6 (íþróttasvæði).

    Skipulags- og umhverfisnefnd - 260 Skipulags- og umhverfisnefnd gerir ekki athugasemdir við uppskiptingu lands samkvæmt hnitsettum uppdrætti sem fylgir umsókninni. Umrætt land hefur verið nýtt undir golfvöll, í á þriðja áratug, og er því ekki um breytt not að ræða frá því sem verið hefur. Umrætt land og ný afmörkun þess samræmist Aðalskipulagi Grundarfjarðar 2019-2039, þar sem það fellur innan landnotkunarreits sem skilgreindur er sem íþróttasvæði (ÍÞ-6).

    Skipulags- og umhverfisnefnd leggur því til að bæjarráð samþykki erindið í samræmi við 1. mgr. 48. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 m.s.br.

    Vakin er athygli á smávægilegu misræmi milli umrædds lands og marka landnotkunarreitsins ÍÞ-6, en nefndin telur það þó ekki hafa áhrif á afgreiðsluna.


    Signý tók aftur sæti sitt á fundinum.
    Bókun fundar SG vék af fundi undir þessum lið.

    Bæjarráð samþykkir samhljóða afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar og gerir ekki athugasemd við uppskiptingu lands skv. umsókninni.

    SG tók aftur sæti sitt á fundinum.
  • Leyfishafi tilkynnti með tölvupósti til skipulagsfulltrúa, dagsettum 27. júní sl., um breytta staðsetningu sumarhúsa. Nýr afstöðuuppdráttur hefur ekki borist. Skipulags- og umhverfisnefnd - 260 Þar sem gögn vantar er samþykkt að fresta afgreiðslu málsins. Skipulagsfulltrúa er falið að kalla eftir nýrri afstöðumynd fyrir næsta fund skipulags- og umhverfisnefndar.
  • Þann 9. júlí sl. lauk Skipulagsstofnun yfirferð og staðfesti breytingu aðalskipulags vegna fremsta hluta Framness (breytt landnotkun, VÞ-3) og hluta hafnarsvæðis (stækkun og breyting).

    Skipulags- og umhverfisnefnd - 260 Staðfestingarbréf Skipulagsstofnunar dags. 9. júlí 2024 lagt fram til kynningar.

    Sjá breytingu:
    https://skipulagsaaetlanir.skipulagsstofnun.is/skipulagvefur/DisplayDoc.aspx?itemid=Hmeb3sA3rEKQ06GGmCbWzA

  • Lagðar fram til kynningar og umræðu, tillögur og hugmyndir að leiðum til að bæta umferðaröryggi við grunnskóla og íþróttahús.

    Skipulags- og umhverfisnefnd - 260 Fram eru settar tillögur um einfaldar breytingar sem tengjast að hluta til deiliskipulagsvinnu í Ölkeldudal og geta samrýmst framtíðaráformum um uppbyggingu.

    Skipulags- og umhverfisnefnd lýsir yfir ánægju með hinar kynntu tillögur.

    Bæjarstjóra er falið útfæra tillögurnar og koma til framkvæmda í samstarfi við áhaldahús.
    Bókun fundar Bæjarráð samþykkir samhljóða afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar.
  • 10.11 2401018 Framkvæmdir 2024
    Farið yfir stöðuna á framkvæmdum á vegum bæjarins, einkum umhverfisframkvæmdum (götur og opin svæði), bæði þeim sem eru yfirstandandi og þeim sem eru framundan.
    Skipulags- og umhverfisnefnd - 260 Meðal annars kynnt framkvæmd Mílu við lagningu ljósleiðara, en í tengslum við það voru heimiluð rif og endurbygging gangstétta á Fagurhól að hluta og í Fagurhólstúni. Einnig framkvæmdir við endurbyggingu gangstétta neðst á Borgarbraut, á Nesvegi og upp Hrannarstíg, endurbygging gangstétta og blágræn beð á neðanverðum Hrannarstíg (frá Kjörbúð og að Nesvegi og inní Sólvelli), framkvæmdir við uppsetningu leiktækja við grunnskóla og leikskóla, framkvæmdir við orkuskipti og tilheyrandi endurbætur á rýmum í kjallara íþróttahúss, sem og framkvæmdir við endurnýjun klæðningar þaks og veggja í Sögumiðstöðinni.
  • Lionsklúbbur Grundarfjarðar hefur óskað eftir að fá að setja niður um 600 trjáplöntur, sem klúbburinn hefur fengið að gjöf, á hentugum stað í landi bæjarins í haust. Skipulags- og umhverfisnefnd - 260 Skipulags- og umhverfisnefnd fagnar framtakinu.
    Rætt var um hentuga staði fyrir gróðursetningu trjánna.

11.Gjaldskrár 2024

Málsnúmer 2309033Vakta málsnúmer

Lögð fram gögn frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga um gjaldfrjálsar skólamáltíðir.



Fyrir liggur ákvörðun bæjarstjórnar og bæjarráðs um að nemendur Grunnskóla Grundarfjarðar eigi kost á gjaldfrjálsum hádegisverði frá og með byrjun skólaársins 2024-2025.

Fyrr í sumar samþykkti Alþingi frumvarp innviðaráðherra um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga sem heimilar Jöfnunarsjóði sveitarfélaga að greiða framlög til sveitarfélaga sem bjóða upp á skólamáltíðir.

Gjaldfrjálsar skólamáltíðir eru liður í aðgerðum stjórnvalda til að styðja við nýgerða langtímakjarasamninga á vinnumarkaði og leggja grundvöll að bættum lífskjörum og kaupmætti launafólks.

Fyrir fundinum liggur tölvupóstur Sambands íslenskra sveitarfélaga sem og yfirlit um aðkomu Jöfnunarsjóðs að verkefninu fyrir þau sveitarfélög sem taka þátt. Í tölvupósti Sambandsins kemur fram að um er að ræða gjaldfrjálsan hádegisverð.

Viðbótarkostnaði sem af verkefninu hlýst fyrir Grundarfjarðarbæ er vísað til viðauka við fjárhagsáætlun.

Bæjarráð áréttar fyrri ákvörðun um að veita nemendum Grunnskóla Grundarfjarðar gjaldfrjálsan hádegisverð. Áfram verður boðið upp á gjaldfrjálsan hafragraut í grunnskólanum að morgni dags.

Samþykkt samhljóða.

12.Framkvæmdir 2024

Málsnúmer 2401018Vakta málsnúmer

Gestir undir þessum dagskrárlið, vegna umræðu um áningarstað við Kirkjufellsfoss, eru Sigurður Valur Ásbjarnarson skipulagsfulltrúi og Þráinn Hauksson landslagsarkitekt hjá Landslagi ehf.

Bæjarstjóri kynnti fyrirhugaða verðkönnun um framkvæmdir við uppsetningu stiga og palla austanvert við Kirkjufellsfoss. Um er að ræða hluta af framkvæmdum við uppbyggingu áningarstaðarins og fyrir styrkfé úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða.

Þráinn kynnti hönnun á svæðinu, sem unnið hefur verið með og landeigendur hafa þegar samþykkt.

Uppi hefur verið álitaefni um hverskonar stál ætti að nota í palla og handrið. Hönnunin gerir ráð fyrir að notað sé svart stál í palla og handrið, enda er það algengast í hönnun á sambærilegum stöðum.

Verkís hefur lagt fram ábendingar um að galvaniserað stál skuli nota í palla og handrið, skv. tæringarflokki 4 sbr. kafla 8.4. í byggingarreglugerð, þar sem svart stál kunni að tærast hraðar vegna nálægðar við seltu frá sjó.

Bæjarstjóri hafði leitað álits hjá HMS.

Við skoðun á þessu atriði hefur líka verið bent á grein 6.11.7. í byggingarreglugerð, um þjónustukjarna, sem segir að slíkar byggingar og mannvirki skuli hanna þannig að þau falli sem best að umhverfi sínu hvað varðar útlit, efnisval, litaval o.fl. nema skipulagsskilmálar kveði á um annað.

Þráinn fór yfir málið og sýndi dæmi um efnisnotkun á öðrum áningarstöðum, s.s. Saxhól, Svalþúfu, við Goðafoss, við hafnarbakkann í Hafnarfirði o.fl.

Einnig rætt um lit á steypu í steyptum pöllum við fossinn og svaraði Þráinn spurningum bæjarráðs um það.

Þráni var þakkað fyrir komuna og góða kynningu og yfirgaf hann fundinn.

Bæjarráð samþykkir að gengið sé út frá hönnunarforsendum Landslags og notað svart stál í grindur og handrið. Einnig óskar bæjarráð eftir því að notuð sé dekking á steypu, þannig að steyptir pallar falli betur að umhverfi sínu.

Sigurður Valur yfirgaf fundinn og var honum þakkað fyrir komuna.

---

Rætt um göngustíg frá þéttbýli vestanverðu og að Kirkjufellsfossi sem þörf er á.

Fyrir liggur greinargerð frá 2020 um valkosti við legu göngustígs á þessari leið og um kostnað. Stígurinn lægi að mestu í gegnum land jarðarinnar Kirkjufells.

Bæjarráð leggur til að vinnu verði haldið áfram við að draga fram möguleika um legu slíks göngustígs. Fyrirhugað er samtal við landeigendur og aðra hagsmunaaðila.

Gestir

  • Þráinn Hauksson, landslagsarkitekt hjá Landslagi ehf. - mæting: 13:45
  • Sigurður Valur Ásbjarnarson, skipulagsfulltrúi - mæting: 13:45

13.FSS - Reglur um notendaráð málefna fatlaðs fólks á Snæfellsnesi

Málsnúmer 2407016Vakta málsnúmer

Lögð fram drög að reglum Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga (FSS) um notendaráð málefna fatlaðs fólks á Snæfellsnesi.

Bæjarráð samþykkir drög að reglum um notendaráð málefna fatlaðs fólks á Snæfellsnesi.

Samþykkt samhljóða.

14.Fyrirspurn til sveitarstjórna á Snæfellsnesi um UNESCO MAB umsókn

Málsnúmer 2407012Vakta málsnúmer

Lagt fram bréf landeigenda í Hömluholti, með spurningum varðandi umsókn um að Snæfellsnes verði UNESCO vistvangur (Man and Biosphere).



Bæjarráð Snæfellsbæjar tók erindið fyrir þann 14. ágúst sl. og er svör að finna í bréfi Snæfellsbæjar, sem lagt er undir þennan fund.



Lögð fram drög svörum bæjarráðs Grundarfjarðarbæjar til fyrirspyrjenda.

Bæjarráð samþykkir að senda svarbréf til fyrirspyrjanda í samræmi við drög að svarbréfi sem fyrir fundinum liggur.

Samþykkt samhljóða.

15.HSH - Ályktun um rafmagn á skotsvæði Skotfélags Snæfellsness í Kolgrafafirði

Málsnúmer 2407013Vakta málsnúmer

Lagt fram bréf Héraðssambands Snæfellsness- og Hnappadalssýslu (HSH), dags. 25. júní sl., ásamt greinargerð, varðandi rafmagn á svæði Skotfélags Snæfellsness í Kolgrafarfirði.

Rætt um málið.

Bæjarstjóri gerði grein fyrir málinu og samtölum við RARIK og við Skotfélagið um rafmagn á svæðið á undanförnum árum.

Bæjarráð hefur skilning á aðkallandi þörf fyrir rafmagn í takt við kraftmikla uppbyggingu á svæðinu. Ljóst er þó að lagning rafstrengs á svæðið er kostnaðarsöm.

Bæjarráð er að sjálfsögðu tilbúið til samtals við HSH um málið.

Bæjarráð óskar eftir uppfærðri kostnaðaráætlun fyrir lagningu rafstrengs á svæðið. Bæjarstjóri hefur verið í samband við stjórn félagsins um málið og er falið að halda því samtali áfram.

Samþykkt samhljóða.

16.Grunnskóli og íþróttamannvirki - Orkuskipti

Málsnúmer 1910006Vakta málsnúmer

Lagðar fram til kynningar fréttir, annars vegar á vef stjórnarráðsins og hins vegar á vef bæjarins um 40 millj. kr. styrk úr Orkusjóði vegna orkuskiptaverkefnisins.

Bæjarráð fagnar tilkynningu um úthlutun styrks úr Orkusjóði til orkuskipta á vegum bæjarins.

17.Grundarfjarðarbær, ýmsir verksamningar vegna framkvæmda ársins

Málsnúmer 2408005Vakta málsnúmer

Lagðir fram til kynningar undirritaðir verksamningar vegna framkvæmda ársins.

Lagðir fram samningar við eftirtalda aðila vegna framkvæmda í kjallara íþróttahúss vegna orkuskiptaverkefnis og annarra framkvæmda innanhúss, gerðir á grunni gefinna tilboða í einstaka verkþætti:

- Gráborg ehf. v. kerfisloft og einangrun.
- Gráborg ehf. v. hljóðveggur og einangrun
- Gráborg ehf. v. gluggasmíði
- Aðalsteinn Jósepsson v. sögun
- Smiðjan Fönix ehf. v. raflagnir og lampar
- GG lagnir ehf. v. pípulagnavinnu

Einnig samningur við JK&Co slf. á grunni tilboðs í verðkönnun sem fram fór í júlí um 1. áfanga Hrannarstígur gangstéttir.

18.Samtök heilbrigðiseftirlitssvæða - Bréf til sveitarfélaga vegna skipunar stýrihóps

Málsnúmer 2407003Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar bréf Samtaka heilbrigðiseftirlitssvæða á Íslandi (SHÍ), dags. 6. júní sl., vegna skipunar stýrihóps á vegum Umhverfis-, orku og loftslagsráðuneytisins og Matvælaráðuneytisins til að undirbúa áformaðar breytingar á fyrirkomulagi eftirlits.

19.Björgunarsveitin Klakkur - Ársuppgjör 2023

Málsnúmer 2406027Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar ársuppgjör Björgunarsveitarinnar Klakks vegna ársins 2023.

20.Samband íslenskra sveitarfélaga - Minnisblað með uppfærðum forsendum fjárhagsáætlana - júlí 2024

Málsnúmer 2407014Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar minnisblað Sambandsins um nýja spá Hagstofu og forsendur fyrir fjárhagsáætlanagerð 2025.



21.Samband íslenskra sveitarfélaga - Fundargerðir 2024

Málsnúmer 2401021Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 948. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga sem haldinn var 31. maí sl.

22.Samgöngustofa - Umferðarþing 20. september 2024

Málsnúmer 2407005Vakta málsnúmer

Lagður fram til kynningar tölvupóstur Samgöngustofu, dags. 27. júní sl., um Umferðarþing 20. september nk.

23.Ríkislögreglustjórinn - Árleg ráðstefna Almannavarnasviðs ríkislögreglustjóra

Málsnúmer 2407004Vakta málsnúmer

Lagður fram til kynningar tölvupóstur Ríkislögreglustjóra, dags. 28. júní sl., um árlega ráðstefnu Almannavarnasviðs ríkislögreglustjóra sem haldin verður 31. október nk.

Fundargerð lesin upp og samþykkt.

Fundi slitið - kl. 15:37.