Lagðar fram til kynningar hönnunarteikningar vegna gangstétta og tilheyrandi blágrænna svæða við Hrannarstíg neðan Grundargötu og inní götuna Sólvelli, sem og vegna gangstéttar við Nesveg og neðsta hluta Borgarbrautar. Auk þess gögn um frágang ofarlega á Hrannarstíg, þar sem lögð verður hellulögð rönd meðfram malbikaðri gangstétt.
Einnig rætt um framkvæmdir Mílu, en verktaki á vegum fyrirtækisins hefur hafið framkvæmdir við þriðja og síðasta áfanga við lagningu ljósleiðara í þéttbýli Grundarfjarðar.
Bæjarstjóri fór yfir stöðu framkvæmda ársins ásamt þeim Ólafi, Sævari og Sigurði Val, þau verkefni sem farin eru af stað sem og verkefni framundan.
Rætt var um hönnun sundlaugargarðs og hvað felst í þeirri vinnu, rennibraut o.fl.
Rætt um fyrirhugaðar framkvæmdir á tjaldsvæði, merkingar á tjaldsvæði, stöðu verkefna í Þríhyrningi, fyrirhugaða uppsetningu leiktækja fyrir yngstu börnin á Hjaltalínsholti, fyrirhugaðar framkvæmdir í kringum gömlu spennistöðina, framkvæmdir í samkomuhúsi vegna gjaldhliðs fyrir salerni sem opin eru ferðafólki og fyrirkomulag salernisaðstöðu. Einnig rætt um gatnagerð næsta sumar, þar sem lögð er áhersla á gangstéttar á Hrannarstíg.
Rætt um fyrirhugaðar framkvæmdir á vesturhlið íþróttahúss, en skipta á um glugga og hurðir og gera múrviðgerðir. Rætt um breytingar á aðkomuleiðum (hurðir) til að bæta aðgengi og neyðaraðkomu. Sigurður Valur sýndi teikningar og tillögur þar að lútandi.
Bæjarráð samþykkir samhljóða þá útfærslu sem tillaga er gerð um og verða teikningar unnar um þær.