264. fundur 14. janúar 2025 kl. 15:30 - 18:43 í Ráðhúsi Grundarfjarðar
Nefndarmenn
  • Bjarni Sigurbjörnsson (BS) formaður
  • Signý Gunnarsdóttir (SG)
  • Davíð Magnússon (DM)
  • Heiðrún Hallgrímsdóttir (HH)
  • Lísa Ásgeirsdóttir (LÁ)
Starfsmenn
  • Sigurður Valur Ásbjarnarson (SVÁ) skipulagsfulltrúi
  • Nanna Vilborg Harðardóttir (NVH) starfsmaður umhverfis- og skipulagssviðs
  • Guðmundur Rúnar Svansson (GRS) starfsmaður umhverfis- og skipulagssviðs
  • Björg Ágústsdóttir (BÁ) bæjarstjóri
Fundargerð ritaði: Sigurður Valur Ásbjarnarson skipulagsfulltrúi
Dagskrá
Formaður setti fund og gengið var til dagskrár.

Dagskrárliður nr. 2 er tekinn fyrir í upphafi fundar, síðan liður nr. 1 og svo áfram.

1.Miðbær - skipulag og markaðssókn

Málsnúmer 2501012Vakta málsnúmer

Bæjarstjórn samþykkti á árinu 2024 að lóðum á svonefndum miðbæjarreit verði úthlutað sameiginlega. Reiturinn er myndaður úr fjórum samliggjandi lóðum sem markast af Grundargötu, Hrannarstíg og Hamrahlíð, samtals um 2700 m2. Um er að ræða lóðir nr. 31 og 33 við Grundargötu og nr. 6 og 8 við Hamrahlíð. Lóðirnar eru afar vel staðsettar við megingatnamót, í miðbæ.



Í Aðalskipulagi Grundarfjarðar, rammahluta, er í kafla 8.1. fjallað um miðbæ og m.a. er sett fram stefna um uppbyggingu á þessum miðbæjarlóðum.



Vilji bæjarstjórnar hefur verið til þess að auglýsa reitinn og kynna tækifærin sem felast í uppbyggingu á honum fyrir áhugasömum samstarfsaðilum um þróun á reitnum.



Til umræðu er hjá skipulags- og umhverfisnefnd hvernig starfsemi hún telji að henti best á reitnum, þ.e. hvaða forsendur eigi að leggja til grundvallar nýtingu á miðbæjarsvæði, með framtíðarhagsmuni bæjarbúa í huga.



Til kynningar og umræðu í nefndinni er lagt fram vinnuskjal þar sem sett er fram lýsing á reitnum og þrjár sviðsmyndir um uppbyggingu þar. Með sviðsmyndunum er ætlunin að auðvelda nefndinni og bæjarfulltrúum að taka afstöðu til þess hvaða starfsemi henti best að hafa á reitnum og hvernig eigi að undirbúa uppbyggingu þar.



Gestir undir þessum dagskrárlið eru Herborg Árnadóttir sem undirbjó vinnuskjalið, Halldóra Hreggviðsdóttir (að hluta) og Ingvar Örn Ingvarsson ráðgjafi vegna kynningarmála.

Björg fór yfir aðdragandann og að bæjarstjórn hafi ákveðið að þessar lóðir yrðu auglýstar saman og byggðar upp sameiginlega sem miðbæjarsvæði. Einnig að horfa þurfi á uppbyggingu á Framnesi og miðbæ samhliða, því svæðin eigi að geta styrkt hvort annað.

Herborg fór yfir efni vinnuskjalsins og sviðsmyndirnar um þróun á reitnum, sem eru fyrstu hugmyndir sem skipulags- og umhverfisnefnd og bæjarstjórn munu svo vinna frekar úr.

Ingvar Örn fór yfir kynningarmál og hvernig leita megi samstarfs um uppbyggingu.

Halldóra og Ingvar Örn yfirgáfu fundinn og var þeim þakkað fyrir komuna.


Góð umræða fór fram um framtíðarnýtingu og miðbæjarstarfsemi. Rætt um fyrirmyndir í miðbæjaruppbyggingu í öðrum sveitarfélögum og áherslur sem henti hér á okkar stað. Einnig rætt um mögulega húsagerð og umhverfi húss.

Samhljómur er um það hjá nefndarmönnum að á þessum reit eigi byggingar að hýsa fjölbreytta þjónustu fyrir íbúa og gesti, vera samkomustaður sem tengir bæjarbúa saman og eflir mannlíf og þjónustu í bænum.

Flestir fundarmenn nefndu tækifæri til að setja niður rými fyrir smærri verslanir og aðra þjónustu. Mikilvægt væri að ræða við íbúa og að skapa bæði ný tækifæri en einnig að bjóða til samtalsins þeim aðilum sem þegar eru með starfsemi í bænum.

Með vísan í framsettar sviðsmyndir í vinnuskjali fundarins leggur skipulags- og umhverfisnefnd til að unnið verði með sviðsmynd B, þó með tilbrigði úr sviðsmynd A í bland. Hugmyndirnar verði mótaðar enn frekar sem upplegg að samtali við íbúa og svo kynningarefni fyrir mögulega þróunaraðila. Rauði þráðurinn sé að svæðið gagnist íbúum og styrki samfélagið.

Gestir

  • Halldóra Hreggviðsdóttir, Alta - mæting: 16:00
  • Ingvar Örn Ingvarsson, Cohn og Wolfe - mæting: 16:00
  • Herborg Árnadóttir, Alta - mæting: 16:00

2.Tillaga um breytingu á deiliskipulagi Ölkeldudals

Málsnúmer 2312014Vakta málsnúmer

Á fundi sínum 12. desember sl. samþykkti bæjarstjórn að auglýsa vinnslutillögu að nýju deiliskipulag Ölkeldudals. Tillagan var kynnt með auglýsingu 16. desember sl. og var frestur til að gera athugasemdir og umsagnir til og með 13. janúar sl. Kynningarfundur um tillöguna var haldinn þann 18. desember sl.



Umsagnir og athugasemdir bárust við tillöguna frá eftirtöldum:



- Skipulagsstofnun

- Minjastofnun

- Slökkvilið Grundarfjarðar

- Heilbrigðiseftirlit Vesturlands

- RARIK

- Skógræktarfélag Eyrarsveitar

- Gunnar Njálsson



Farið var yfir þær umsagnir og athugasemdir sem bárust á kynningartíma.

Signý vék af fundi þegar til umræðu voru umsögn frá Skógræktarfélagi Eyrarsveitar og athugasemdir frá Gunnari Njálssyni fyrrv. formanni Skógræktarfélagsins, sem einnig tengdust skógræktinni.

Sérstaklega farið yfir ábendingar sem tengjast skógræktarsvæði. Formaður óskaði eftir upprifjun á fyrri ákvæðum deiliskipulagsins um lóðir efst á Ölkelduvegi. Byggingarmagn hefur verið minnkað á þeim lóðum, en auk þess er í nýju tillögunni verið að tengja betur saman opin svæði, OP4 og OP5, frá Hönnugili og upp í Brekkuskóg. Það er sömuleiðis áréttað með breytingu á aðalskipulagi.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti svör við framkomnum umsögnum og athugasemdum og er þau að finna í fylgiskjali.

Á vinnslustigi skipulagstillagna er ekki venjan að svara athugasemdum sem berast, en minnisblað með svörum verður sett inn á Skipulagsgátt. Þar með fá þau sem athugasemdir gerðu tilkynningu og geta séð framlagt minnisblað með svörum.


Ennfremur var farið yfir þær lagfæringar sem nefndin leggur til að gerðar verði á deiliskipulagi Ölkeldudals, m.a. með hliðsjón af þeim ábendingum sem bárust við auglýsta vinnslutillögu.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir fyrir sitt leyti að auglýst verði tillaga að nýju deiliskipulagi Ölkeldudals, með framangreindum lagfæringum, og leggur til við bæjarstjórn að tillagan verði auglýst í samræmi við 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 m.s.br. Er skipulagsfulltrúa falið að ganga frá endanlegri tillögu til auglýsingar, með minniháttar lagfæringum. Samþykkt samhljóða.


Geta má þess, að tillaga um breytingu aðalskipulags í tengslum við þessa deiliskipulagstillögu hefur verið afgreidd af bæjarstjórn og er nú til samþykktar hjá Skipulagsstofnun. Verður sú tillaga auglýst samhliða deiliskipulagstillögunni.

Gestir

  • Herborg Árnadóttir, Alta - mæting: 15:30
  • Halldóra Hreggviðsdóttir, Alta - mæting: 15:30

3.Grund 2 - Breyting á aðalskipulagi og nýtt deiliskipulag

Málsnúmer 2311006Vakta málsnúmer

Lögð fram vinnslutillaga frá eiganda Grundar 2 að nýju deiliskipulagi, ásamt tillögu að breytingu á aðalskipulagi í tengslum við deiliskipulagstillöguna.



Tillagan er lögð fram til auglýsingar í samræmi við 31. og 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 m.s.br.



Með tillögunni breytist landnotkun á landbúnaðarsvæði úr landbúnaði í verslun- og þjónustu. Ekki hefur áður verið unnið deiliskipulag fyrir svæðið.



Sameiginleg skipulagslýsing fyrir breytingu á aðalskipulagi og fyrir hið nýja deiliskipulag var kynnt almenningi og umsagnaraðilum í Skipulagsgátt 29. nóvember til 27. desember 2023 í samræmi við 1. mgr. 36. gr. og 1. mgr. 40. gr. skipulagslaga.



Á 255. fundi skipulags- og umhverfisnefndar þann 29. desember 2023 voru teknar til afgreiðslu umsagnir og athugasemdir sem bárust og samþykkt umsögn nefndarinnar fyrir framkvæmdaraðila til að hafa hliðsjón af við mótun skipulagstillagna þeirra sem nú eru til afgreiðslu.



Gögnin hafa verið yfirfarin og eru nú lögð fram til afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar.



Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir samhljóða að fela skipulagsfulltrúa, í samráði við landeiganda og ráðgjafa hans, að ganga frá framangreindum tillögum til kynningar á vinnslustigi í samræmi við 2. mgr. 30. gr. og 4. mgr. 40. gr. skipulagslaga 123/2010 m.s.br.

4.Umsókn um byggingarheimild eða -leyfi - Nesvegur 2 - Flokkur 1

Málsnúmer 2412011Vakta málsnúmer

Á 263. fundi skipulags- og umhverfisnefndar þann 11. desember sl. var tekin fyrir umsókn Grundarfjarðarhafnar um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu að Nesvegi 2, og var niðurstaðan sú að grenndarkynna þyrfti byggingaráformin skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Var skipulagsfulltrúa falin umsýsla málsins. Bæjarstjórn samþykkti fundargerð og afgreiðslu nefndarinnar 12. desember sl.



Við nánari skoðun þá eru þessi byggingaráform í samræmi við heimild í gildandi deiliskipulagi hafnarsvæðisins, sem heimilar minniháttar útbyggingar út fyrir byggingarreit ef sýnt er fram á að lóð og bygging þoli slíka útbyggingu og að það skerði ekki gæði nágrannalóðar.



Í ljósi þessara skilmála, og með hliðsjón af því að eigendur nærliggjandi húsa/lóða hafa nú staðfest með undirritun sinni að þeir geri ekki athugasemdir við viðbygginguna, tilkynnti skipulagsfulltrúi til byggingarfulltrúa, með tölvuósti 7. janúar 2025, að hann teldi að honum væri heimilt að gefa út byggingarleyfi í samræmi við byggingarreglugerð.



Skipulags- og umhverfisnefnd staðfestir afgreiðslu skipulagsfulltrúa sem fram kemur í tölvupósti til hafnarstjóra 7. janúar 2025, með framangreindum rökstuðningi.

5.Sólbakki, lóð A - Fyrirspurn um bílgeymslu

Málsnúmer 2405009Vakta málsnúmer

Undir þessum lið er lagt fram til kynningar svar skipulagsfulltrúa dagsett 7. janúar sl. við fyrirspurn byggingarfulltrúa dags. 2. janúar sl., vegna umsóknar landeiganda um byggingu bílgeymslu á lóð A að Sólbakka, mál nr. 2412019.



Í svari skipulagsfulltrúa kemur fram að skipulagsfulltrúi hafi yfirfarið teikninguna sem fylgdi byggingarleyfisumsókn og telur hann að teikning sé í samræmi við það sem hann ræddi á sínum tíma við lóðareigendur, um staðsetningu og útlit bílskúrs, sbr. ábendingar á 258. fundi skipulags- og umhverfisnefndar þann 22. maí sl. Hann telji því ekkert því til fyrirstöðu að gefa út byggingarleyfi/heimild.

Skipulags- og umhverfisnefnd staðfestir afgreiðslu skipulagsfulltrúa sem fram kemur í tölvupósti til byggingarfulltrúa þann 7. janúar sl. þar sem fram kemur að staðsetning bílgeymslu á aðaluppdrætti sem lagður hafi verið fram uppfylli skilyrði 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 73/1997 um óverulegt frávik og að byggingin samrýmist því gildandi deiliskipulagi.

6.Fellabrekka 7-13 - lóð, grenndarkynning

Málsnúmer 2403025Vakta málsnúmer

Óveruleg breyting á aðalskipulagi vegna Fellabrekku 7-13 var samþykkt af bæjarstjórn 11. apríl 2024 og staðfest af Skipulagsstofnun 23. maí 2024. Breytingin tók gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda þann 6. júní 2024. Með breytingunni heimila aðalskipulagsákvæði að “byggja allt að átta íbúðir samtals, á 1-2 hæðum í fjölbýli eða sérbýli" að Fellabrekku 7-13. Ákvæðið kom í staðinn fyrir skilmála í aðalskipulagi um að byggja mætti 3ja íbúða hús, parhús eða einbýli að Fellabrekku 7-9, en hvað varðar lóðir nr. 11-13 þá voru engin sérákvæði áður fyrir þær og heimildir því fremur opnar hvað þær lóðir varðar.



Þar sem ekki liggur fyrir deiliskipulag af svæðinu voru byggingaráform lóðarhafa á reitnum grenndarkynnt í samræmi við 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 m.s.br frá 12. desember 2024 til og með 13. janúar 2025. Kynningarbréf var sent til eigenda fasteigna við Fellabrekku 5, 15, 17, 19 og 21, Fellasneið 2, 4, 10 og 14 og Hellnafell 2. Bréfinu fylgdi aðaluppdráttur af byggingaráformum.



Athugasemd barst 13. janúar 2025 frá húseigendum að Fellabrekku 17.



Skipulags- og umhverfisnefnd hefur farið yfir innsenda athugasemd úr grenndarkynningu. Í fylgiskjali er að finna svör nefndarinnar sem nefndin samþykkir samhljóða og kemur m.a. á framfæri við framkvæmdaraðila.

Í ljósi framangreinds samþykkir skipulags- og umhverfisnefnd að fela byggingarfulltrúa að gefa út byggingarleyfi að uppfylltum skilyrðum 2.4.4. gr. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 m.s.br. skv. framlögðum aðaluppdrætti dags. 1.8.2024, enda eru áformin í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar, sbr. 44. gr. skipulagslaga og áður staðfesta aðalskipulagsbreytingu.

7.Heiti götu neðan Grundargötu 12-28

Málsnúmer 2410010Vakta málsnúmer

Undir þessum lið er haldið áfram umræðu af síðasta fundi.

Tillaga gerð til bæjarstjórnar í samræmi við umræður fundarins.

8.Reglur um skilti

Málsnúmer 2501010Vakta málsnúmer

Reglur Grundarfjarðarbæjar um gerð og staðsetningu skilta eru orðnar gamlar og orðið tímabært að taka þær til endurskoðunar. Sú vinna er farin af stað og verður tillaga lögð fyrir nefndina þegar hún liggur fyrir.

Skipulags- og umhverfisnefnd tekur undir að endurskoða þurfi skiltareglur og felur starfsmönnum skipulags- og umhverfissviðs vinna áfram að málinu.

9.Önnur mál umhverfis- og skipulagssviðs

Málsnúmer 2201020Vakta málsnúmer

Umsóknir hafa borist um stöðuleyfi fyrir matarvagn Mæstró og verslun Prjónað á plani, á miðbæjarreit. Báðir aðilar hafa í nokkurn tíma verið með slík leyfi á þessum stað, sem endurnýjuð hafa verið.





Skipulagsfulltrúa er falið að gefa út ný stöðuleyfi í framhaldi af eldri stöðuleyfum og í samræmi við gjaldskrá og reglur vegna stöðuleyfa í Grundarfjarðarbæ.

Lokið er við fundargerð í framhaldi af fundi og rafræns samþykkis aflað frá fundarmönnum.

Fundi slitið - kl. 18:43.