Óveruleg breyting á aðalskipulagi vegna Fellabrekku 7-13 var samþykkt af bæjarstjórn 11. apríl 2024 og staðfest af Skipulagsstofnun 23. maí 2024. Breytingin tók gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda þann 6. júní 2024. Með breytingunni heimila aðalskipulagsákvæði að “byggja allt að átta íbúðir samtals, á 1-2 hæðum í fjölbýli eða sérbýli" að Fellabrekku 7-13. Ákvæðið kom í staðinn fyrir skilmála í aðalskipulagi um að byggja mætti 3ja íbúða hús, parhús eða einbýli að Fellabrekku 7-9, en hvað varðar lóðir nr. 11-13 þá voru engin sérákvæði áður fyrir þær og heimildir því fremur opnar hvað þær lóðir varðar.
Þar sem ekki liggur fyrir deiliskipulag af svæðinu voru byggingaráform lóðarhafa á reitnum grenndarkynnt í samræmi við 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 m.s.br frá 12. desember 2024 til og með 13. janúar 2025. Kynningarbréf var sent til eigenda fasteigna við Fellabrekku 5, 15, 17, 19 og 21, Fellasneið 2, 4, 10 og 14 og Hellnafell 2. Bréfinu fylgdi aðaluppdráttur af byggingaráformum.
Athugasemd barst 13. janúar 2025 frá húseigendum að Fellabrekku 17.
Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir samhljóða, með vísan í 2. mgr. 36. gr. skipulagslaga, að gera eftirfarandi breytingu á Aðalskipulagi Grundarfjarðar 2019-2039:
Eftirfarandi skipulagsákvæði fyrir íbúðarsvæði ÍB-3 breytist úr:
„Fellabrekka 7-9: Heimild er til að byggja allt að 3ja íbúða hús á lóðunum sameiginlega, eða parhús og einbýli á lóðunum tveimur.“
í:
„Fellabrekka 7-13: Heimilt er að byggja allt að 8 íbúðum samtals, á 2 hæðum í fjölbýli eða sérbýli.
Önnur ákvæði íbúðarreitsins haldast óbreytt.
Breytingin telst óveruleg með eftirfarandi rökum:
- Ekki er um breytingu á landnotkun að ræða.
- Áformað byggingarmagn og hæð húsa er í samræmi við aðliggjandi byggðarmynstur og það sem vænta mátti á reitnum skv. gildandi aðalskipulagi, þó svo íbúðum fjölgi og húsagerð breytist.
- Aukin umferð í götunni, vegna fleiri íbúða, mun hafa lítil áhrif á núverandi hús þar sem þau eru innst í botngötunni. Auk þess eru aðstæður þannig að aðeins er byggt öðrum megin götunnar.
- Breytingin er því ekki talin líkleg til að hafa mikil áhrif á einstaka aðila eða á stórt svæði.
Þegar aðalskipulagsbreytingin hefur verið staðfest verði byggingarleyfisumsókn fyrir Fellabrekku 7-13 grenndarkynnt á grundvelli 44. gr. skipulagslaga.
Skipulagsfulltrúa er falið að ganga frá tillögu að óverulegri breytingu aðalskipulags skv. framangreindu til auglýsingar og meðferðar skv. 2. mgr. 36. gr. skipulagslaga.