Bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar samþykkti þann 23. nóvember sl. að auglýsa sameiginlega skipulagslýsingu vegna breytingar á aðalskipulagi og vegna nýs deiliskipulags í tengslum við frekari uppbyggingu verslunar og þjónustu á Grund 2 í samræmi við 1. mgr. 36. gr. og 1. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Auglýst var 29. nóvember og var athugasemdafrestur vegna skipulagslýsingarinnar til og með 27. desember 2023. Opið hús var haldið til kynningar tillögunum í Ráðhúsi Grundarfjarðar, þann 20. desember 2023.
Skipulagssvæðið tekur til um 1,7 ha úr landi Grundar 2 og um 3,8 ha úr landi Grundar eða samtals um 5,5 ha. Í Aðalskipulagi Grundarfjarðar 2019-2039 eru Grund og Grund 2 skilgreind sem landbúnaðarland. Með aðalskipulagsbreytingunni verður landnotkun breytt í verslun og þjónustu.
Ekki hefur áður verið unnið deiliskipulag fyrir svæðið og er meginmarkmið þess að útfæra nánar svæði fyrir verslun og þjónustu (VÞ) til viðbótar við núverandi ferðaþjónustu, nánar tiltekið nýtt gistiheimili, tjaldsvæði, leiksvæði og önnur aðstaða fyrir ferðafólk.
Beiðni um umsögn var send til Ferðamálastofu (barst ekki), Veðurstofu Íslands (barst ekki), RARIK (21.12.2023), Svæðisskipulagsnefndar (barst ekki), Vegagerðarinnar (06.12.2023), Heilbrigðiseftirlits Vesturlands (12.12.2023), Minjastofnunar Íslands (12.12.2023), Umhverfisstofnunar (13.12.2023), Landsnets (22.12.2023) og Skipulagsstofnunar (18.12.2023).
Lögð er nú fram til afgreiðslu samantekt umsagna sem bárust við skipulagslýsingu ásamt tillögu skipulagsfulltrúa að svörum skipulags- og umhverfisnefndar.