Málsnúmer 2501012

Vakta málsnúmer

Skipulags- og umhverfisnefnd - 264. fundur - 14.01.2025

Bæjarstjórn samþykkti á árinu 2024 að lóðum á svonefndum miðbæjarreit verði úthlutað sameiginlega. Reiturinn er myndaður úr fjórum samliggjandi lóðum sem markast af Grundargötu, Hrannarstíg og Hamrahlíð, samtals um 2700 m2. Um er að ræða lóðir nr. 31 og 33 við Grundargötu og nr. 6 og 8 við Hamrahlíð. Lóðirnar eru afar vel staðsettar við megingatnamót, í miðbæ.



Í Aðalskipulagi Grundarfjarðar, rammahluta, er í kafla 8.1. fjallað um miðbæ og m.a. er sett fram stefna um uppbyggingu á þessum miðbæjarlóðum.



Vilji bæjarstjórnar hefur verið til þess að auglýsa reitinn og kynna tækifærin sem felast í uppbyggingu á honum fyrir áhugasömum samstarfsaðilum um þróun á reitnum.



Til umræðu er hjá skipulags- og umhverfisnefnd hvernig starfsemi hún telji að henti best á reitnum, þ.e. hvaða forsendur eigi að leggja til grundvallar nýtingu á miðbæjarsvæði, með framtíðarhagsmuni bæjarbúa í huga.



Til kynningar og umræðu í nefndinni er lagt fram vinnuskjal þar sem sett er fram lýsing á reitnum og þrjár sviðsmyndir um uppbyggingu þar. Með sviðsmyndunum er ætlunin að auðvelda nefndinni og bæjarfulltrúum að taka afstöðu til þess hvaða starfsemi henti best að hafa á reitnum og hvernig eigi að undirbúa uppbyggingu þar.



Gestir undir þessum dagskrárlið eru Herborg Árnadóttir sem undirbjó vinnuskjalið, Halldóra Hreggviðsdóttir (að hluta) og Ingvar Örn Ingvarsson ráðgjafi vegna kynningarmála.

Björg fór yfir aðdragandann og að bæjarstjórn hafi ákveðið að þessar lóðir yrðu auglýstar saman og byggðar upp sameiginlega sem miðbæjarsvæði. Einnig að horfa þurfi á uppbyggingu á Framnesi og miðbæ samhliða, því svæðin eigi að geta styrkt hvort annað.

Herborg fór yfir efni vinnuskjalsins og sviðsmyndirnar um þróun á reitnum, sem eru fyrstu hugmyndir sem skipulags- og umhverfisnefnd og bæjarstjórn munu svo vinna frekar úr.

Ingvar Örn fór yfir kynningarmál og hvernig leita megi samstarfs um uppbyggingu.

Halldóra og Ingvar Örn yfirgáfu fundinn og var þeim þakkað fyrir komuna.


Góð umræða fór fram um framtíðarnýtingu og miðbæjarstarfsemi. Rætt um fyrirmyndir í miðbæjaruppbyggingu í öðrum sveitarfélögum og áherslur sem henti hér á okkar stað. Einnig rætt um mögulega húsagerð og umhverfi húss.

Samhljómur er um það hjá nefndarmönnum að á þessum reit eigi byggingar að hýsa fjölbreytta þjónustu fyrir íbúa og gesti, vera samkomustaður sem tengir bæjarbúa saman og eflir mannlíf og þjónustu í bænum.

Flestir fundarmenn nefndu tækifæri til að setja niður rými fyrir smærri verslanir og aðra þjónustu. Mikilvægt væri að ræða við íbúa og að skapa bæði ný tækifæri en einnig að bjóða til samtalsins þeim aðilum sem þegar eru með starfsemi í bænum.

Með vísan í framsettar sviðsmyndir í vinnuskjali fundarins leggur skipulags- og umhverfisnefnd til að unnið verði með sviðsmynd B, þó með tilbrigði úr sviðsmynd A í bland. Hugmyndirnar verði mótaðar enn frekar sem upplegg að samtali við íbúa og svo kynningarefni fyrir mögulega þróunaraðila. Rauði þráðurinn sé að svæðið gagnist íbúum og styrki samfélagið.

Gestir

  • Halldóra Hreggviðsdóttir, Alta - mæting: 16:00
  • Ingvar Örn Ingvarsson, Cohn og Wolfe - mæting: 16:00
  • Herborg Árnadóttir, Alta - mæting: 16:00

Bæjarstjórn - 294. fundur - 16.01.2025

Málið er einnig á dagskrá 264. fundar skipulags- og umhverfisnefndar. Þar ræddi nefndin sviðsmyndir um uppbyggingu á miðbæjarreit og meginmarkmið við uppbyggingu reitsins. Vísað er í afgreiðslu fundargerðar nefndarinnar fyrr á þessum fundi.

Bæjarstjórn felur skipulags- og umhverfisnefnd og skipulagsfulltrúa að halda áfram vinnu á grunni sviðsmynda og þróa þær áfram, í samráði við íbúa og hagsmunaaðila.

Bæjarstjórn felur bæjarstjóra og skipulagsfulltrúa umboð til að fá að verkinu nauðsynlega þekkingu og aðstoð.

Samþykkt samhljóða.

Skipulags- og umhverfisnefnd - 265. fundur - 05.02.2025

Umræðu frá síðasta fundi skipulags- og umhverfisnefndar 14. janúar sl. haldið áfram, um uppbyggingu á "miðbæjarreit" og sameiginlega úthlutun fjögurra samliggjandi lóða við Grundargötu 31 og 33 og Hamrahlíð 6 og 8.



Gestir fundarins undir þessum lið eru Herborg Árnadóttir og Halldóra Hreggviðsdóttir skipulagsráðgjafar.



Samþykkt að breyta röðun dagskrárliða og taka þennan lið fyrir fyrst á fundinum.



Herborg rifjar upp umræður síðasta fundar út frá minnispunktum, en nefndin ræddi þá framlagðar sviðsmyndir um uppbyggingu og þá starfsemi sem nefndin vildi sjá á reitnum. Herborg fór yfir meginniðurstöðurnar sem komu fram þar. Hún fór yfir og sýndi nokkur dæmi um sambærilegar byggingar annars staðar á landinu, lagðar ofaná lóðarreitinn okkar, til að gefa tilfinningu fyrir umfangi og gerð húsa og þeim þjónustukjörnum sem eru innan þeirra húsa, fjölda bílastæða o.fl.

Sigurður Valur skipulagsfulltrúi fór yfir nokkur lykilatriði sem hann taldi að skiptu máli og sýndi dæmi út frá stærð lóðar með þrjár ólíkar húsagerðir, hversu mikið byggingarmagn og hve mörg bílastæði gætu komist fyrir á lóðunum fjórum. Allt er þetta sett upp fyrst og fremst til að gefa tilfinningu fyrir stærðum og möguleikum. Hann fór yfir dæmi um hugsanlegar "einingar" innan húskjarna og ræddi um mögulega starfsemi í húsið. Hann lagði sérstaka áherslu á bílastæðamálin, sem þyrfti að taka afstöðu til.

Í kjölfarið tóku við almennar umræður fundarmanna. Allir tóku til máls.

Rætt um hver hæð hússins ætti eða mætti vera og viðruð sjónarmið um það.

Rætt um verslunarmál og hvernig verslun geti þróast með húsi á lóðunum, en á síðasta fundi var farið yfir það í umræðum nefndarinnar hvernig starfsemi hún vildi sjá þróast á reitnum.

Talsvert var rætt um bílastæði, en búast má við að þau þurfi mikið pláss, og rætt um samnnýtingu nærliggjandi bílastæða. Bent á það sjónarmið, sem kynni að skipta máli, að bílastæði séu sýnileg þeim sem keyra gegnum bæinn til að auka líkurnar á því að gestir stoppi. Einnig spurt um bílastæðakjallara.

Rætt um kynningu og samtal við íbúa, sem efnt verður til fljótlega. Einnig rætt um samtal við hugsanlega samstarfsaðila/þróunaraðila.

Þar sem áfram er samhljómur um það í nefndinni hvernig þjónusta og starfsemi ætti að vera í húsinu, og komin er tilfinning fyrir hugsanlegu byggingarmagni og bílastæðaþörf, leggur skipulagsfulltrúi til að næsta skref sé að starfsmenn og ráðgjafar móti þrjár sviðsmyndir og leggi fyrir nefndina á næsta fundi hennar, sem færi svo til skoðunar hjá bæjarstjórn og síðan sem hugmyndir og umræðugrundvöllur inn í kynningu og samráð sem fram færi í kjölfarið.

Samhljómur einkennir umræður nefndarmanna um framtíð miðbæjarreitsins, en rauði þráðurinn hefur verið að svæðið gagnist íbúum og verði samkomustaður, sem tengir saman íbúa og eflir mannlíf og þjónustu í samfélaginu.

Einnig er samstaða um það í nefndinni að mikilvægt sé að ræða málefnið við íbúa áður en leitað verður eftir samstarfsaðilum um uppbyggingu á reitnum.

Nefndin samþykkir tillögu skipulagsfulltrúa um að undirbúnar verði sviðsmyndir af hugsanlegum byggingum, þjónustu og fyrirkomulagi á reitnum, til að marka frekari stefnu um uppbygginguna, byggt á grunni þeirra stefnu sem lögð er í Aðalskipulagi Grundarfjarðar. Efnið verði síðan nýtt til að undirbúa kynningu og umræður með íbúum. Nefndin felur skipulagsfulltrúa að útbúa slíkar tillögur fyrir næsta fund nefndarinnar.

Gestir

  • Halldóra Hreggviðsdóttir, Alta - mæting: 15:30
  • Herborg Árnadóttir, Alta - mæting: 15:30

Bæjarráð - 633. fundur - 28.02.2025

Umræða í framhaldi af umræðu á fundum skipulags- og umhverfisnefndar 14. janúar og 5. febrúar sl. og fundi bæjarstjórnar 12. febrúar sl., um uppbyggingu á miðbæjarreit og sameiginlega úthlutun fjögurra samliggjandi lóða við Grundargötu 31 og 33 og Hamrahlíð 6 og 8.



Farið yfir atriði tengd uppbyggingu á miðbæjarreit, útboðsferli og fleiri atriði.

Halldóra fór yfir samantekt úr fyrri umræðu skipulags- og umhverfisnefndar og bæjarstjórnar. Fyrir liggja tillögur að útfærslum, þar sem tvær meginleiðir eða valkostir eru settir fram. Í báðum tillögum er gert ráð fyrir blandaðri starfsemi í húsi á miðbæjarreit, þ.e. verslun, þjónustu og skrifstofum, einkum á neðstu hæð, og íbúðarhúsnæði á efri hæð(um).

Farið sérstaklega yfir þau atriði sem bæjarstjórn mun þurfa að ákveða, áður en byggingarréttindi á reitnum fara í kynningar- og auglýsingaferli.

Málinu er vísað til frekar umræðu í skipulags- og umhverfisnefnd og bæjarstjórn.

Samþykkt samhljóða.

BÁ fór af fundi kl. 12:00.
SGG fór af fundi kl. 12:30.

Gestir

  • Halldóra Hreggviðsdóttir, ráðgjafi Alta - mæting: 10:30
  • Nanna Vilborg Harðardóttir, verkefnastjóri - mæting: 10:30
  • Sigurður Valur Ásbjarnarson, skipulagsfulltrúi - mæting: 10:30

Skipulags- og umhverfisnefnd - 266. fundur - 05.03.2025

Áframhald umræðu frá síðasta fundi skipulags- og umhverfisnefndar frá 5. febrúar sl.



Skipulagsfulltrúi og bæjarstjóri fóru yfir þau vinnugögn sem fyrir liggja og eru samantekt á hugmyndum nefndarinnar og tillögum, samanber umræður síðustu tveggja funda nefndarinnar og síðustu tveggja funda bæjarstjórnar. Að auki hafa skipulagsfulltrúi og bæjarstjóri unnið að frekari undirbúningi með ráðgjafa um uppbyggingarmál og fjármögnun. Framkomnar hugmyndir, sem og upplegg að kynningar- og auglýsingaferli miðbæjarreits, hafa nú verið teknar saman og eru lagðar fyrir nefndina til kynningar.

Bæjarstjóri fór yfir þau atriði sem ljúka þarf með umræðu og ákvörðunum bæjarstjórnar, um þetta ferli. Næsti fundur bæjarstjórnar er fyrirhugaður 13. mars næstkomandi.

Góð umræða varð um uppbyggingu á reitnum, kynningarferli o.fl.

Fundin verður tímasetning fyrir fund með íbúum þar sem fjallað verður um skipulag reitsins, með hliðsjón af tækifærum bæjarins og skipulagi annarra svæða.