Bæjarstjórn samþykkti á árinu 2024 að lóðum á svonefndum miðbæjarreit verði úthlutað sameiginlega. Reiturinn er myndaður úr fjórum samliggjandi lóðum sem markast af Grundargötu, Hrannarstíg og Hamrahlíð, samtals um 2700 m2. Um er að ræða lóðir nr. 31 og 33 við Grundargötu og nr. 6 og 8 við Hamrahlíð. Lóðirnar eru afar vel staðsettar við megingatnamót, í miðbæ.
Í Aðalskipulagi Grundarfjarðar, rammahluta, er í kafla 8.1. fjallað um miðbæ og m.a. er sett fram stefna um uppbyggingu á þessum miðbæjarlóðum.
Vilji bæjarstjórnar hefur verið til þess að auglýsa reitinn og kynna tækifærin sem felast í uppbyggingu á honum fyrir áhugasömum samstarfsaðilum um þróun á reitnum.
Til umræðu er hjá skipulags- og umhverfisnefnd hvernig starfsemi hún telji að henti best á reitnum, þ.e. hvaða forsendur eigi að leggja til grundvallar nýtingu á miðbæjarsvæði, með framtíðarhagsmuni bæjarbúa í huga.
Til kynningar og umræðu í nefndinni er lagt fram vinnuskjal þar sem sett er fram lýsing á reitnum og þrjár sviðsmyndir um uppbyggingu þar. Með sviðsmyndunum er ætlunin að auðvelda nefndinni og bæjarfulltrúum að taka afstöðu til þess hvaða starfsemi henti best að hafa á reitnum og hvernig eigi að undirbúa uppbyggingu þar.
Gestir undir þessum dagskrárlið eru Herborg Árnadóttir sem undirbjó vinnuskjalið, Halldóra Hreggviðsdóttir (að hluta) og Ingvar Örn Ingvarsson ráðgjafi vegna kynningarmála.
Gestir
- Halldóra Hreggviðsdóttir, Alta - mæting: 16:00
- Ingvar Örn Ingvarsson, Cohn og Wolfe - mæting: 16:00
- Herborg Árnadóttir, Alta - mæting: 16:00
Herborg fór yfir efni vinnuskjalsins og sviðsmyndirnar um þróun á reitnum, sem eru fyrstu hugmyndir sem skipulags- og umhverfisnefnd og bæjarstjórn munu svo vinna frekar úr.
Ingvar Örn fór yfir kynningarmál og hvernig leita megi samstarfs um uppbyggingu.
Halldóra og Ingvar Örn yfirgáfu fundinn og var þeim þakkað fyrir komuna.
Góð umræða fór fram um framtíðarnýtingu og miðbæjarstarfsemi. Rætt um fyrirmyndir í miðbæjaruppbyggingu í öðrum sveitarfélögum og áherslur sem henti hér á okkar stað. Einnig rætt um mögulega húsagerð og umhverfi húss.
Samhljómur er um það hjá nefndarmönnum að á þessum reit eigi byggingar að hýsa fjölbreytta þjónustu fyrir íbúa og gesti, vera samkomustaður sem tengir bæjarbúa saman og eflir mannlíf og þjónustu í bænum.
Flestir fundarmenn nefndu tækifæri til að setja niður rými fyrir smærri verslanir og aðra þjónustu. Mikilvægt væri að ræða við íbúa og að skapa bæði ný tækifæri en einnig að bjóða til samtalsins þeim aðilum sem þegar eru með starfsemi í bænum.
Með vísan í framsettar sviðsmyndir í vinnuskjali fundarins leggur skipulags- og umhverfisnefnd til að unnið verði með sviðsmynd B, þó með tilbrigði úr sviðsmynd A í bland. Hugmyndirnar verði mótaðar enn frekar sem upplegg að samtali við íbúa og svo kynningarefni fyrir mögulega þróunaraðila. Rauði þráðurinn sé að svæðið gagnist íbúum og styrki samfélagið.