634. fundur 28. mars 2025 kl. 08:30 - 11:28 í Ráðhúsi Grundarfjarðar
Nefndarmenn
  • Ágústa Einarsdóttir (ÁE) formaður
  • Signý Gunnarsdóttir (SG)
  • Jósef Ó. Kjartansson (JÓK)
    Aðalmaður: Sigurður Gísli Guðjónsson (SGG)
Starfsmenn
  • Björg Ágústsdóttir (BÁ) bæjarstjóri
  • Sigurlaug R. Sævarsdóttir (SRS) skrifstofustjóri
Fundargerð ritaði: Sigurlaug R. Sævarsdóttir skrifstofustjóri
Dagskrá
Formaður setti fund og gengið var til dagskrár.

Einu máli er bætt við dagskrá fundarins og er það síðasta mál á dagskránni.

1.Lausafjárstaða 2025

Málsnúmer 2501016Vakta málsnúmer

Lagt fram yfirlit yfir lausafjárstöðu.

2.Greitt útsvar 2025

Málsnúmer 2502020Vakta málsnúmer

Lagt fram yfirlit yfir greitt útsvar janúar-febrúar 2025.
Skv. yfirlitinu hefur greitt útsvar hækkað um 13,5% miðað við sama tímabil í fyrra.

3.Yfirlit yfir ógreiddar viðskiptakröfur

Málsnúmer 2503018Vakta málsnúmer

Lagt fram yfirlit yfir ógreiddar viðskiptakröfur.

Farið yfir lista yfir ógreiddar viðskiptakröfur 31.12.2024.

4.Starf leikskólastjóra

Málsnúmer 2407017Vakta málsnúmer

Starf leikskólastjóra var auglýst 2. september 2024. Ein umsókn barst, sem ekki uppfyllti skilyrði, og var henni hafnað. Í framhaldinu samdi bæjarstjóri við Heiðdísi Lind Kristinsdóttur um að taka að sér starf leikskólastjóra og var gerður tímabundinn samningur til eins árs.



Samkvæmt Starfsreglum bæjarstjórnar Grundarfjarðarbæjar við ráðningu starfsmanna, ræður bæjarstjórn í æðstu stöður, þar á meðal leikskólastjóra.

Að ósk bæjarstjóra, leggur bæjarráð til við bæjarstjórn að bæjarstjóra verði veitt heimild til að ganga frá fastráðningarsamningi við Heiðdísi Lind Kristinsdóttur, leikskólastjóra, með vísan til 1. mgr. 6. gr. Starfsreglna bæjarstjórnar Grundarfjarðarbæjar við ráðningu starfsmanna og með vísan til auglýsingar um starfið 2. sept. 2024.

Samþykkt samhljóða.

5.Hrannarstígur 18 - úthlutun

Málsnúmer 2503030Vakta málsnúmer

Íbúð 107 að Hrannarstíg 18 var auglýst laus til úthlutunar. Ein umsókn barst og er lagt til að hún verði samþykkt.

Bæjarráð samþykkir að úthluta íbúð 107 að Hrannarstíg 18 til Matthildar Guðmundsdóttur. Skrifstofustjóra falið að ganga frá samningi.

Samþykkt samhljóða.

6.Minnispunktar bæjarstjóra, dags. 3. mars 2025, varðandi kjarasamninga kennara

Málsnúmer 2503008Vakta málsnúmer

Á fundi bæjarstjórnar 13. mars sl. var lagt fram minnisblað bæjarstjóra um málið. Mæta þarf 25,3 millj. kr. kostnaðarauka á árinu 2025 vegna kjarasamninga, sem ná til grunnskóla, leikskóla, tónlistarskóla og leikskóladeildarinnar Eldhamra.



Bæjarstjórn vísaði málinu til vinnslu í bæjarráði.

Á fundi bæjarstjórnar 13. mars sl. var rætt um að kostnaðaraukanum yrði ekki mætt með frekari lántöku.

Bæjarráð fór yfir tillögu að niðurskurði á fjárfestingaráætlun ársins, sem myndi lækka um 8 millj. kr. Lagt til að 17 millj. kr. verði mætt með hagræðingu/breytingu í rekstri, en tillögur um það verða unnar áfram.

Tillaga samþykkt samhljóða.

7.Fjárhagsáætlun 2025 - viðauki 2

Málsnúmer 2409008Vakta málsnúmer

Bæjarstjórn vísaði málinu til afgreiðslu í bæjarráði.



Lögð fram drög að viðauka 2 við fjárhagsáætlun ársins 2025.

Farið yfir viðauka 2 við fjárhagsáætlun 2025 til áframhaldandi vinnslu.

Drög að viðauka 2 við fjárhagsáætlun 2025 samþykkt og vísað til samþykktar í bæjarstjórn.

Samþykkt samhljóða.

8.Framkvæmdir 2025

Málsnúmer 2501025Vakta málsnúmer

Farið yfir undirbúning framkvæmda.



Inná fundinn undir þessum lið komu Sigurður Valur Ásbjarnarson, í fjarfundi, Ólafur Ólafsson, íþrótta- og tómstundafulltrúi og Guðmundur Rúnar Svansson, þjónustufulltrúi skipulags- og byggingarfulltrúa.



Yfirferð framkvæmda.

Bæjarstjóri sagði frá því að hún og Nanna Vilborg, verkefnastjóri skipulags- og umhverfismála, hefðu setið upphafsfund um Life-verkefnið fyrr í vikunni, ásamt stórum hópi fulltrúa þeirra 23 aðila sem taka þátt í verkefninu. Fundurinn var mjög góður undirbúningur undir frekari vinnu og framkvæmdir við blágrænar ofanvatnslausnir, sem okkar verkefni gengur út á.

Sigurður Valur fór yfir nokkur mál, sem hann hefur komið að því að undirbúa.

Verðkönnunargögn eru tilbúin vegna framkvæmda í Sögumiðstöð og verða send út í næstu viku. Um er að ræða viðgerðir og endurbætur á húsnæðinu, sem vinna á skv. ástandsmati sem gert var á húsinu og lagt hefur verið fyrir bæjarráð. Ætlunin er að framkvæmdatími verði hluti apríl og til loka maímánaðar, ef allt gengur eftir.

Hér kom Ólafur inná fundinn.

Framkvæmdir við endurbætur utanhúss á íþróttahúsi eru í undirbúningi. Gengið verður frá útboði í aprílmánuði. Miðað er við framkvæmdir á tveimur fjárhagsárum, 2025 og 2026.

Einnig rætt lauslega um fleiri framkvæmdir/verkefni á sviði íþróttafulltrúa, s.s. tjaldsvæðis og skólalóðar (grunnskóli og íþróttahús), en Nanna vinnur nú með grunnskóla og íþróttahúsi að undirbúningi fyrir endurbætur á skólalóð. Ætlunin er að endurnýja rennibrautina og klifurkastalann á norðanverðri skólalóð. Klifurkastalann má nýta á öðru leiksvæði, en rennibrautinni verður fargað.

Gengið hefur verið frá pöntun í nýja bekki og skápa í búningsklefa sundlaugar/íþróttahúss, eftir að Ólafur hafði leitað tilboða í viðgerð bekkja, sem ekki svaraði kostnaði að fara í. Miðað er við að uppsetning fari fram í maímánuði.

Ólafur fór einnig yfir fyrirhugaðar framkvæmdir á tjaldsvæði og m.a. flutning leiktækja á tjaldsvæðið.

Einnig hefur verið leitað tilboða í litla rennibraut fyrir vaðlaugina við sundlaug. Rætt um möguleika á geymslugám með salerni við íþróttavöllinn.

Rætt um þróunina í orkuskiptaverkefninu og kyndingu skóla- og íþróttamannvirkja. Sagði Óli frá því að vandræði hafa verið með leir í holu nr. 7, sem kemur þá með vatninu sem ætlunin er að nýta úr holunni. Leirdrulla hefur stíflað síur og valdið vandræðum. Björg sagði að verkfundur væri fyrirhugaður nk. mánudag með verktökum og ráðgjafa út af þessu.

Hér vék Ólafur af fundi og var honum þakkað fyrir upplýsingarnar.

Rætt um undirbúning og gögn vegna gangstétta og stíga, sem er í undirbúningi og Nanna hefur aðallega umsjón með.

Hér vék JÓK af fundi undir umræðu um nýtt geymslusvæði.

Sigurður Valur sagði frá því að vinna við frágang á nýju geymslusvæði er á lokametrunum. Tvær verðkannanir voru gerðar, annars vegar um jarðvinnu og hinsvegar um uppsetningu á girðingu.
Búið er að kaupa tvo 20 feta gáma, sem ætlaðir eru fyrir geymslu bæjarins, einkum áhaldahúss, á ýmsum lausamunum og búnaði. Tveir gamlir gámar á eldra geymslusvæðinu eru ónýtir og verður þeim ráðstafað í endurvinnslu.

JÓK tók aftur sæti sitt á fundinum.

Bæjarstjóri sagði frá því að útboðsgögn og auglýsingaefni vegna uppbyggingar á miðbæjarreit eru í undirbúningi. Stefnt er á kynningarfund fyrir íbúa í næstu viku, einnig sérstökum fundi með húseigendum á nærliggjandi lóðum við miðbæjarlóðirnar. Ætlunin er að bjóða út byggingarrétt á lóðunum fjórum sem mynda miðbæjarreit.

Hér kom Guðmundur Rúnar inn á fundinn.

Rætt um nýjar reglur og gjaldskrá fyrir geymslusvæði, sem er í vinnslu hjá Guðmundi Rúnari. Hann útskýrði helstu áherslur og leitaði viðbragða bæjarráðs. Ætlunin er að leggja drög að reglunum fyrir skipulags- og umhverfisnefndarfund í næstu viku.

Hér fóru Sigurður Valur og Guðmundur Rúnar af fundi og var þeim þakkað fyrir upplýsingarnar.

ÁE vék af fundi vegna umræðu um útleigu Sögumiðstöðvar.

Rætt um mögulega útleigu á Sögumiðstöð í sumar til einkaaðila eftir að framkvæmdum þar verður lokið, sbr. það sem fyrr er sagt. Málið hefur verið til umræðu áður, hjá bæjarstjórn, bæjarráði og menningarnefnd, sem var jákvæð fyrir útleigu. Málið valt á því hvenær framkvæmdatími í Sögumiðstöð yrði.

Bæjarráð samþykkir að leggja til við bæjarstjórn, að auglýst verði útleiga rýmis í Sögumiðstöð fyrir komandi sumar, til reynslu, með fyrirvara um niðurstöður verðkönnunar v/framkvæmda, sbr. umræðu fyrr á fundinum. Semja þarf skilmála fyrir útleiguna, en miðað er við tímabilið frá því í byrjun júní og út ágúst. Bæjarstjóra falið að undirbúa, með hliðsjón af niðurstöðum úr verðkönnun.

Samþykkt samhljóða.

ÁE tók aftur sæti sitt á fundinum.

Gestir

  • Guðmundur Rúnar Svansson, starfsmaður skipulags- og byggingafulltrúaembættisins - mæting: 09:25
  • Ólafur Ólafsson, íþrótta- og tómstundafulltrúi - mæting: 09:47
  • Sigurður Valur Ásbjarnarson skipulagsfulltrúi og ráðgjafi - mæting: 09:00

9.Uppbyggingarsjóður íþrótta- og menningarmála

Málsnúmer 2503029Vakta málsnúmer

Lögð fram drög að reglum um Uppbyggingarsjóð íþrótta- og menningarmála, til umræðu.

Um er að ræða sjóð sem stofnað var til sama ár og greiðslum lauk skv. 10 ára samningi um framlag til menningarstarfs í Sögumiðstöð, en fjármunir þeir eru til inná bankareikningi, skv. samningi sem gerður var á sínum tíma þar að lútandi.

Í framhaldinu ákvað bæjarstjórn að halda áfram að leggja í sjóð, sem ætlaður væri til sérstakra uppbyggingarverkefna, í íþrótta- og menningarmálum.

Farið yfir drögin, sem skrifstofustjóri hefur undirbúið, og vísað til næsta fundar bæjarráðs.

Samþykkt samhljóða.

10.Slökkvilið Grundarfjarðar - Skýrsla vegna máls nr 25-1713 - Borgarbraut 17

Málsnúmer 2503024Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar skýrsla slökkviliðsstjóra vegna eldvarnaeftirlits á húsnæði Grunnskóla Grundarfjarðar, sem fram fór 4. mars 2025.



Atriðin í skýrslunni eru til úrvinnslu.

11.FSN - Skólaakstur 2024

Málsnúmer 2503007Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar bréf Fjölbrautaskóla Snæfellinga um afkomu skólaaksturs á haustönn 2024 ásamt reikningi. Tap á rekstri skólaaksturs leiðir til rúmlega 1,7 millj. kr. framlags Grundarfjarðarbæjar.

Rætt um leiðir til að draga úr tapi á skólaakstri.

12.Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála - Frumkvæðisathugun á stoð- og stuðningsþjónustureglum sveitarfélaga - Skýrsla

Málsnúmer 2503023Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar skýrsla Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála um frumkvæðisathugun á stoð- og stuðningsþjónustu sveitarfélaga.

13.Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi - Skýrsla frá íbúafundum um framtíð Breiðafjarðar.

Málsnúmer 2407002Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar skýrsla SSV frá 2024 um framtíðarmöguleika Breiðafjarðar og skilaboð íbúafunda þess efnis.

14.Félag eldri borgara í Eyrarsveit - Ársyfirlit 2023-2024

Málsnúmer 2503016Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar ársyfirlit Félags eldri borgara í Grundarfjarðarbæ vegna 2023-2024.

15.Golfklúbburinn Vestarr - Ársreikningur 2022-2023

Málsnúmer 2503017Vakta málsnúmer

Lagður fram til kynningar ársreikningur Golfklúbbsins Vestarr vegna 2022-2023.

16.Skotfélag Snæfellsness - Ársreikningar 2024

Málsnúmer 2503025Vakta málsnúmer

Lagður fram til kynningar ársreikningur Skotfélags Snæfellsness vegna ársins 2024.

17.Hesteigendafélag Grundarfjarðar - Ársreikningur 2023

Málsnúmer 2503026Vakta málsnúmer

Lagður fram til kynningar ársreikningur Hesteigendafélags Grundarfjarðar vegna ársins 2023.

18.Hesteigendafélag Grundarfjarðar - Ársreikningur 2024

Málsnúmer 2503027Vakta málsnúmer

Lagður fram til kynningar ársreikningur Hesteigendafélags Grundarfjarðar vegna ársins 2024.

19.Alþingi - Breyting á lögum um veiðigjald

Málsnúmer 2504001Vakta málsnúmer

Máli bætt við dagskrá fundarins, en 25. mars sl. var birt í Samráðsgátt mál frá atvinnuvegaráðherra, drög að frumvarpi til breytinga á lögum um veiðigjald (mál nr. S-62/2025).



Umsagnartími er skammur, eða rúm vika - til 3. apríl nk. Ljóst er að ekki næst að setja málið á dagskrá bæjarstjórnarfundar áður en sá frestur rennur út.



Bæjarstjóri sagði frá því að eftir hádegi í dag hafi verið boðað til fundar með fulltrúum allra sveitarfélaga í Samtökum sjávarútvegssveitarfélaga og muni hún sitja þann fund.



Grundarfjarðarbær er sjávarbyggð sem á mikið undir atvinnugreinum sjávarútvegs, einkum fiskveiðum og fiskvinnslu. Í greiningu Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi kemur í ljós að rétt um 40% af útsvarstekjum Grundarfjarðarbæjar, og þar með atvinnutekjum íbúa, kemur beint úr sjávarútvegi, þ.e. fiskveiðum og fiskvinnslu. Ótaldar eru þá útsvarstekjur úr annarri starfsemi, sem einnig byggir á sjávarútvegi, alfarið eða að stórum hluta.

Á landsvísu hefur sjávarútvegur afar mismunandi vægi í útsvarsgrunni sveitarfélaga, allt frá því að hafa ekkert vægi upp í það að vega allt að 50% útsvarstekna, þegar vægi veiða og vinnslu eru lögð saman. Grundarfjarðarbær er í fjórða til fimmta sæti þeirra sveitarfélaga þar sem fiskveiðar og vinnsla hafa mesta vægið í útsvarstekjunum.

Ljóst er því að umfangsmiklar breytingar sem snerta sjávarútveg eru líklegar til að hafa mun meiri áhrif á Grundarfjarðarbæ en mörg önnur sveitarfélög.

Í því ljósi gerir bæjarráð alvarlegar athugasemdir við þann skamma tíma sem gefinn er til umsagna um málið í Samráðsgátt.

Grundarfjarðarbær gerir einnig athugasemd við að framlögð frumvarpsdrög séu kynnt án þess að fyrir liggi nánari greining á áhrifum boðaðra lagabreytinga fyrir sveitarfélögin og tekjustofna þeirra, s.s. eftir samsetningu tekna sveitarfélaga, umfangi greina sjávarútvegs í atvinnulífi sveitarfélaga, samsetningu eða tegundum sjávarútvegsfyrirtækja o.fl.

Gerð er alvarleg athugasemd við þá fullyrðingu í kafla 6.4. í frumvarpinu, þar sem segir að með vísan til umfjöllunar í kafla 6.3 um áhrif frumvarpsins á samkeppnishæfni og rekstrarskilyrði sjávarútvegsfyrirtækja „verði að telja að frumvarpið verði það að lögum muni hafa óveruleg áhrif á þau byggðalög þar sem sjávarútvegsfyrirtæki eru staðsett“.
Með hliðsjón af því sem áður er sagt um vægi sjávarútvegs í Grundarfirði er kallað eftir upplýsingum sem þarna búa að baki eða sem skýra þetta.

Bæjarstjóra er falið að leggja inn umsögn í samráðsgáttina.

Samþykkt samhljóða.
Lokið við fundargerð í framhaldi af fundi og hún samþykkt rafrænt af bæjarráðsfulltrúum.

Fundi slitið - kl. 11:28.