Málsnúmer 2504001

Vakta málsnúmer

Bæjarráð - 634. fundur - 28.03.2025

Máli bætt við dagskrá fundarins, en 25. mars sl. var birt í Samráðsgátt mál frá atvinnuvegaráðherra, drög að frumvarpi til breytinga á lögum um veiðigjald (mál nr. S-62/2025).



Umsagnartími er skammur, eða rúm vika - til 3. apríl nk. Ljóst er að ekki næst að setja málið á dagskrá bæjarstjórnarfundar áður en sá frestur rennur út.



Bæjarstjóri sagði frá því að eftir hádegi í dag hafi verið boðað til fundar með fulltrúum allra sveitarfélaga í Samtökum sjávarútvegssveitarfélaga og muni hún sitja þann fund.



Grundarfjarðarbær er sjávarbyggð sem á mikið undir atvinnugreinum sjávarútvegs, einkum fiskveiðum og fiskvinnslu. Í greiningu Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi kemur í ljós að rétt um 40% af útsvarstekjum Grundarfjarðarbæjar, og þar með atvinnutekjum íbúa, kemur beint úr sjávarútvegi, þ.e. fiskveiðum og fiskvinnslu. Ótaldar eru þá útsvarstekjur úr annarri starfsemi, sem einnig byggir á sjávarútvegi, alfarið eða að stórum hluta.

Á landsvísu hefur sjávarútvegur afar mismunandi vægi í útsvarsgrunni sveitarfélaga, allt frá því að hafa ekkert vægi upp í það að vega allt að 50% útsvarstekna, þegar vægi veiða og vinnslu eru lögð saman. Grundarfjarðarbær er í fjórða til fimmta sæti þeirra sveitarfélaga þar sem fiskveiðar og vinnsla hafa mesta vægið í útsvarstekjunum.

Ljóst er því að umfangsmiklar breytingar sem snerta sjávarútveg eru líklegar til að hafa mun meiri áhrif á Grundarfjarðarbæ en mörg önnur sveitarfélög.

Í því ljósi gerir bæjarráð alvarlegar athugasemdir við þann skamma tíma sem gefinn er til umsagna um málið í Samráðsgátt.

Grundarfjarðarbær gerir einnig athugasemd við að framlögð frumvarpsdrög séu kynnt án þess að fyrir liggi nánari greining á áhrifum boðaðra lagabreytinga fyrir sveitarfélögin og tekjustofna þeirra, s.s. eftir samsetningu tekna sveitarfélaga, umfangi greina sjávarútvegs í atvinnulífi sveitarfélaga, samsetningu eða tegundum sjávarútvegsfyrirtækja o.fl.

Gerð er alvarleg athugasemd við þá fullyrðingu í kafla 6.4. í frumvarpinu, þar sem segir að með vísan til umfjöllunar í kafla 6.3 um áhrif frumvarpsins á samkeppnishæfni og rekstrarskilyrði sjávarútvegsfyrirtækja „verði að telja að frumvarpið verði það að lögum muni hafa óveruleg áhrif á þau byggðalög þar sem sjávarútvegsfyrirtæki eru staðsett“.
Með hliðsjón af því sem áður er sagt um vægi sjávarútvegs í Grundarfirði er kallað eftir upplýsingum sem þarna búa að baki eða sem skýra þetta.

Bæjarstjóra er falið að leggja inn umsögn í samráðsgáttina.

Samþykkt samhljóða.