Málsnúmer 2501025

Vakta málsnúmer

Bæjarráð - 632. fundur - 31.01.2025

Undir þessum dagskrárlið eru gestir fundarins, gegnum fjarfund, þau Sigurður Valur Ásbjarnarson, skipulagsfulltrúi, Nanna Vilborg Harðardóttir verkefnisstjóri skipulags- og umhverfismála bæjarins og Sigurjón Bjarni Bjarnason hjá VSÓ.

Bæjarstjóri leggur fram yfirlit yfir helstu verkefni ársins og atriði sem snerta undirbúning þeirra.
Farið yfir eftirfarandi verkefni og er umræða skráð undir hverjum lið.


- Íþróttahús og tengigangur

Fyrir liggur uppfært ástandsmat hússins og áætlun um viðgerðir, sem felast aðallega í að klæða húsið, þakviðgerð, gluggaskiptum o.fl. Á síðustu 2-3 árum hefur verið skipt um glugga og hurðar og unnið að steypuviðgerðum.
Unnið er að undirbúningi heildarútboðs framkvæmda við endurbætur hússins, á grunni nýs ástandsmats, sem ætlunin er að verði auglýst á næstu vikum.
Í fjárhagsáætlun 2025 er gert ráð fyrir fjármunum til hluta af þeim viðgerðum sem gera þarf á húsinu.
Rætt um þá útfærslu að bjóða út heildarframkvæmdina og hafa verktíma lengri tíma en bara árið 2025.
Bæjarráð felur Sigurði Val að leggja fram tillögu, í samvinnu við VSÓ, um skiptingu verks niður á lengra tímabil, með útboð í huga. Tillagan verður lögð fyrir bæjarstjórn.


- Sögumiðstöðin, Grundargötu 35

VSÓ vinnur að ástandsmati hússins, og kynnti Sigurjón Bjarni bráðabirgðaniðurstöður. Á liðnu ári var farið í endurbætur á veggjum og þaki, vegna mikilla rakaskemmda í suðurhluta hússins. Mikilvægt er fyrir bæjarstjórn að hafa góða yfirsýn yfir ástand hússins og þörf fyrir endurbætur, til að geta gert sér grein fyrir kostnaði og til að geta forgangsraðað verkefnum.


Hér vék Sigurjón Bjarni af fundi og var honum þakkað fyrir yfirferðina.


- Spennistöðvarhús, efst við Borgarbraut

Sigurður Valur sagði frá skoðun á húsinu, sem hugmyndir hafa verið uppi um að nýta í einhverja starfsemi.
Bærinn fékk eignaryfirráð hússins fyrir nokkrum árum og hefur nýtt það mest sem geymslurými.
Verið er að skoða ástand húss til að bæjarstjórn geti metið hve mikla fjármuni borgi sig að leggja í viðgerðir.


- Geymslusvæði við Ártún 8

Sigurður Valur sagði frá framkvæmdum á svæðinu, þar sem ætlunin er að hafa geymslusvæði á vegum bæjarins. Gerð var verðkönnun fyrir áfanga 1, jarðvinnu, og áfanga 2, uppsetningu öryggisgirðingar.

Björg sagði frá helstu framkvæmdum hafnarinnar, sem eru í skipulagsmálum og bygging þjónustuhúss, sem verður viðbygging við núverandi hafnarhús. Húsið er ætlað fyrir þjónustu við gesti skemmtiferðaskipa (wc, upplýsingar o.fl.), fyrir starfsfólk sem kemur að skipamóttöku, s.s. bílstjóra, leiðsögufólk o.fl., auk þess sem í húsinu verður viðbótarrými fyrir starfsmenn hafnarinnar. Ætlunin er að húsið rísi og verði tilbúið að mestu fyrir komandi sumar.

Hér vék Sigurður Valur af fundi og var honum þakkað fyrir yfirferðina.


Nanna tók við og sagði frá eftirfarandi verkefnum, sem hún heldur utan um:

- Undirbúningur framkvæmda við gangstéttar, stíga og göturými

Nanna sýndi yfirlitsmynd yfir helstu framkvæmdasvæði í götum/gangstéttum, en verið er að undirbúa þær framkvæmdir ársins. Ætlunin er að ljúka hellulögn við malbikaðar gangstéttar, steyptum gangstéttum og blágrænum beðum í neðanverðum Hrannarstíg, gangstíg við Fellaskjól, o.fl.
Einnig er ætlunin að endurnýja steyptar gangstéttar og var rætt um gangstéttar þar sem mest þörf er fyrir endurnýjun. Bæjarráð var sammála um forgangsröðun og er þetta til áframhaldandi vinnslu.

- LIFE Icewater, verkefni við sjálfbærar fráveitulausnir, verkefni 2025-2030

Nanna sýndi yfirlit og fór yfir þau verkefni, sem ætlunin er að vinna í samræmi við verkefnisáætlun sem hlotið hefur stóran fjárstyrk úr LIFE áætlun Evrópusambandsins.

- Skólalóð grunnskóla

Nanna sagði frá undirbúningi að framkvæmdum á skólalóð grunnskólans, sem hún er að undirbúa með skólastjóra grunnskóla, íþróttafulltrúa o.fl. Tekið verður fyrir svæðið kringum sandkassa og þar norður úr, en áhersla er á að bæta leiksvæðið með þarfir yngstu barnanna í huga. Einnig er ætlunin að bæta gróður á skólalóð.

Bæjarráð þakkaði Nönnu fyrir komuna og yfirferð verkefna á fundinum.

Gestir

  • Sigurður Valur Ásbjarnarson skipulagsfulltrúi og ráðgjafi - mæting: 09:40
  • Nanna Vilborg Harðardóttir verkefnisstjóri skipulags- og umhverfismála - mæting: 10:00
  • Sigurjón Bjarni Bjarnason verkfræðingur VSÓ - mæting: 09:40

Bæjarráð - 633. fundur - 28.02.2025

Sigurður Valur Ásbjarnarson, skipulagsfulltrúi, Ólafur Ólafsson, íþrótta- og tómstundafulltrúi og Nanna Vilborg Harðardóttir, sátu fundinn undir þessum lið, að hluta eða alveg.



Lagt fram ástandsmat á húsnæðinu Grundargötu 35 (Sögumiðstöð) og Borgarbraut 21 (gamla spennistöðvarhúsið), unnið af VSÓ.



Sigurður Valur fór yfir eftirfarandi verkefni:

- Undirbúningur vegna útboðs framkvæmda við viðgerðir á íþróttahúsi og tengigangi milli íþróttahúss og grunnskóla.

Fyrir liggur ástandsmat á ytra byrði íþróttahúss, þaki, gluggum o.fl. Einnig mat á ástandi tengigangs milli grunnskóla og íþróttahúss. Fram hafa farið gluggaskipti og endurnýjun hurða, ásamt minniháttar múrviðgerðum, sl. 2 ár.

Verið er að undirbúa útboð framkvæmda við nauðsynlegar viðgerðir. Bæjarstjórn hefur þegar ákveðið að húsið skuli klætt. Stefnt er að því að útboð nái yfir heildarverkið, þ.e. að ljúka klæðningu hússins, þakviðgerð og endurnýjun á þeim gluggum sem enn á eftir að skipta um - og að verktími taki þá yfir a.m.k. 2 ár, svo deila megi kostnaði á lengri tíma.

VA Arkitektar eru að teikna áfellur og VSÓ mun sjá um gerð útboðsgagna.

- Ástandsmat fyrir gamla spennistöðvarhúsið.
Farið yfir ástandsmatið. Ljóst er að veggir hússins eru ekki í því ástandi að viðunandi viðgerð muni borga sig. Lagðir fram valkostir um viðgerðir.
Bæjarráð leggur til að ekki verði lagðir frekari fjármunir í viðgerð hússins, umfram það sem nauðsynlegt er til að viðhalda því sem góðri geymslu fyrir lausamuni, byggingarefni og slíkt.

Rifjað upp, að eignayfirfærsla hússins til bæjarins var bænum að kostnaðarlausu á sínum tíma og mikilvægt að bærinn ráði yfir svæðinu, af skipulagsástæðum.

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að fjárveiting ársins í gömlu spennistöðina, uppá 3,5 millj. kr. verði lækkuð í 0,5 millj. kr. og að 3 millj. kr. verði færðar sem viðbót á fjárveitingu í framkvæmdir við Sögumiðstöð.

Ólafur vék af fundi kl. 9:35.

- Ástandsmat Sögumiðstöðvar og kostnaðaráætlun.

Farið yfir ástandsmat og niðurstöður þess.

Með hliðsjón af tillögu hér framar, um viðbótarfjárveitingu til framkvæmda í Sögumiðstöð, leggur bæjarráð til að leitað verði tilboða með verðkönnun í heildarviðgerðir hússins skv. ástandsmatinu og að skipulagsfulltrúa verði falið að undirbúa það verk.

Nanna kom inn á fundinn kl. 9:45.

Sigurður Valur fór einnig yfir eftirfarandi mál:

- Lóðamál og byggingar á lóð Fellaskjóls - umræða í framhaldi af kynningarfundum og umræðu um deiliskipulag Ölkeldudals (nýjar lóðir vestan Fellaskjóls) eftir hugmyndavinnu Sigurðar Vals og Nönnu.

SG vék af fundi undir þessu málefni kl. 09:45 og GS tók hennar sæti undir þessari umræðu eingöngu.

Bæjarráð þakkar fyrir tillögur um fyrirkomulag og uppbyggingu á nýjum lóðum vestan Fellaskjóls og vísar þeim til frekari umræðu í skipulags- og umhverfisnefnd. Skipulagsfulltrúa og bæjarstjóra jafnframt falið að ræða við fulltrúa Fellaskjóls um þessar útfærslur.

Samþykkt samhljóða.

GS vék af fundi kl. 10:28 og SG tók sæti sitt á fundinum.

Sigurður Valur og Nanna fóru yfir eftirfarandi:
- Geymslusvæðið við Ártún 8, framkvæmd og hugmynd um nýtingu til framtíðar.

Skipulagsfulltrúa falið að skoða nánar þessa hugmynd að skipulagi nýja geymslusvæðisins.

Samþykkt samhljóða.

Nanna fór yfir eftirfarandi verkefni, sem hún er að undirbúa vegna framkvæmda sumarsins:

- Gatna- og stígaframkvæmdir sem eru í undirbúningi fyrir framkvæmdir 2025.

- Leiksvæði á lóðum grunnskóla og leikskóla.

- Útivistarstígar, sbr. umræðu síðasta fundar í íþrótta- og tómstundanefnd.

- Þríhyrningur, en þar er ætlunin að hlaða upp eldstæði og umhverfi þess.

Sigurði Val og Nönnu þakkað fyrir sitt innlegg undir þessum lið.

Gestir

  • Ólafur Ólafsson, íþrótta- og tómstundafulltrúi - mæting: 08:45
  • Nanna Vilborg Harðardóttir, verkefnastjóri - mæting: 09:45
  • Sigurður Valur Ásbjarnarson, skipulagsfulltrúi - mæting: 08:45

Bæjarráð - 634. fundur - 28.03.2025

Farið yfir undirbúning framkvæmda.



Inná fundinn undir þessum lið komu Sigurður Valur Ásbjarnarson, í fjarfundi, Ólafur Ólafsson, íþrótta- og tómstundafulltrúi og Guðmundur Rúnar Svansson, þjónustufulltrúi skipulags- og byggingarfulltrúa.



Yfirferð framkvæmda.

Bæjarstjóri sagði frá því að hún og Nanna Vilborg, verkefnastjóri skipulags- og umhverfismála, hefðu setið upphafsfund um Life-verkefnið fyrr í vikunni, ásamt stórum hópi fulltrúa þeirra 23 aðila sem taka þátt í verkefninu. Fundurinn var mjög góður undirbúningur undir frekari vinnu og framkvæmdir við blágrænar ofanvatnslausnir, sem okkar verkefni gengur út á.

Sigurður Valur fór yfir nokkur mál, sem hann hefur komið að því að undirbúa.

Verðkönnunargögn eru tilbúin vegna framkvæmda í Sögumiðstöð og verða send út í næstu viku. Um er að ræða viðgerðir og endurbætur á húsnæðinu, sem vinna á skv. ástandsmati sem gert var á húsinu og lagt hefur verið fyrir bæjarráð. Ætlunin er að framkvæmdatími verði hluti apríl og til loka maímánaðar, ef allt gengur eftir.

Hér kom Ólafur inná fundinn.

Framkvæmdir við endurbætur utanhúss á íþróttahúsi eru í undirbúningi. Gengið verður frá útboði í aprílmánuði. Miðað er við framkvæmdir á tveimur fjárhagsárum, 2025 og 2026.

Einnig rætt lauslega um fleiri framkvæmdir/verkefni á sviði íþróttafulltrúa, s.s. tjaldsvæðis og skólalóðar (grunnskóli og íþróttahús), en Nanna vinnur nú með grunnskóla og íþróttahúsi að undirbúningi fyrir endurbætur á skólalóð. Ætlunin er að endurnýja rennibrautina og klifurkastalann á norðanverðri skólalóð. Klifurkastalann má nýta á öðru leiksvæði, en rennibrautinni verður fargað.

Gengið hefur verið frá pöntun í nýja bekki og skápa í búningsklefa sundlaugar/íþróttahúss, eftir að Ólafur hafði leitað tilboða í viðgerð bekkja, sem ekki svaraði kostnaði að fara í. Miðað er við að uppsetning fari fram í maímánuði.

Ólafur fór einnig yfir fyrirhugaðar framkvæmdir á tjaldsvæði og m.a. flutning leiktækja á tjaldsvæðið.

Einnig hefur verið leitað tilboða í litla rennibraut fyrir vaðlaugina við sundlaug. Rætt um möguleika á geymslugám með salerni við íþróttavöllinn.

Rætt um þróunina í orkuskiptaverkefninu og kyndingu skóla- og íþróttamannvirkja. Sagði Óli frá því að vandræði hafa verið með leir í holu nr. 7, sem kemur þá með vatninu sem ætlunin er að nýta úr holunni. Leirdrulla hefur stíflað síur og valdið vandræðum. Björg sagði að verkfundur væri fyrirhugaður nk. mánudag með verktökum og ráðgjafa út af þessu.

Hér vék Ólafur af fundi og var honum þakkað fyrir upplýsingarnar.

Rætt um undirbúning og gögn vegna gangstétta og stíga, sem er í undirbúningi og Nanna hefur aðallega umsjón með.

Hér vék JÓK af fundi undir umræðu um nýtt geymslusvæði.

Sigurður Valur sagði frá því að vinna við frágang á nýju geymslusvæði er á lokametrunum. Tvær verðkannanir voru gerðar, annars vegar um jarðvinnu og hinsvegar um uppsetningu á girðingu.
Búið er að kaupa tvo 20 feta gáma, sem ætlaðir eru fyrir geymslu bæjarins, einkum áhaldahúss, á ýmsum lausamunum og búnaði. Tveir gamlir gámar á eldra geymslusvæðinu eru ónýtir og verður þeim ráðstafað í endurvinnslu.

JÓK tók aftur sæti sitt á fundinum.

Bæjarstjóri sagði frá því að útboðsgögn og auglýsingaefni vegna uppbyggingar á miðbæjarreit eru í undirbúningi. Stefnt er á kynningarfund fyrir íbúa í næstu viku, einnig sérstökum fundi með húseigendum á nærliggjandi lóðum við miðbæjarlóðirnar. Ætlunin er að bjóða út byggingarrétt á lóðunum fjórum sem mynda miðbæjarreit.

Hér kom Guðmundur Rúnar inn á fundinn.

Rætt um nýjar reglur og gjaldskrá fyrir geymslusvæði, sem er í vinnslu hjá Guðmundi Rúnari. Hann útskýrði helstu áherslur og leitaði viðbragða bæjarráðs. Ætlunin er að leggja drög að reglunum fyrir skipulags- og umhverfisnefndarfund í næstu viku.

Hér fóru Sigurður Valur og Guðmundur Rúnar af fundi og var þeim þakkað fyrir upplýsingarnar.

ÁE vék af fundi vegna umræðu um útleigu Sögumiðstöðvar.

Rætt um mögulega útleigu á Sögumiðstöð í sumar til einkaaðila eftir að framkvæmdum þar verður lokið, sbr. það sem fyrr er sagt. Málið hefur verið til umræðu áður, hjá bæjarstjórn, bæjarráði og menningarnefnd, sem var jákvæð fyrir útleigu. Málið valt á því hvenær framkvæmdatími í Sögumiðstöð yrði.

Bæjarráð samþykkir að leggja til við bæjarstjórn, að auglýst verði útleiga rýmis í Sögumiðstöð fyrir komandi sumar, til reynslu, með fyrirvara um niðurstöður verðkönnunar v/framkvæmda, sbr. umræðu fyrr á fundinum. Semja þarf skilmála fyrir útleiguna, en miðað er við tímabilið frá því í byrjun júní og út ágúst. Bæjarstjóra falið að undirbúa, með hliðsjón af niðurstöðum úr verðkönnun.

Samþykkt samhljóða.

ÁE tók aftur sæti sitt á fundinum.

Gestir

  • Guðmundur Rúnar Svansson, starfsmaður skipulags- og byggingafulltrúaembættisins - mæting: 09:25
  • Ólafur Ólafsson, íþrótta- og tómstundafulltrúi - mæting: 09:47
  • Sigurður Valur Ásbjarnarson skipulagsfulltrúi og ráðgjafi - mæting: 09:00