Málsnúmer 2110019Vakta málsnúmer
Á 230. fundi skipulags- og umhverfisnefndar var tekið fyrir erindi landeiganda á Berserkseyri um byggingarleyfi fyrir tæplega 15 m2 dæluskúr við heitavatnsholu sem staðsett er á Berserkseyrarodda í landi Berserkseyrar. Jafnframt hyggjast landeigendur nýta heita vatnið til húshitunar á Berserkseyri og steypa lítinn pott í fjöruborðinu, sem komi ekki til með að sjást frá veginum og verði eingöngu notaður af landeigendum. Ætlunin er að dæla vatni úr borholu sem fyrir er á staðnum og fylgir umsókninni samningur við Veitur, eiganda borholunnar, um nýtingu vatns úr holunni til eigin nota.
Afgreiðslu málsins var frestað og því vísað til nánari skoðunar hjá umhverfis- og skipulagssviði þar sem ætlunin er að staðsetja dæluskúrinn á Berserkseyrarodda, sem skv. Aðalskipulagi Grundarfjarðarbæjar 2019-2039, er bæði skilgreint sem náttúruverndarsvæði (ÖN-4: vegna þinglýsts æðarvarps) og iðnaðarsvæði (I-2/H vegna jarðhita og hugsanlegrar virkjunar hans).
Ítarlega er fjallað um þetta tiltekna svæði í greinargerð og umhverfisskýrslu með Aðalskipulagi Grundarfjarðar en samkvæmt því er heimilt að reisa dælu- og stjórnsstöð og borholuhús (bls. 116) og leggja heitavatnslögn/aðveituæð í þéttbýlið (bls. 147-8). Þar er einnig heimilt að nýta heita vatnið til eigin nota m.a. til upphitunar húsa (umhverfisskýrsla bls. 23).
Þar sem svæðið er bæði skilgreint sem friðlýst svæði og iðnaðarsvæði og ekki er til deiliskipulag fyrir svæðið, var leitað álits hjá Skipulagsstofnun hvort um sé að ræða tilkynningarskylda framkvæmd eða hvort framkvæmdin kalli á framkvæmdaleyfi, byggingarheimild eða byggingarleyfi.
Í svarbréfi Skipulagsstofnunar kemur fram að veitumannvirki eru almennt undanþegin framkvæmdar- og byggingarleyfi en að það sé ákvörðun sveitarstjórnar að meta hvort umfang og eðli framkvæmdarinnar sé þess efnis að gerð verði krafa um slíkt leyfi. Stofnunin benti einnig á að þar sem um er að ræða friðlýst svæði þurfi almennt að sækja um framkvæmdaleyfi til Umhverfisstofnunar.
Kristín Þorleifsdóttir sat fundinn í gegnum fjarfundarbúnað.