Ingveldur Eyþórsdóttir hjá Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga kom inn á fundinn og kynnti verkefni sem unnið er að á Vesturlandi undir fyrirsögninni „Gott að eldast“.
Ingveldur sagði frá verkefnum starfshóps verkfnisins, sem vinnur fyrir allt Vesturland en er þó skipt í svæði. Snæfellsnes vinnur saman sem eitt svæði.
Verkefnið "Gott að eldast" snýst um samstarf stofnana á Vesturlandi og hvernig taka megi utan um málefni og þjónustu við eldra fólk með nýjum og samræmdum hætti.
Ingveldur sagði frá mörgum þeim atriðum sem verkefnið mun taka á, s.s. heimaþjónustu, hjúkrunarþörfum, stuðningi og fleiru.
Kynnt var fyrirhuguð heimsókn Laufeyjar Jónsdóttur, sem er tengiráðgjafi fyrir Vesturland, í verkefninu. Hennar hlutverk er meðal annars að leita leiða til að draga úr einangrun og einmanaleika eldra fólks í þeim sveitarfélögum á Vesturlandi sem taka þátt í verkefninu, og finna leiðir til að auka virkni eldra fólks.
Ingveldur svaraði einnig ýmsum fyrirspurnum um félagsþjónustu og þjónustu við aldraða, á vegum FSS. Að því búnu vék hún af fundi og var þakkað fyrir upplýsingarnar.
Bæjarstjóri fór yfir samskipti fulltrúa Grundarfjarðarbæjar við Heilbrigðisstofnun Vesturlands um þjónustu.
Fram kom að fulltrúar Grundarfjarðarbæjar og Snæfellsbæjar áttu fund með stjórnendum HVE þann 10. apríl sl. í Ráðhúsinu í Grundarfirði og ætlunin er að hafa aftur fund þann 29. maí nk.
Til umfjöllunar er almennt sú þjónusta sem HVE veitir hér hjá okkur og möguleiki á samstarfi HVE og bæjarstjórnanna, til að styrkja þjónustu og upplýsingaflæði.
3.Félag eldri borgara - Snjómokstur fyrir eldri borgara
Bæjarstjóri og íþróttafulltrúi kynntu helstu verkefni og framkvæmdir sumarsins, m.a. við að endurbæta gangstéttir.
Íbúðir eldri borgara og dvalarheimilið eru staðsett efst við Hrannarstíg - og verslun og heilsugæslustöð eru neðar á Hrannarstíg.
Öldungaráð leggur áherslu á að Hrannarstígur sé í forgangi, þegar kemur að því að endurbæta gangstéttar og gönguleið fyrir eldra fólk. Einnig sé mikilvægt að moka vel á vetrum á þessari leið.
Rætt var um bekki til að setjast á, þegar fólk fær sér göngutúr.
Samþykkt að fulltrúar ráðsins muni setja niður óskastaði þar sem bæta mætti við bekkjum, fyrir gangandi fólk innanbæjar. Þetta væru staðir þar sem kæmi sér sérstaklega vel að hafa bekki, þannig að fólk sem á erfitt með að ganga langar leiðir geti tyllt sér á bekk í göngutúrum.
Lokið var við fundargerð að afloknum fundi og rafræns samþykkis aflað frá fundarmönnum.