263. fundur 11. desember 2024 kl. 15:15 - 17:00 í Ráðhúsi Grundarfjarðar
Nefndarmenn
  • Bjarni Sigurbjörnsson (BS) formaður
  • Signý Gunnarsdóttir (SG)
  • Davíð Magnússon (DM)
  • Lísa Ásgeirsdóttir (LÁ)
Starfsmenn
  • Sigurður Valur Ásbjarnarson (SVÁ) skipulagsfulltrúi
  • Guðmundur Rúnar Svansson (GRS) starfsmaður umhverfis- og skipulagssviðs
  • Björg Ágústsdóttir (BÁ) bæjarstjóri
Fundargerð ritaði: Sigurður Valur Ásbjarnarson skipulagsfulltrúi
Dagskrá
Formaður setti fund og gengið var til dagskrár.

1.Óveruleg breyting á Aðalskipulagi vegna legu háspennulínu, Grundarfjarðarlína 2

Málsnúmer 2411012Vakta málsnúmer

Lögð er fram tillaga að óverulegri breytingu á Aðalskipulagi Grundarfjarðarbæjar sbr. 2. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 vegna legu háspennulína í aðalskipulaginu.



Með breytingunni eru aðalskipulagsuppdrættir leiðréttir til samræmis við raunverulega legu strengjanna. Fyrir liggur umsögn Landsnets, dags. 19. nóvember 2024, en Landsnet fór yfir lagnaleiðir uppdráttanna og gerir ekki athugasemdir.



Bæjarstjórn telur að breytingin sé þess eðlis að málsmeðferð óverulegrar breytingar, sbr. 2. mgr. 36. gr. skipulagslaga, eigi við.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir framlagða tillögu að óverulegri breytingu á Aðalskipulagi Grundarfjarðar 2019-2039 vegna leiðréttingar á legu háspennulína í aðalskipulaginu, sbr. 2. mgr. 36. gr. skipulagslaga, og vísar málinu til bæjarstjórnar til afgreiðslu.

2.Óveruleg breyting á deiliskipulagi aðveitustöðvar í Grundarfirði vegna breytingar á afmörkun deiliskipulagssvæðisins

Málsnúmer 2412016Vakta málsnúmer

Lögð er fram tillaga að breytingu á Deiliskipulagi aðveitustöðvar sbr. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.



Í breytingunni felst að mörk deiliskipulagsins breytast á norðvesturhorni deiliskipulagssvæðisins. Við breytinguna minnkar deiliskipulagssvæðið úr 7,94 ha í 7,68 ha, þ.e. um 2.621 m2. Að öðru leyti er deiliskipulagið óbreytt.



Breytingin er tilkomin vegna endurskoðunar á aðliggjandi deiliskipulagi fyrir iðnaðarsvæðið vestan Kvernár (mál 2101038).



Skipulags- og umhverfisnefnd telur breytinguna óverulega og leggur því til að með hana verði farið skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga og hún grenndarkynnt skv. 44. gr. skipulagslaga.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir framlagða tillögu að breytingu á Deiliskipulagi aðveitustöðvar og leggur til að hún fari í kynningu sem óveruleg breyting á skipulagi, skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Skipulagsfulltrúa er falið að gera örlitlar lagfæringar á framlagðri tillögu og leggja tillöguna fram til grenndarkynningar skv. 44. grein skipulagslaga.

3.Iðnaðarsvæði - tillaga að deiliskipulagi

Málsnúmer 2101038Vakta málsnúmer

Lögð er fram tillaga að nýju deiliskipulagi iðnaðarsvæðisins vestan Kvernár, til auglýsingar skv. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.



Sameiginleg lýsing fyrir endurskoðun deiliskipulagsins og breytingu á aðalskipulagi var kynnt almenningi og umsagnaraðilum í samræmi við 30. og 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 frá 20.11. til 27.12.2023.

Tillaga að deiliskipulagi var kynnt á vinnslustigi, skv. 40. gr skipulagslaga nr. 123/2010 10.06. til 01.07.2024. Umsagnir og athugasemdir sem bárust voru hafðar til hliðsjónar við mótun auglýstrar tillögu. Athugasemdir sem bárust við auglýsingu á breytingu á aðalskipulagi fyrir iðnaðarsvæðið vestan Kvernár skv. 31. gr. skipulagslaga hafa einnig verið hafðar til hliðsjónar við hönnun deiliskipulagsins.



Markmið með gerð deiliskipulagsins



Markmiðið með gerð þessa deiliskipulags er að auka framboð á lóðum fyrir iðnaðarstarfsemi í Grundarfjarðarbæ til framtíðar og tryggja hagkvæma nýtingu á landi, innviðum og jarðefnum. Aukin eftirspurn er eftir iðnaðarlóðum, sem nauðsynlegt er að verða við, fyrir þróun og uppbyggingu í sveitarfélaginu. Skipulag og uppbygging iðnaðarsvæðisins er mikilvægur þáttur til að styrkja undirliggjandi grunnþjónustu og fjölbreytni í atvinnusköpun og nýta vel auðlindir sem felast í notkun efnis af svæðinu til grjótnáms, áður en það er byggt upp. Þetta er eina iðnaðarsvæði Grundarfjarðarbæjar og því mikilvægt að nýta svæðið vel.



Helstu breytingar með deiliskipulaginu



- Deiliskipulagssvæðið stækkar úr 4,1 ha í 11,5 ha.

- Lóðum fjölgar úr 15 í 28.

-Óbyggðar lóðir við norðanvert Hjallatún stækka til norðurs inn á núverandi veghelgunarsvæði Vegagerðarinnar.

- Lóðarstærðir breytast á nokkrum lóðum sbr. töflu 1.1.

- Byggingarreitir eru stækkaðir til þess að auka sveigjanleika í uppbyggingu.

- Hámarksnýtingarhlutfall lóða hækkar úr 0,3 í 0,4.

- Tvær akstursleiðir liggja inn á iðnaðarsvæðið. Sú vestari er færð vestar. Með því fæst betri nýting á vesturhluta svæðisins, gatnagerð innan svæðis minnkar, lóðir verða hæfilega djúpar og gott aðgengi að þeim tryggt.

- Tvær nýjar götur verða á svæðinu, Innratún og Grafartún, en nöfn þeirra vísa í örnefni á svæðinu.

- Skilmálar í eldra deiliskipulagi eru felldir úr gildi og nýir skilmálar settir í þeirra stað.

- Gert er ráð fyrir samgöngu- og útivistarstíg meðfram Snæfellsnesvegi, norðan við deiliskipulagssvæðið.

- Setja skal upp mön á vestasta hluta iðnaðarsvæðisins þar sem það liggur að íbúðarreit.

- Iðnaðarsvæðið er almennt lækkað frá þeirri hæð sem nú er, til að bæta lóðir og götur. Verðmætt steinefni sem til fellur við þá landmótun verður nýtt til uppbyggingar í sveitarfélaginu.

- Settir eru skilmálar um lágmarkshæð á landi á nýjum lóðum og lágmarkshæð á gólfkótum.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir tillögu að nýju deiliskipulagi iðnaðarsvæðisins vestan Kvernár til auglýsingar skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, með fyrirvara um að eftirfarandi breytingar verði gerðar:

Lóðamörk við Snæfellsnesveg verði færð þ.a. þau séu almennt 15 m frá miðlínu Snæfellsnesvegar. Tryggja þurfi við þær breytingar að vel sé hugað að 7,5 m öryggissvæði stofnvegarins frá miðlínu hans svo og kvöðum sem tryggi aðlaðandi ásýnd að iðnaðarsvæðinu frá Snæfellsnesvegi. Auk þessa verði aðrar minniháttar lagfæringar gerðar. Skipulagsfulltrúa er falið að sjá um framangreindar breytingar á skipulagsgögnum.

Skipulags- og umhverfisnefnd vísar málinu til bæjarstjórnar til afgreiðslu með framangreindum breytingum.

4.Tillaga um breytingu á deiliskipulagi Ölkeldudals

Málsnúmer 2312014Vakta málsnúmer

Lögð er fram tillaga að nýju deiliskipulagi Ölkeldudals til kynningar á vinnslustigi skv. 4. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010; uppdráttur og greinargerð.



Sameiginleg lýsing fyrir þetta nýja deiliskipulag og breytingu á aðalskipulagi var auglýst frá 28.2.2024 til 20.3.2024 í samræmi við 40. gr. og 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Umsagnir sem bárust við lýsingu voru hafðar til hliðsjónar við mótun deiliskipulagstillögunnar. Tillaga að breytingu á aðalskipulagi vegna Ölkeldudals hefur áður verið auglýst á vinnslustigi sbr. 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga. Einnig liggur fyrir samþykki bæjarstjórnar til auglýsingar aðalskipulagsbreytingar í samræmi við 31. gr. skipulagslaga.



Áherslur við endurskoðun deiliskipulagsins eru:



- Ölkeldudalshverfið verði styrkt með fjölgun íbúða, í hentugum stærðum fyrir íbúa, með góðu aðgengi að skóla- og íþróttastarfi.

- Ný íbúðarbyggð á jaðri Paimpolgarðsins verði hönnuð þannig að hún myndi skjólsælt og sólríkt rými um garðinn.

- Paimpolgarðinum verði gert hærra undir höfði og hann byggður upp samhliða íbúðarbyggðinni, sem skjólsæll, sólríkur, gróðurríkur og aðlaðandi útivistar- og íverusvæði til leikja, dvalar og útivistar allan ársins hring fyrir íbúa og gesti bæjarins.

- Í garðinum í kringum Steinatjörn verði aðlaðandi votlendi, hluti af blágrænum rýmum bæjarins. Svæðið verði leiðarvísir um eðli og uppbyggingu blágræns ofanvatnskerfis Grundarfjarðarbæjar. Vinabæjartengslum við Paimpol verði einnig gerð rík skil.

- Fráveitukerfi hverfisins verði endurnýjað samhliða uppbyggingu, þar sem það ber ekki aukið álag án þess. Ofanvatnið verði aðskilið fráveitulögnum með skólp og nýtt blágrænt ofanvatnskerfi lagt innan nýrra lóða og í almenningsrýmum.

- Ölkeldudalshverfið verði gönguvænt í samræmi við áherslur í aðalskipulagi og verkefnið „Gönguvænn Grundarfjörður" sbr. markmið aðalskipulagsins. Stígar verði hannaðir, sem tengja aðliggjandi útivistar-, íbúðar-, skóla- og íþróttasvæði við Paimpolgarðinn.

- Umferðaröryggi verði aukið fyrir vegfarendur, götur hannaðar sem 30 km götur, gangstéttar og stígakerfi bætt. Sérstaklega er horft til aðgengis og öryggis í kringum skóla- og íþróttasvæðið.

- Blágrænar ofanvatnslausnir verði innleiddar í hverfinu. Þær verði samþættar uppbyggingu, grænar og gróðurríkar, til fegrunar og yndisauka í almenningsrýmum. Þær verði einnig nýttar sem hluti hraðalækkandi aðgerða í götunum.



Helstu breytingar með framangreindu deiliskipulagi:



- Deiliskipulagsmörk breytast og við það stækkar deiliskipulagssvæðið úr 8,7 ha í 9,4 ha.

- Hluti Paimpolgarðsins breytist úr opnu svæði í íbúðasvæði og garðurinn sjálfur verður endurhannaður sem skjólsælt almenningssvæði.

- Nýjar íbúðalóðir verða við Ölkelduveg og Borgarbraut fyrir allt að 28 íbúðir í rað- og fjölbýlishúsum.

- Götur eru endurhannaðar og þrengdar, gatnamótum breytt og aukin áhersla lögð á öruggar þveranir yfir götur ásamt bættum gangstéttum og göngustígum.

- Einbýlishúsalóð við Ölkelduveg 19 er felld út og einbýlishúsalóð við Ölkelduveg 17 stækkuð til suðurs og henni breytt í parhúsalóð.

- Í gildandi deiliskipulagi var heimilt að reisa raðhús með 3-4 íbúðum við Ölkelduveg 39-45. Í endurskoðuðu deiliskipulagi verður heimilt að reisa raðhús með 3 íbúðum, lóð nr. 45 fellur út og lóðir stækka lítillega til suðurs.

- Lóð Dvalarheimilisins Fellaskjóls við Hrannarstíg 20 hefur verið breytt vegna nýrra lóða sem komnar eru fyrir raðhús við Hrannarstíg 42-54 (skipulagsbreyting 2023) og vegna lóða við Hrannarstíg 22-28 (eignarland Fellaskjóls) sem ekki voru á sér lóðum áður.

- Gert hefur verið ofanvatnsskipulag fyrir svæðið sem segir til um hvernig ofanvatn skuli meðhöndlað innan sem utan lóða.

- Einstaka lóðir hafa verið lagfærðar á uppdrætti í samræmi við uppbyggingu síðustu ára og settar inn réttar mælingar á lóðum og mannvirkjum.



Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir tillögu á vinnslustigi að nýju deiliskipulagi Ölkeldudals til auglýsingar skv. 4. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, með fyrirvara um smávægilegar breytingar á skipulagsgögnum. Skipulagsfulltrúa er falið að sjá um framangreindar breytingar á skipulagsgögnum.

Skipulags- og umhverfisnefnd vísar málinu til bæjarstjórnar til afgreiðslu með framangreindum breytingum.

5.Nesvegur 2 - Umsókn um byggingarheimild/-leyfi - skipulagsmál

Málsnúmer 2412011Vakta málsnúmer

Grundarfjarðarhöfn hefur lagt inn umsókn um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu sunnanvert við hús hafnarinnar að Nesvegi 2 og að litlu leyti þaðan upp til vesturs, í átt að Nesvegi.



Í gildandi deiliskipulagi hafnarsvæðis er gert ráð fyrir byggingarreit sunnanvert við hafnarhúsið. Viðbygging fer 3,2 m út fyrir byggingarreitinn til vesturs, meðfram 11,6 m langri viðbyggingunni til suðurs, eða um 37 m2. Í deiliskipulagi sem auglýst var 2023 og senn tekur gildi, er gert ráð fyrir stærri byggingarreit lóðarinnar (sem þar ber heitið Nesvegur 2A) þannig að hann nái yfir viðbygginguna skv. fyrirhuguðum byggingaráformum. Engar athugasemdir bárust við þessi áform á auglýsingatíma deiliskipulagsins.



Grundarfjarðarhöfn óskar eftir samþykki fyrir viðbyggingu við hafnarhúsið skv. framlagðri teikningu.



Skipulags og umhverfisnefnd telur umrædda breytingu (bygging út fyrir byggingarreit) óverulega og samþykkir að fela skipulagsfulltrúa að auglýsa óverulega breytingu á deiliskipulagi, sem útbúin verður, í samræmi við framlögð byggingaráform/teikningu. Með tillöguna verði farið skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga og hún grenndarkynnt skv. 44. gr. skipulagslaga, fyrir eigendum að Nesvegi 1, 3 og Borgarbraut 1. Skipulagsfulltrúa er falin umsýsla þessa máls og að leggja fram tillögu þegar hún liggur fyrir, til grenndarkynningar skv. 44. grein skipulagslaga

Nefndin felur byggingarfulltrúa að gefa út byggingarleyfi/-heimild að öllum skilyrðum uppfylltum, sbr. byggingarreglugerð nr. 112/2012 m.s.br., með fyrirvara um grenndarkynningu og afgreiðslu málsins í bæjarstjórn.

6.Hjallatún 3 - umsókn um lóð

Málsnúmer 2412015Vakta málsnúmer

Þann 25. október sl. auglýsti Grundarfjarðarbær lausar til úthlutunar tvær lóðir á iðnaðarsvæðinu, við Hjallatún 1 og 3. Umsóknarfrestur var til og með 11. nóvember sl. Lóðinni við Hjallatún 1 var úthlutað til Vélsmiðju Grundarfjarðar ehf. í samræmi við auglýsingu og Samþykkt um úthlutun lóða í Grundarfirði. Eftir að auglýsingafrestur lóða rann út var lóðin sett á lista yfir lausar lóðir í Grundarfirði.



Vélsmiðjan hefur nú einnig lagt inn umsókn um lóðina við Hjallatún 3.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir að úthluta umsækjanda lóðinni við Hjallatún 3 í samræmi við auglýsingu og grein 1.2 í samþykkt um úthlutun lóða í Grundarfirði.

Vakin er athygli á þeim fyrirvara við úthlutunina, sem kemur fram í fyrrgreindri lóðaauglýsingu, að stærðir lóðarinnar geti breyst lítillega áður en endurskoðað deiliskipulag fyrir iðnaðar- og athafnasvæði vestan Kvernár tekur gildi, en drög að skipulaginu voru kynnt í sumar og verður endanleg tillaga væntanlega auglýst á næstu dögum.

Samþykkt samhljóða.

7.Grundargata 59 - Orka náttúrunnar, hraðhleðslustöð á lóð

Málsnúmer 2412013Vakta málsnúmer

Umsókn Orku náttúrunnar, í samvinnu við lóðarhafa að Grundargötu 59, um leyfi til uppsetningar á tveimur hraðhleðslustöðvum á lóðinni.



Í tengslum við erindið var lóðin mæld upp og nýtt lóðarblað samþykkt í júní sl., þar sem lóðin var stækkuð um 559,3 m2.



Á þeim grunni er unnt að afgreiða erindið.



Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkir fyrir sitt leyti uppsetningu hraðhleðslustöðva á lóðinni Grundargötu 59 og felur skipulagsfulltrúa að vinna að nánari útfærslu á staðsetningu með umsækjanda og lóðarhafa, og gefa út framkvæmdaleyfi að uppfylltum skilyrðum skipulagslaga.

8.Grund og Hamrar - fyrirspurn Opus lögmanna um byggingarheimildir skv. aðalskipulagi

Málsnúmer 2411013Vakta málsnúmer

Lögð fram fyrirspurn frá Flosa H. Sigurðssyni lögmanni, opinbers skiptastjóra fyrir dánarbú Guðlaugar Guðmundsdóttur, um uppbyggingarheimildir á jörðunum Hömrum og Grund, með vísan í aðalskipulag.

Skipulagsfulltrúa og bæjarstjóra falið að ganga frá svari til skiptastjórans, í samráði við lögmann bæjarins.

9.Stofnun götu neðan Grundargötu 12-28

Málsnúmer 2410010Vakta málsnúmer

Í samræmi við ákvörðun nefndarinnar á 261. fundi 29. október sl. var auglýst eftir hugmyndum um heiti á ónefndum botnlanga út frá Borgarbraut, norðaustur af Grundargötu 12-28. Engin hús hafa þó heimilisfang við götuna.



Alls bárust 27 tillögur í tölvupósti, í samræmi við auglýsinguna, og þar af tvær með ítarlegum rökstuðningi í sérstöku fylgiskjali.



Tillögurnar hafa verið teknar saman í eitt skjal ásamt þeim rökstuðningi sem barst og lagðar fram nafnlaust fyrir skipulags- og umhverfisnefnd.



Til upplýsingar eru einnig teknar saman 16 hugmyndir sem ekki voru sendar á starfsmann bæjarins en komu fram í umræðum á samfélagsmiðlum.



Skipulags- og umhverfisnefnd þakkar öllum þeim sem sendu inn tillögur fyrir erindin og þeirra framlag.

Guðmundi Rúnari, þjónustufulltrúa, var sömuleiðis þakkað fyrir skýra og góða samantekt.

Vegna tímaskorts í lok fundar felur nefndin Bjarna formanni, Signýju og Björgu bæjarstjóra að ljúka við tillögugerðina og leggja tillögu um val heitis til bæjarstjórnar.
Lokið er við fundargerð í framhaldi af fundi og rafræns samþykkis aflað frá fundarmönnum.

Fundi slitið - kl. 17:00.