Málsnúmer 2207006

Vakta málsnúmer

Skólanefnd - 163. fundur - 04.07.2022

Leikskólastjóri átti ekki kost á að sitja fundinn. Ragnheiður Dröfn Benidiktsdóttir sat þennan dagskrárlið í fjarfundi sem fulltrúi foreldra leikskólabarna og var hún boðin velkomin á fundinn.
Lagt fram til afgreiðslu skóladagatal Leikskólans Sólvalla, með breytingum frá umræðu sem fram fór á 162. fundi skólanefndar í apríl sl.
Einnig lagður fram tölvupóstur leikskólastjóra um breytingu á skóladagatalinu sem gerð er með hliðsjón af breytingu á skóladagatali Eldhamra, hvað varðar opnunartíma í Dymbilviku.

Farið var yfir skóladagatalið, m.a. með hliðsjón af fyrri umræðu skólanefndar.

Í ljósi þeirrar vinnu sem farið hefur fram síðustu mánuði við að styrkja innra starf leikskólans - og halda þarf áfram á komandi vetri - þá samþykkir skólanefnd óskir um sex starfsdaga leikskólans á komandi skólaári. Einn starfsdagur er sérstaklega ætlaður í endurmenntunarferð leikskólastarfsfólks til útlanda í apríl 2023, en þar er um að ræða ferð sem frestað var sl. vor.

Í ljósi þess að fyrir dyrum stendur að endurskoða skólastefnu Grundarfjarðarbæjar leggur skólanefnd til að í þeirri vinnu verði farið yfir starfsdaga og fleira sem snertir samræmingu milli leikskóladeildar og leikskóla.

Nefndin óskar eftir því að skólastjórar leik- og grunnskóla leitist við að samræma starfsdaga sína í marsmánuði 2023 og er bæjarstjóra falið að leita eftir breytingum á skóladagatali skólanna, með samtali við skólastjórana.

Skóladagatal leikskólans samþykkt samhljóða með framangreindum fyrirvörum.

Gestir

  • Ragnheiður Dröfn Benidiktsdóttir fulltrúi foreldra - mæting: 18:00

Skólanefnd - 165. fundur - 10.10.2022

Skólanefnd heimsótti Leikskólann Sólvelli og hitti þar deildarstjórana Hrafnhildi Bárðardóttur á músadeild, Ólöfu Guðrúnu Guðmundsdóttur ugludeild og Gyðu Rós Freysdóttur drekadeild.

Húsnæði og aðstaða leikskólans var skoðuð í fylgd deildarstjóranna og rætt um starf leikskólans, einkum m.t.t. aðstöðu.

Ennfremur var gengið um lóð leikskólans og skoðuð aðstaða yngri og eldri barna, sem er tvískipt á lóðinni.

Fram kom að yngstu börnum mun fjölga í leikskólanum á komandi ári, einkum í janúar til júlí. Bæjarstjóri og byggingarfulltrúi hafa fundað með stjórnendum leikskólans og verið er að skoða hvaða valkostir eru til þess að breyta eða auka rými þannig að hægt sé að taka á móti þessum fjölda barna, svo vel sé.

Fjöldi barna í árgöngum er, eðli máls samkvæmt, mismunandi eftir árum. Fram kom hjá deildarstjórunum að sl. vor hafi verið tekin sú ákvörðun að halda fjölda yngstu barnanna, þ.e. á músadeild, stöðugum í staðinn fyrir að ætla að láta deildina stækka og minnka til skiptis, eftir fjölda barna í árgöngum. Þannig myndu þá elstu börn á músadeild hverju sinni færast upp á ugludeild, eftir því sem taka þyrfti inn fleiri yngri börn á músadeild. Hið sama gildir þá um að elstu börn á ugludeild myndu samhliða færast upp á drekadeild.
Skólanefnd lýsir yfir stuðningi við þetta fyrirkomulag.

Rætt um möguleika til að bregðast við auknum fjölda barna í leikskólanum, en ljóst er að sú staða felur í sér töluverðar áskoranir, bæði hvað varðar rými en ekki síður mönnun. Málið er áfram til skoðunar hjá nefndinni, í samræmi við umræður fundarins og í samráði við stjórnendur.

Undir þessum lið sögðu bæjarstjóri og formaður frá erindi sem þeim barst frá foreldri um viku seinkun á inntöku barns. Samkvæmt inntökureglum leikskólans er það í verkahring leikskólastjóra að úthluta börnum leikskólavist. Leitað var eftir skýringum leikskólastjóra og voru ástæður seinkunar einkum ófyrirséð veikindaleyfi starfsfólks.

Skólanefnd - 167. fundur - 14.12.2022

Gestir fundarins voru boðnir velkomnir.
Ingibjörg leikskólastjóri sagði frá því hvað væri brýnast í leikskólastarfinu núna. Ingibjörg, Gunnþór og Erla sögðu ennfremur frá vinnu við markvissa uppbyggingu á innra starfi í leikskólanum, en sl. vor byrjaði skólinn að innleiða gæðaviðmið um leikskólastarf. Gæðaviðmið eru eins konar uppskrift að góðu leikskólastarfi sem hver skóli gerir að sínum. Gæðaráð hefur verið skipað, en í því sitja m.a. fulltrúar foreldra og starfsfólks. Gæðaráð kemur m.a. að innra mati á leikskólastarfi.

Rætt var sérstaklega um inntöku nýrra barna á fyrri hluta næsta árs. Ingibjörg leikskólastjóri sagði frá því að sótt hefur verið um leikskóladvöl fyrir um 10-12 börn sem verða eins árs, á vorönn 2023. Þar er um að ræða umtalsverða fjölgun barna á þessum aldri.
Rætt var um aðstöðu, mönnun og fyrirkomulag til að mæta þessum umsóknum og fóru Ingibjörg og Gunnþór yfir þær viðræður sem átt hafa sér stað undanfarið milli skólastjórnenda um leiðir í þessum efnum. Bæjarstjóri sagði frá skoðun á aðstöðumálum og kostnaði.

Skólanefnd lýsir yfir stuðningi við áframhaldandi vinnu sem miðar að því að geta tekið sem flest eins árs börn inn, í samræmi við óskir foreldra.

Bæjarstjóri sagði frá því að unnið er að breytingum í eldhúsmálum/mötuneyti leikskólans.

Gestir

  • Gunnþór Eyfjörð Gunnþórsson, ráðgjafi hjá Ásgarði - mæting: 18:00
  • Margrét Sif Sævarsdóttir, verðandi leikskólastjóri - mæting: 18:00
  • Ingibjörg E. Þórarinsdóttir aðstoðarleikskólastjóri - mæting: 18:00
  • Erla Björk Sveinbjörnsdóttir, ráðgjafi hjá Ásgarði - mæting: 18:00

Skólanefnd - 168. fundur - 29.03.2023

Margrét Sif Sævarsdóttir skólastjóri Leikskólans Sólvalla sat þennan lið í fjarfundi, Elísabet Kristín Atladóttir sem fulltrúi foreldra (úr foreldraráði) og Kristín Alma Sigmarsdóttir sem fulltrúi kennara/starfsfólks leikskólans.

Voru þær boðnar velkomnar á fundinn.
Margrét Sif skólastjóri Leikskólans Sólvalla sagði frá því helsta úr skólastarfinu að undanförnu:

- Inntaka nýrra barna, 12 mánaða, hefur gengið vel
- Aðlögun 5 ára barna gengið vel á Eldhömrum, en þar er um að ræða samstarf Sólvalla og Eldhamra.
- Starfsmannamál, leikskólastjóri sagði frá stöðu í starfsmannamálum, sem standa ágætlega núna.
- Breytingar sem gerðar voru á starfsemi eldhúss hafa mælst mjög vel fyrir. Leikskólastjóri leggur til að fyrirkomulag þetta verði einnig haft á komandi skólaári.
- Skóladagatal: leikskólastjóri er komin með drög að starfsáætlun/skóladagatali, sem þarf að samræma/vinna með skólastjóra grunnskólans.

Skólanefnd staðfestir breytingu á skóladagatali leikskólans, um að starfsdagur þann 19. apríl nk. falli niður og verði því almennur kennsludagur. Skólanefndin hafði áður gefið rafrænt samþykki og leikskólastjóri hefur kynnt foreldrum þessa breytingu.
Starfsdagurinn var ætlaður í námsferð erlendis, sem ekki er farin í ár en stefnt er að því að fara á næsta ári í staðinn.

Skólanefnd ræddi breytingar á vistunartíma barna og breytingar á gjaldskrá.
Leikskólastjóri leggur til að tekið verði upp 15 mínútna gjald, fyrir tímann frá 7:45-8:00 og 16:00-16:15. Hún vísar í að slíkt fyrirkomulag myndi auka verulega yfirsýn stjórnenda leikskólans og gera það að verkum að auðveldara verði að sjá þörf fyrir starfsfólk á þessum tíma. Slíkt fyrirkomulag er á mörgum leikskólum.
Rætt ítarlega og farið yfir mögulegt fyrirkomulag, kosti og galla.

Skólanefnd mælir með við bæjarstjórn að tekið verði upp það fyrirkomulag að foreldrar/forráðamenn geti valið um að hafa börn sín í auka korter fyrir og eftir reglulegan opnunartíma, sem er 8-16, og greiði þá sérstakt, hóflegt gjald fyrir þann tíma, sbr. gjaldskrá.

Gestir

  • Margrét Sif Sævarsdóttir, skólastjóri leikskólans - mæting: 20:00
  • Elísabet Kristín Atladóttir, fulltrúi foreldra leikskólabarna - mæting: 20:00
  • Kristín Alma Sigmarsdóttir, fulltrúi starfsfólks leikskólans - mæting: 20:00

Skólanefnd - 169. fundur - 31.05.2023

Margrét Sif Sævarsdóttir leikskólastjóri og Katrín Elísdóttir fulltrúi foreldra sátu fundinn undir þessum lið.

Tillaga leikskólastjóra um skóladagatal 2023-2024 lögð fram til afgreiðslu.
Foreldraráð hefur jafnframt fengið tillöguna til yfirferðar.

Dagatalið er samþykkt af skólanefnd en þó með fyrirvara um dagana þrjá í Dymbilviku, þ.e. 25., 26. og 27. mars. Tillagan gerir ráð fyrir að leikskólinn verði lokaður þessa daga og er það lagt fram af skólastjóra sem leið til að mæta hluta af styttingardögum starfsfólks, á sama hátt og lagt er til vegna Eldhamra.

Skólanefnd mun taka fyrirkomulag þessara þriggja daga til nánari skoðunar og úrlausnar í samvinnu við skólastjórnendur og afgreiða fyrir lok október nk., m.a. samhliða umræðu um mótun nýrrar menntastefnu.

Umræða varð um hugmyndafræði styttingar ("Betri vinnutími") og útfærslu hennar, eins og hún birtist í skólastarfi, ekki síst í leikskóla, þar sem stytting í skólastarfinu er veruleg áskorun.

Gestir

  • Margrét Sif Sævarsdóttir skólastjóri leikskólans
  • Katrín Elísdóttir fulltrúi foreldra nemenda í leikskólanum

Skólanefnd - 170. fundur - 31.10.2023

Margrét Sif og Gunnþór eru áfram gestir fundarins, undir þessum lið.



Lagt fram skóladagatal Leikskólans Sólvalla og skóladagatal leikskóladeildarinnar Eldhamra (sbr. næsta dagskrárlið) fyrir skólaárið 2023-2024, en við afgreiðslu þeirra á 169. fundi skólanefndar þann 31. maí sl. var eftirfarandi bókað:



"Dagatalið er samþykkt af skólanefnd en þó með fyrirvara um dagana þrjá í Dymbilviku, þ.e. 25., 26. og 27. mars [2024]. Tillagan gerir ráð fyrir að leikskólinn verði lokaður þessa daga og er það lagt fram af skólastjóra sem leið til að mæta hluta af styttingardögum starfsfólks, á sama hátt og lagt er til vegna Eldhamra.

Skólanefnd mun taka fyrirkomulag þessara þriggja daga til nánari skoðunar og úrlausnar í samvinnu við skólastjórnendur og afgreiða fyrir lok október nk., m.a. samhliða umræðu um mótun nýrrar menntastefnu.

Umræða varð um hugmyndafræði styttingar ("Betri vinnutími") og útfærslu hennar, eins og hún birtist í skólastarfi, ekki síst í leikskóla, þar sem stytting í skólastarfinu er veruleg áskorun."



Sambærileg bókun var gerð á fundinum um skóladagatal Eldhamra.





Góð umræða varð um ástæður þess að skólar eru nú í auknum mæli að fara þá leið að samræma lokunardaga leikskóla við grunnskóla. Þetta er hluti af umræðu og aðgerðum til þess að bæta starfsaðstæður á leikskólum, mæta styttingu vinnuviku og mönnunarvanda leikskólastigsins.

Í kjarasamningum 2020 var samið um 30 daga orlof allra starfsmanna sveitarfélaga, styttingu vinnutíma og fjölgun undirbúningstíma í leikskólum. Ljóst er að leikskólar hafa átt mjög erfitt með að mæta þörf fyrir aukna mönnun sem þessar breytingar hafa óneitanlega haft í för með sér.

Niðurstaða skólanefndar var sú að ekki væri nóg að samþykkja aukna lokun leikskóla í Dymbilviku, það myndi eitt og sér ekki leysa úr þörf sem til er komin af framangreindum ástæðum, auk þess sem skoða þyrfti í hvaða skrefum breytingar væru gerðar.

Skólanefnd óskar eftir því að Ásgarður taki saman minnisblað um það sem önnur sveitarfélög hafa verið að gera til að mæta framangreindri stöðu, en mismunandi leiðir hafa verið farna. Auk þess er leikskólastjóra og bæjarstjóra falið að leggja fyrir könnun meðal foreldra sem dragi fram þarfir fjölskyldna og hvernig best sé að mæta þeim, m.t.t. framangreinds.

Afgreiðslu á mögulegum breytingum á skóladagatali frestað þar til niðurstöður framangreindrar skoðunar liggja fyrir.

Skólanefnd - 171. fundur - 13.02.2024

Fram fór almenn umræða um starfsemi leikskólans.

Skólastjóri sagði frá vinnu við uppbyggingu í innra starfi leikskólans.
Unnið er eftir áætlun leikskólans um faglegt leikskólastarf, sem sett var upp með aðstoð skólaráðgjafa Ásgarðs.

Leikskólinn vann "tímalínu" um faglega starfið þar sem búið er að skipuleggja það út skólaárið. Allir starfsmenn þekkja hvað á að gera í hverjum mánuði og hverri viku, og geta gengið að þeirri áætlun vísri. Þannig verður auðveldara að vinna skipulega og halda áætlun í þeim verkefnum sem aðalnámskrá segir til um að vinna eigi með hverjum aldurshópi.

Eftirfylgni áætlunargerðar og gæðamat leikskólastarfs er einnig unnið markvisst. Leikskólastjóri telur utanaðkomandi stuðning Ásgarðs við faglega starfið í samræmi við aðalnámskrá hjálpa mikið til í starfi skólans.

Leikskólastjóri er um þessar mundir að skoða starfsmannamál vegna komandi skólaárs, en þá mun nemendum fækka þar sem stærri árgangur fer af Sólvöllum á Eldhamra á komandi hausti heldur en sá árgangur 12 mánaða barna sem inn kemur á árinu.

Skólanefnd þakkaði fyrir upplýsingarnar og stefnir að heimsókn á leikskólastigið fljótlega.

Gestir

  • Sigurborg Knarran Ólafsdóttir fulltrúi starfsfólks Leikskólans Sólvalla - mæting: 17:00
  • Margrét Sif Sævarsdóttir skólastjóri Leikskólans Sólvalla - mæting: 17:00
  • Hallfríður Guðný Ragnarsdóttir fulltrúi foreldra - mæting: 17:00

Skólanefnd - 172. fundur - 07.03.2024

Margrét Sif Sævarsdóttir leikskólastjóri og Hallfríður Guðný Ragnarsdóttir fulltrúi foreldra sátu fundinn undir þessum lið, Margrét í fjarfundi.



Skólastjóri leikskóla fór yfir framkvæmdina á takmarkaðri lokun í Dymbilviku, þ.e. dagana 25.-27. mars nk. sbr. umræður á síðasta fundi skólanefndar.

Skólastjóri sagði frá því að fjögur börn hefðu í upphafi árs verið á biðlista fyrir leikskóladvöl, tvö börn sem verða 12 mánaða í mars og tvö börn sem verða 12 mánaða í apríl. Þremur þeirra stendur nú til boða leikskólapláss og verið er að vinna að því að yngsta barnið komist einnig inn fyrir vorið.

Margrét sagði frá því að mikil veikindi hafi herjað á börn og starfsfólk í vetur.

Margrét sagði frá því að hún og skólastjóri grunnskóla muni hittast í næstu viku vegna samræmingar skóladagatala leik- og grunnskólastigs.

Hér viku Margrét og Hallfríður af fundi.

Gestir

  • Hallfríður Guðný Ragnarsdóttir fulltrúi foreldra leikskólabarna - mæting: 17:00
  • Margrét Sif Sævarsdóttir skólastjóri Leikskólans Sólvalla - mæting: 17:00

Skólanefnd - 173. fundur - 08.04.2024

Drög að skóladagatali komandi skólaárs lögð fram og upplýsingar frá skólastjóra, í minnisblaði.



Menntastefna Grundarfjarðarbæjar:
Farið yfir vinnu við innleiðingu og verkefni tengd menntastefnu Grundarfjarðarbæjar hvað varðar leikskólann. Gunnþór E. Gunnþórsson frá Ásgarði tók þátt í umræðum.

Skóladagatal:
Tillaga að skóladagatali 2024-2025 lögð fram og rædd. Einnig rætt um samræmingu við skóladagatal Eldhamra og grunnskóla.
Umræður um styttingu vinnuviku og áhrif hennar á starfsemi í leikskólanum.
Umræðu og ákvörðun um skóladagatal vísað til næsta fundar skólanefndar.

Kennslumagn:
Á komandi skólaári stefnir í að um 35 börn verði á Sólvöllum, sem er talsverð fækkun frá því sem nú er.

Fjöldi barna eftir árgangi (fæðingarári) er þannig:
- 2023: 5 börn = barngildi, 4 börn á starfsmann
- 2022: 11 börn = barngildi, 5 börn á starfsmann
- 2021: 11 börn = barngildi, 6 börn á starfsmann
- 2020: 8 börn = barngildi, 7 börn á starfsmann

Þetta þýðir 9 stöðugildi inn á deildir til að manna barnafjöldann, síðan reiknar leikskólastjóri með viðbótarstöðugildum vegna undirbúnings, styttingar, veikinda og annars sem kemur upp á. Á komandi vetri þarf einnig heilt stöðugildi í eldhús, sem sér um allan mat, pantanir, þrif og uppvask.

Menntastefnan:
Það gengur vel að innleiða menntastefnuna. Fram fer nú vinna við að skoða skipulag og verkefni, og m.a. hverju þurfi að bæta við í starfseminni í samræmi við menntastefnuna.

Öryggishandbók:
Leikskólinn var ekki með sérstaka öryggishandbók, en hún hefur nú verið sett upp. Engu að síður hefur allt verið til staðar í leikskólanum, sem öryggishandbók gerir ráð fyrir.

Foreldrahandbók:
Leikskólinn hefur einnig endurbætt foreldrahandbók ? starfsmannahandbók leikskólans, sem og upplýsingar til foreldra sem koma í fyrsta viðtal. Mikið af efninu var orðið úrelt og var það uppfært, breytt og bætt, eftir reglum og viðmiðum, sem unnið er eftir í dag.

Handbækurnar er að finna á nýlegri heimasíðu leikskólans: https://solvellir.grundarfjordur.is/

Gestir

  • Gunnþór Eyfjörð Gunnþórsson, ráðgjafi frá Ásgarði skólaþjónustu - mæting: 17:00
  • Margrét Sif Sævarsdóttir skólastjóri Leikskólans Sólvalla - mæting: 17:00
  • Heiðdís Lind Kristinsdóttir aðstoðarskólastjóri Leikskólans Sólvalla - mæting: 17:00
  • Elísabet Kristín Atladóttir fulltrúi foreldra v. Leikskólans Sólvalla - mæting: 17:00
  • Sigurborg Knarran Ólafsdóttir fulltrúi kennara/starfsfólks Leikskólans Sólvalla - mæting: 17:00

Skólanefnd - 174. fundur - 24.06.2024

Undir þessum lið var fjallað um innramats-skýrslu leikskólans og drög að skóladagatali komandi skólaárs ásamt tillögu um starfstíma.



Gestir undir þessum lið voru Margrét Sif Sævarsdóttir, skólastjóri Leikskólans Sólvalla, Sigurborg Knarran Ólafsdóttir fulltrúi kennara og Katrín Elísdóttir fulltrúi foreldra. Auk þeirra Gunnþór Eyfjörð Gunnþórsson, ráðgjafi hjá Ásgarði, í fjarfundi.



1. Skólastjóri og Gunnþór kynntu skýrslu leikskólans um innra mat, sem nú liggur fyrir. Unnið er í samræmi við gæðaviðmið í skólastarfi sbr. nýja menntastefnu Grundarfjarðarbæjar sem samþykkt var 2023. Leikskólinn hefur þó unnið með þessi viðmið síðastliðin 2 ár, með stuðningi Ásgarðs.

Að því loknu vék Gunnþór af fundi.


2. Tekin var til umræðu annars vegar framlögð tillaga um skóladagatal leikskólans.
Auk þess tillaga um lokun leikskóla kl. 14:00 á föstudögum og fylgdu útreikningar leikskólastjóra á vinnustundafjölda starfsmanna skv. kjarasamningum, annarsvegar skv. gildandi kjarasamningum og hinsvegar skv. fyrirliggjandi ósamþykktum samningstillögum milli BSRB og Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem gerir ráð fyrir að vinnuvika verði 36 virkar vinnustundir fyrir 100% starf, en á samningaborði Sambandsins og Starfsgreinasambandsins er sambærileg tillaga.

Mikil umræða varð, einkum um tillögu um lokun á föstudögum, um leiðir sem önnur sveitarfélög hafa farið til að mæta áskorunum á leikskólastiginu og um þarfir allra aðila í skólasamfélaginu.

Skólanefnd ákvað að fresta umræðu og afgreiðslu á þessum lið. Boðað var til framhaldsfundar miðvikudaginn 26. júní.

Hér viku gestir af fundinum og var þeim þakkað fyrir umræður og innlegg.
---

Eftirfarandi er bókun skólanefndar af framhaldandi fundi sínum, sem haldinn var þann 26. júní 2024 kl. 17:00 og lauk kl. 19:00, auk þess sem nefndin vísar í framlagða tillögu sína til bæjarráðs:

Undanfarin ár hefur leikskólastigið staðið frammi fyrir vanda sem felst í sér fækkun á faglærðu starfsfólki, erfiðleikum við að manna stöður og aukinni starfsmannaveltu. Vinnuumhverfið hefur breyst hratt, með þörf fyrir viðbótarmönnun vegna aukinna orlofsréttinda allra starfsmanna (30 daga orlof á ári), styttingu vinnuvikunnar, auknum undirbúningstíma í leikskólum o.fl. Þessi vandi er útbreiddur um allt land og hefur sannarlega komið niður á starfsemi leikskólastigsins og orðið til þess að þyngja allt starf hans.

Ljóst er að skólanefnd Grundarfjarðarbæjar þarf og vill mæta þessum áskorunum leikskólastigsins með vel ígrunduðum aðgerðum og í takt við það sem önnur sveitarfélög hafa verið að grípa til á síðustu mánuðum og misserum.

Í upphafi þessa árs lét skólanefnd gera könnun meðal foreldra leikskólabarna, þar sem könnuð var afstaða foreldra til styttingar starfstíma á Sólvöllum. Spurt var um tiltekna valkosti og hvernig þeir hentuðu fjölskyldum. Skólanefnd vildi hafa þau sjónarmið til hliðsjónar, auk samtals við leikskólastjórnendur, við umfjöllun um starfstíma leikskólans og afgreiðslu skóladagatals.

Þess ber einnig að geta að í gær, þann 25. júní, var samþykktur fyrrnefndur kjarasamningur BSRB og Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem felur m.a. í sér að frá og með 1. nóvember nk. verður gert ráð fyrir 36 virkum vinnustundum starfsfólks (Kjölur) m.v. 100% starfshlutfall.

Skólanefnd hefur farið yfir framlagðar tillögur, en leggur meðfylgjandi tillögu fyrir bæjarráð. Með henni vonast skólanefnd til að hægt sé að vinna að breytingum, í skrefum, leikskólastiginu til hagsbóta. Með tillögunni telst skóladagatal samþykkt, þó með fyrirvara um breytingu á haustfríi skv. framlagðri tillögu.

Samþykkt samhljóða.

Gestir

  • Sigurborg Knarran Ólafsdóttir fulltrúi kennara - mæting: 16:30
  • Katrín Elísdóttir fulltrúi foreldra - mæting: 16:30
  • Gunnþór Eyfjörð Gunnþórsson ráðgjafi hjá Ásgarði, skólaþjónustu - mæting: 16:30
  • Margrét Sif Sævarsdóttir skólastjóri Leikskólans Sólvalla - mæting: 16:30

Bæjarráð - 625. fundur - 04.10.2024

Lagt fram bréf leikskólastjóra um viðbótarstöðugildi vegna stuðningsþarfa. Fyrir liggur mat skv. reglum Grundarfjarðabæjar um stuðning og sérkennslu.

Bæjarráð samþykkir 80% viðbótarstöðugildi frá október 2024 til vors 2025.

Samþykkt samhljóða.

Skólanefnd - 176. fundur - 07.10.2024

Lögð fram starfsáætlun Leikskólans Sólvalla fyrir skólaárið.



Heiðdís Lind fór yfir starfsáætlun Sólvalla á yfirstandandi skólaári og sagði frá megináherslum sem skilgreindar hafa verið fyrir skólastarfið í vetur. Þær eru m.a.:

- Að innleiða tákn með tali
- Að betrumbæta nýja tímalínu
- Að málörvun sé markviss í daglegu starfi
- Að starfsfólk sé sífellt meðvitað í starfi sínu að setja orð á athafnir
- Að "Lubbi finnur málbein" sé notaður á öllum deildum leikskólans
- Að leiknum og sjálfstæði nemenda sé gefið gott rými
- Móttaka og samskipti við börn í upphafi og lok dags

Farið var yfir helstu viðburði og starfsemi.