542. fundur 30. janúar 2020 kl. 16:00 - 21:52 í Ráðhúsi Grundarfjarðar
Nefndarmenn
  • Rósa Guðmundsdóttir (RG) formaður
  • Sævör Þorvarðardóttir (SÞ)
  • Jósef Ó. Kjartansson (JÓK)
  • Björg Ágústsdóttir (BÁ) bæjarstjóri
  • Sigurlaug R. Sævarsdóttir (SRS) skrifstofustjóri
Fundargerð ritaði: Sigurlaug R. Sævarsdóttir skrifstofustjóri
Dagskrá
Hildur Sæmundsdóttir, Kristján Guðmundsson og Ágúst Jónsson, sátu fundinn undir lið 1.

Jón Pétur Pétursson og Birgir Guðmundsson, sátu fundinn undir lið 2.

Garðar Svansson, Jófríður Friðgeirsdóttir og Anna María Reynisdóttir, sátu fundinn undir lið 3.

Formaður setti fund og gengið var til dagskrár.

1.Grundargata 65 - Sölumeðferð

Málsnúmer 2001008Vakta málsnúmer

Lagt til að íbúðin að Grundargötu 65 verði sett í sölumeðferð, sem er í samræmi við umræður í bæjarráði og bæjarstjórn í lok síðasta árs, við gerð fjárhagsáætlunar 2020.

Samþykkt samhljóða.

2.Forsætisráðuneyti - Upplýsingar um tekjur af nýtingu lands og landsréttinda innan þjóðlendna fyrir árið 2019

Málsnúmer 2001022Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar erindi forsætisráðuneytisins um tekjur vegna þjóðlendna árið 2019 ásamt svari bæjarins við erindinu.

3.Samband íslenskra sveitafélaga - Viðmiðunarreglur um framlög til stjórnmálaflokka og stefna um samfélagslega ábyrgð

Málsnúmer 2001021Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar bréf Sambands íslenskra sveitarfélaga dags. 17. janúar sl. um viðmiðunarreglur um fjárframlög til stjórnmálaflokka, ásamt stefnu sambandsins um samfélagslega ábyrgð.

4.GI rannsóknir ehf. - Umhverfisráðstefna

Málsnúmer 2001020Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar boð á umhverfisráðstefnu Gallup 2020 sem haldin verður 19. febrúar nk.

5.Samband íslenskra sveitafélaga - Landsþing 26. mars 2020

Málsnúmer 2001018Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar boðun á landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga sem haldið verður 26. mars nk.

6.Þróunarfélag Snæfellinga - sala hlutabréfa

Málsnúmer 2001014Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar gögn vegna sölu hlutabréfa Þróunarfélags Snæfellinga til Svæðisgarðsins Snæfellsnes. Áður hafði stjórn Þróunarfélagsins fært Fjölbrautaskóla Snæfellinga fjáreign félagsins, þar sem félagið hafði hætt starfsemi.

7.Nesvegur 13

Málsnúmer 1801023Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar gögn vegna málaloka v/Nesvegar 13 og deiliskipulags á Sólvallareit, sbr. fyrri bókanir um málið. Gerð var réttarsátt í málinu og er því lokið.

8.Félag heyrnarlausra - Þjóðargjöf App heyrnarlausra

Málsnúmer 1912021Vakta málsnúmer

Lögð fram beiðni Félags heyrnarlausra um styrk vegna gerðar táknmálsapps, sögustundar á táknmáli í símanum fyrir heyrnarlaus börn, en bæjarstjórn vísaði afgreiðslu málsins til bæjarráðs.

Bæjarráð getur ekki orðið við erindinu.

Samþykkt samhljóða.

9.Tímabundinn afsláttur á gatnagerðargjöldum

Málsnúmer 2001011Vakta málsnúmer

Lögð fram drög að skilmálum um tímabundinn afslátt á gatnagerðargjöldum. Í skilmálunum kemur m.a. fram að veittur verði 50% afsláttur vegna nýbyggingar íbúðarhúsnæðis á tilteknum eldri íbúðarlóðum og af atvinnuhúsnæði á tilteknum iðnaðar- og athafnalóðum.

Hægt verður að sækja um lóðir til nýbyggingar með 50% afslætti gatnagerðargjalds frá 1. mars til 1. september 2020.

Drög að skilmálum samþykkt samhljóða og bæjarstjóra falinn lokafrágangur þeirra fyrir næsta bæjarstjórnarfund.

10.Fellaskjól - umræður um málefni heimilisins

Málsnúmer 2001029Vakta málsnúmer

Fulltrúar stjórnar sjálfseignarstofnunarinnar Fellaskjól dvalarheimilis; Hildur Sæmundsdóttir, Kristján Guðmundsson og Ágúst Jónsson, sátu fundinn undir þessum lið.

Umræður um málefni heimilisins.

Þann 30. nóvember sl. var vígð ný viðbygging við húsnæði heimilisins. Með viðbyggingunni hefur skapast svigrúm fyrir fjögur ný hjúkrunarrými og bætta aðstöðu fyrir starfsemina. Farið var yfir þörf fyrir hjúkrunar- og dvalarrými. Nú eru 12 íbúar á heimilinu, en 14 manns á biðlista. Farið var yfir þá vinnu sem nú er unnið að til að fá aukið framlag til viðbyggingarinnar. Auk þess var rætt um byggingarkostnað.

Fram kom að stjórn heimilisins hefur áhuga á að stofna virknisetur fyrir þau sem glíma við minnistap. Slíkt úrræði myndi gagnast öllum sem þurfa og einnig fólki á biðlista.

Stjórn Fellaskjóls vinnur alla sína vinnu í þágu heimilisins í sjálfboðaliðastarfi. Var stjórnarmönnum þakkað fyrir sín mikilvægu störf.

11.Frír morgunmatur og ávaxtaáskrift í grunnskóla

Málsnúmer 1905008Vakta málsnúmer

Lagðir fram minnispunktar frá skólastjóra grunnskóla um framkvæmdina á haustönn varðandi hafragraut sem nemendum býðst á morgnana. Jafnframt lagt fram yfirlit yfir kostnað við morgunmatinn á haustönn og áætlun um kostnað við ávaxtaáskrift, sem til stendur að bjóða upp á.

Bæjarráð samþykkir að halda áfram að bjóða uppá hafragraut á vorönn. Auk þess er nú í undirbúningi að koma á ávaxtaáskrift. Bæjarráð samþykkir að gjald vegna hennar verði 3.400 kr. á mánuði. Gjald vegna ávaxtaáskriftar verði endurskoðað fyrir haustönn, að fenginni reynslu.

Samþykkt samhljóða.

12.Skíðadeild UMFG - Beiðni um fjárstyrk 2020

Málsnúmer 2001012Vakta málsnúmer

Lögð fram beiðni Skíðadeildar UMFG um styrk vegna uppbyggingar og reksturs á skíðasvæði Snæfellsness í Grundarfirði.

Ekki er unnt að veita beinan fjárstyrk, þar sem fjárhagsáætlunargerð ársins 2020 er lokið. Hins vegar er tekið vel í þá beiðni félagsins að skoða með aðkomu starfsmanns af hálfu bæjarins vegna viðveru á opnunartíma skíðalyftunnar. Bæjarstjóra falið að ræða við fulltrúa Skíðadeildarinnar um framkvæmd og útfærslu á slíkri aðkomu.

Að auki leggur bæjarráð til að veittur verði styrkur fyrir fasteignaskatti sem lagður er á skíðalyftu og tilheyrandi mannvirki.

Samþykkt samhljóða.

13.Launaáætlun 2019

Málsnúmer 1907020Vakta málsnúmer

Lagt fram yfirlit sem sýnir samanburð á launaáætlun og útgreiddum launum fyrir árið 2019. Skv. yfirlitinu eru raunlaun undir áætlun.

14.Greitt útsvar 2019

Málsnúmer 1904023Vakta málsnúmer

Lagt fram yfirlit yfir greitt útsvar janúar-desember 2019. Skv. yfirlitinu hækkaði greitt útsvar ársins 2019 um 5% frá árinu áður.

15.Lausafjárstaða

Málsnúmer 2001004Vakta málsnúmer

Lagt fram yfirlit yfir lausafjárstöðu.

16.Golfklúbburinn Vestarr - umræður um starfsemi og uppbyggingu

Málsnúmer 2001030Vakta málsnúmer

Stjórnarmenn Golfklúbbsins Vestarrs, Garðar Svansson, Jófríður Friðgeirsdóttir og Anna María Reynisdóttir, sátu fundinn undir þessum lið.

Stjórnarmenn golfklúbbsins ræddu um starfsemi og uppbyggingu Golfklúbbsins Vestarrs.
Fram kom að klúbburinn er ekki með langtímaleigusamning vegna aðstöðunnar eins og er. Áætlun næstu 10 ára gerir ráð fyrir kaupum á traktor, brautarvél, röffvél, flatarvél, skemmu og vallarhúsi. Þá er þörf á þökuskiptingu á brautum á næstu árum. Klúbburinn hefur verið duglegur að sækja um styrki til uppbyggingar. Mikið starf er unnið í sjálfboðaliðastarfi.

Nú eru um 90 félagsmenn í klúbbnum. Auk þess eru 70-80 aukameðlimir gegnum annan klúbb (Golfklúbbinn Skjöld). Á sumrin nýta börn, unglingar og ungmenni aðstöðuna til æfinga. Klúbburinn er með fjölskyldugjald. Ef hjón eru í klúbbnum, er frítt fyrir börn yngri en 20 ára.

Þau sögðu frá hugmyndum sem uppi eru um samstarf golfklúbbanna á Snæfellsnesi.

Klúbburinn á 80 ferm. félagshús, sem er of lítið. Æskilegt væri að hafa um 140 ferm. hús með fjórum salernum. Þá vantar aðstöðu fyrir geymslu og viðgerðir á vélum og tækjum, og væri skemma undir það forgangsatriði.

Rætt um starfsemi og uppbyggingu.

Stjórnarmönnum var þakkað fyrir góða kynningu og umræður.

17.Skotfélag Snæfellsness - Umræður um starfsemi og uppbyggingu

Málsnúmer 2001031Vakta málsnúmer

Stjórnarmenn úr Skotgrund, Skotfélagi Snæfellsness, þeir Jón Pétur Pétursson og Birgir Guðmundsson, sátu fundinn undir þessum lið.

Fulltrúar stjórnar Skotfélags Snæfellsness ræddu um starfsemi og uppbyggingu á skotsvæði Snæfellsness. Formaður félagsins var með glærukynningu og fór yfir sögu félagsins, starfsemi, umhverfi og framkvæmdir. Félagið var stofnað árið 1987, og er þriðja elsta skotfélag landsins. Nú eru um 160 félagsmenn í félaginu, en félögum hefur fjölgað mikið síðustu ár.

Umhverfi klúbbsins í Kolgrafafirði er einstakt og aðstaða góð. Klúbburinn er með samning við bæinn um aðstöðu á svæðinu, en bærinn á landið í Hrafnkelsstaðabotni. Klúbburinn er með nýlega riffilskotbraut, sem verið er að klára og eldri leirdúfuskotvöll, sem til stendur að endurnýja fljótlega og verður honum snúið, en þá verður svæðið með bestu keppnisskotvöllum á landinu. Þá á félagið með 20 ferm. félagsheimili, sem er of lítið fyrir starfsemi félagsins og ætlunin er að endurnýja á næstu árum. Næstu uppbyggingarverkefni eru að klára framkvæmdir við riffilvöll og að endurbyggja leirdúfuskotvöllinn.
Öll uppbygging hefur byggst á sjálfboðaliðastarfi. Á svæðinu er hvorki vatn né rafmagn og háir það frekari uppbyggingu.

Rætt var um starfsemi félagsins, um uppbyggingu á félagssvæðinu í Kolgrafafirði, um aðstöðu til skotæfinga innanhúss, sbr. umræður í bæjarráði/bæjarstjórn um aðstöðu til slíks í samkomuhúsinu.

Stjórnarmönnum Skotfélagsins var þakkað fyrir góða kynningu og umræður.
Fundargerð lesin upp og samþykkt.

Fundi slitið - kl. 21:52.