Staða 2021
Hafnarstjóri kynnti fjárhagsstöðu hafnarinnar, skv. framlögðu yfirliti og útkomuspá ársins 2021.
Tekjur voru áætlaðar samtals 94 millj. kr. árið 2021 og horfur eru á að höfnin standist þá áætlun. Tekjur ársins af skemmtiferðaskipum eru þar af rúmar 13 milljónir kr. en alls voru 31 koma skemmtiferðaskipa í sumar.
Útgjöld voru áætluð 58,1 millj.kr. en reiknað er með að þau verði talsvert undir því.
Framkvæmdakostnaður var áætlaður um 125 milljónir fyrir árið 2021.
Hafnarstjórn lýsir yfir ánægju með þessa stöðu, sem verður að teljast mjög góð m.v. allar forsendur.
Áætlun 2022
Hafnarstjóri fór yfir fyrirliggjandi drög að fjárhagsáætlun 2022.
Tekjur eru áætlaðar um 118 millj. kr. Tekið er mið af þeirri forsendu, að umtalsverður kvótasamdráttur muni hafa veruleg áhrif á tekjur hafnarinnar. Á yfirstandandi kvótaári er gert ráð fyrir 13% samdrætti í þorski og 17% samdrætti í karfa, en hvorutveggja mun hafa mikil áhrif hér.
Gert er ráð fyrir að af bókuðum komum skemmtiferðaskipa ársins muni 75% þeirra tekna skila sér, m.v. núverandi forsendur vegna Covid o.fl. Bókaðar eru komur 40 skemmtiferðaskipa á næsta sumri og líklegt er að eitthvað fleiri muni bætast við. Bókuð eru stærri skip í meira mæli en áður hefur verið og tengist það beint framkvæmdum við 130 m lengingu Norðurgarðs.
Útgjöld eru áætluð um 61 millj. kr., með markaðsstarfi og án fjármagnskostnaðar.
Fyrirvari er gerður um að forsendur geti breyst vegna óvissrar stöðu á komandi ári og mun hafnarstjórn þá taka áætlunina til endurskoðunar og leggja til breytingar í viðauka.
Gert er ráð fyrir um 37 millj.kr. í rekstrarafgang, eftir afskriftir og fjármagnskostnað.
Sett er fram áætlun um framkvæmdir í nokkrum liðum, þannig að framkvæmdakostnaður ársins 2022 verði samtals allt að 68 millj. kr. sem þýðir allt að 30 millj. kr. lántöku hafnar.
Helstu framkvæmdir felast í viðgerð á eldri hluta stálþils og á þekju Norðurgarðs. Áfram er gert ráð fyrir fjármunum í deiliskipulagsvinnu á hafnarsvæði, sem er mjög brýnt að fara í.
Hafnarstjórn leggur til við bæjarstjórn að metinn verði kostnaður við gatnagerð frá Bergþórugötu/Nesvegi og yfir norðanvert hafnarsvæðið austan Nesvegar, í samræmi við skipulag svæðisins.
Hafnarstjórn mun ljúka við að fylla upp nýja svæðið og gera það akfært milli Framness og hafnarsvæðis. Hafnarstjóra og bæjarstjóra falið að vinna að framkvæmd þessa atriðis.
Nánari tímarammi verður tilbúinn i byrjun september.
Bæjarráð mun byggja vinnu sína á tillögum úr rekstrarúttekt HLH frá 2020, sbr. fund bæjarráðs nr. 557. Þar eru sett fram helstu viðmið í fjármálastjórn og rekstri.
Í samræmi við umræður fundarins mun bæjarráð rýna sérstaklega í útsvarstekjur og þróun þeirra, sem og í tekjur Jöfnunarsjóðs og þróun þeirra. Bæjarstjóra og skrifstofustjóra falið að undirbúa yfirlit/samantekt hvað þessa þætti varðar.