Lögð fram til afgreiðslu skipulags- og umhverfisnefndar, tillaga að deiliskipulagi á jörðinni Skerðingsstöðum, dagsett 5. febrúar 2022, ásamt umhverfismatsskýrslu.
Í apríl 2018 óskuðu landeigendur Skerðingsstaða eftir heimild Grundarfjarðarbæjar til að vinna deiliskipulag jarðarinnar. Við þeirri ósk var orðið. Ennfremur var farið fram á að landnotkun svæðisins yrði breytt í aðalskipulagsvinnu Grundarfjarðarbæjar, sem þá stóð yfir. Sú breyting var gerð við endurskoðun aðalskipulagsins, að landnotkun jarðarinnar var breytt úr landbúnaði í verslun og þjónustu (VÞ-1).
Á 196. fundi skipulags- og umhverfisnefndar þann 5. september 2018 var lögð fram til kynningar lýsing fyrir tillögu að deiliskipulagi Skerðingsstaða og á 197. fundi nefndarinnar þann 17. september 2018 og fundi bæjarstjórnar þann 18. október 2018 var samþykkt að kynna lýsinguna opinberlega og senda hana til umsagnaraðila.
Á 200. fundi skipulags- og umhverfisnefndar þann 16. maí 2019 fór nefndin yfir framkomnar umsagnir, ábendingar og athugasemdir og á 202. fundi nefndarinnar þann 29. júlí 2019 var tekin afstaða til þeirra og skipulagshöfundi f.h. landeigenda veitt tækifæri til að koma á framfæri skriflegum viðbrögðum við þeim. Skipulags- og byggingarfulltrúa var falið að taka saman frekari gögn og kynna fyrir skipulagshöfundi og veita hæfilegan frest til þess að koma á framfæri athugasemdum.
Á 206. fundi skipulags- og umhverfisnefndar þann 13. nóvember 2019 tók nefndin fyrir minnisblað með viðbrögðum skipulagshöfundar f.h. landeigenda um framkomnar athugasemdir og ábendingar við skipulagslýsingu. Ennfremur lágu fyrir innsendar skýrslur um neysluvatn og fráveitu á svæðinu. Í bókun nefndarinnar var brugðist efnislega við hverri athugasemd og skipulagshöfundi falið að hafa þær og umsagnir nefndarinnar til hliðsjónar við áframhaldandi vinnslu deiliskipulagstillögunnar og skrif umhverfismatsskýrslu (sjá fylgiskjal nefndarinnar með athugasemdum, viðbrögðum skipulagshöfundar og svörum skipulags- og umhverfisnefndar).
Í umsögnum nefndarinnar er sérstaklega óskað eftir að sjónrænum áhrifum verði gerð skil og að í því skyni myndi skipulagshöfundur skila inn sjónlínugreiningu (ljósmyndir og myndband) þar sem deiliskipulagssvæðið og byggingin er sýnd frá mismunandi sjónarhornum; frá þjóðvegi úr báðum áttum og norðanmegin Lárvaðals. Sjónlínugreiningin var lögð fram af skipulagshöfundi í ágúst 2020 með ósk um yfirferð á þessu stigi skipulagsferlisins.
Í ágúst 2020, á 220. fundi skipulags- og umhverfisnefndar, var sjónlínugreiningin lögð fyrir nefndina. Nefndin fól skipulags- og byggingarfulltrúa að yfirfara framkomin gögn með skipulagshöfundi með áherslu á mikilvægi ásýndar Kirkjufells og umfjöllun um fjallið í nýsamþykktu aðalskipulagi. Nefndin samþykkti einnig að boða til sérstaks kynningarfundar með skipulagshöfundi. Á 221. fundi nefndarinnar þann 8. september 2020 fór skipulagshöfundur yfir sjónlínugreininguna - myndband sem sýnir bygginguna frá þremur leiðum og ljósmyndir sem sýna bygginguna frá ólíkum sjónarhornum. Nefndin tók jákvætt í áframhaldandi vinnslu tillögunnar og hvatti til þess að hugað væri sérstaklega vel að samræmi stakstæðra húsa við hótelbygginguna og nærumhverfi mannvirkjanna.
Tillaga að deiliskipulagi (uppdráttur með greinargerð) ásamt umhverfismatsskýrslu, sérfræðiskýrslu um gróðurfar og dýralíf og sjónlínugreiningu var send til skipulagsfulltrúa í janúar 2022. Eftir yfirferð skipulagsfulltrúa og ábendingar, sendi skipulagshöfundur uppfærð gögn í byrjun febrúar sl. Á 233. fundi skipulags- og umhverfisnefndar þann 24. febrúar sl. fór nefndin sérstaklega yfir öll framlögð gögn viðvíkjandi deiliskipulagstillögunni.
Í framhaldi af umræðum 233. fundar lét skipulagsfulltrúi útbúa sjónlínugreiningarkort, til frekari skýringar við framlögð gögn, og liggur það skjal fyrir á þessum fundi.
Til afgreiðslu hjá skipulags- og umhverfisnefnd nú er því fullbúin tillaga að deiliskipulagi jarðarinnar Skerðingsstaða, ásamt umhverfismatsskýrslu.