Fulltrúar Grundarfjarðarbæjar hafa nýlega átt tvo fundi með stjórnendum Heilbrigðisstofnunar Vesturlands (HVE), ásamt fulltrúum Snæfellsbæjar. Þann 10. apríl hittust fulltrúar sveitarfélaganna tveggja og stjórnendur HVE í Grundarfirði á fundi og þann 29. maí sl. var haldinn fjarfundur sömu aðila, um þjónustu stofnunarinnar í Grundarfirði og Snæfellsbæ.
Að morgni 31. maí sl. var haldinn opinn spjallfundur til að kynna íbúum hvað fram hefði komið í samtali bæjarstjórnar við HVE.
Lagður fram tölvupóstur bæjarstjóra til forstjóra HVE í aðdraganda síðari fundarins, þar sem fram koma drög að efni samkomulags, sem lagt er til að aðilar geri með sér. Einnig lögð fram samantekt bæjarstjóra dags. 31. maí 2024 um efni framangreindra funda.
Bæjarstjórn lýsir áhyggjum af þeirri þjónustu sem HVE býður íbúum Grundarfjarðar, einkum og sér í lagi fyrirkomulagi á þjónustu lækna.
Bæjarstjórn lýsir jafnframt áhyggjum af ástandi íbúðarhúsnæðis sem ætlað er þeim læknum sem koma til þjónustu hér, 4-5 sólarhringa í senn. Bæjarstjórn fer fram á það við stjórnendur HVE að búið sé betur að starfandi læknum hvað þessa þætti varðar.
Bæjarstjórn felur bæjarstjóra að leita eftir fundi með heilbrigðisráðherra, til viðræðna um framkvæmd þeirrar heilbrigðisþjónustu sem ríkið heldur úti í Grundarfirði.
Samþykkt samhljóða.