Málsnúmer 2207005

Vakta málsnúmer

Skólanefnd - 163. fundur - 04.07.2022


Lagt fram til afgreiðslu skóladagatal grunnskólans, en það var lagt fram til umræðu á 162. fundi skólanefndar í apríl sl.

Sigurður Gísli kynnti skóladagatal grunnskólans og farið var yfir það.

Skóladagatal grunnskólans samþykkt samhljóða.

Gestir

  • Sigurður Gísli Guðjónsson skólastjóri

Skólanefnd - 164. fundur - 05.09.2022

Nefndin fór í heimsókn í grunnskólann og hitti þar Sigurð Gísla Guðjónsson, skólastjóra.
Húsnæði og aðstaða grunnskólans var skoðað og rætt við Sigurð Gísla um starfsemina.
Farið var sérstaklega yfir þær framkvæmdir við húsnæði skólans sem hafa verið í gangi í ár.
Neðra anddyri grunnskólahúss var endurbætt í sumar, skipt um hurðir og sett sjálfvirk opnanleg glerhurð í stað þungra eldri hurða. Gólf og loftaefni voru endurnýjuð, lýsing og fatahengi endurnýjað. Anddyrið er nú mun rýmra og bjartara og aðgengi betra.
Unnið er að því að skipta um þak á tengibyggingu milli grunnskóla og íþróttahúss og verður neyðarútgangur á þaki tengibyggingar lagaður.
Gluggaskipti eru fyrirhuguð í grunnskólahúsnæði og til stendur að halda áfram að endurnýja gólfdúka, svo eitthvað sé nefnt.

Í íþróttahúsi stendur til að endurnýja gólfefni í anddyri og gangi, loftaefni og hillur. Auk þess glugga í tengibyggingu yfir í grunnskólann.

Gestir

  • Sigurður Gísli Guðjónsson skólastjóri

Skólanefnd - 168. fundur - 29.03.2023

Sigurður Gísli Guðjónsson, skólastjóri Grunnskólans, var gestur fundarins í fjarfundi.

Var hann boðinn velkominn á fundinn.
Skólastjóri fór yfir helstu þætti í starfi grunnskólans, Eldhamra og tónlistarskólans:

- Eldhamrar: starfið hefur gengið vel og nýir nemendur aðlagast vel, þau sem verða fimm ára á árinu og eru komin á Eldhamra nokkru fyrr en ætlað var.
- Stóra upplestrarkeppnin fór fram í Grunnskólanum í dag, en það eru nemendur í 7. bekk sem taka þátt í henni. Síðar fer fram keppni skólanna á Snæfellsnesi.
- Árshátíð nemenda verður á morgun, 30. mars. Hún er tvískipt, fyrir yngri og eldri nemendur.
- Skólalóðin og endurbætur á henni: sérstakur starfshópur hefur verið með hana til skoðunar og hefur skipulagsfulltrúi/sviðsstjóri aðstoðað hópinn. Nemendur hafa unnið tillögur um skólalóðina og Sigurður sagði frá fundi með arkitekt, sem fenginn var til að rýna lóðina og þau atriði sem fram komu í vinnu starfshópsins og nemenda.
- Vortónleikar tónlistarskólans verða 17. maí nk.
- Átta nemendur fara á Landsmót lúðrasveita í Vestmannaeyjum 19.-20. maí nk.

Bæjarstjóri og skólastjóri sögðu frá framkvæmdum sem eru í gangi og í undirbúningi (grunnskóli, íþróttahús, skólalóð).

Sérstaklega hafa reglulegar öryggisúttektir vegna eldvarna og skólalóðar verið til úrvinnslu að undanförnu, þ.e. að atriði í úttektum slökkviliðsstjóra, heilbrigðiseftirlits, skoðunarúttekt leiksvæða o.fl. hafa verið framkvæmd og/eða komið í vinnslu.

Gestir

  • Sigurður Gísli Guðjónsson skólastjóri grunnskóla - mæting: 19:30

Skólanefnd - 169. fundur - 31.05.2023

Sigurður Gísli Guðjónsson skólastjóri sat fundinn áfram undir þessum lið, ásamt fulltrúa foreldra nemenda í grunnskóla.

Tillaga skólastjóra um skóladagatal skólaárið 2023-2024 lögð fram til afgreiðslu. Skólaráð hefur farið yfir tillöguna á fundi sínum.

Tillaga að skóladagatali lögð fram með þeim breytingum að nemendastýrð viðtöl, sem áttu að fara fram 25. janúar 2024, verði hefðbundinn skóladagur. Ennfremur að Öskudagur verði hefðbundinn skóladagur.

Skólanefnd samþykkir framlagða tillögu að skóladagatali með framangreindri breytingu.

---

Skólastjóri fór yfir helstu atriði úr skólastarfinu:

Skólaslit verða á morgun, 1. júní. Athöfn verður fyrir 1.-7. bekk í íþróttahúsinu, en fyrir unglingastig, 8.-10. bekk, verður útskriftarathöfn í Grundarfjarðarkirkju. Sjö nemendur útskrifast úr 10. bekk.

Skólastjóri sagði frá breytingum í starfsmannahópnum. Hallfríður Guðný Ragnarsdóttir og Elísabet Kristín Atladóttir færa sig úr leikskóladeildinni Eldhömrum, yfir í kennslu í grunnskólanum. Sigrún Hilmarsdóttir lætur af störfum sem kennari og Marta Magnúsdóttir verður ekki við kennslu á komandi vetri.

Skólinn sótti um og fékk styrk í samvinnu við Grunnskóla Snæfellsbæjar fyrir verkefninu "Orð af orði", sem fer að stað á komandi skólaári. Þar verður unnið með orðaforða hjá nemendum.

Í vetur var unnið eftir stefnu um heilsueflandi grunnskóla og auk þess stefnu Grænfánaverkefnisins, umsjónarkennarar á miðstigi sáu um innleiðinguna.

Ætlunin er að stíga fleiri skref í átt að aukinni sjálfbærni skólans og er draumurinn að skólinn geti í framtíðinni eignast sitt eigið gróðurhús og jafnvel verið með hænur.

Um 120 trjáplöntur fara á skólalóðina og í skóginn, eða ein planta fyrir hvern nemanda í grunnskólanum og á Eldhömrum.

Undir áætlun ERASMUS KA2, fékkst styrkur sem nýttur verður til fjárfestingar í búnaði fyrir skapandi kennslu.

Gestir

  • Halla Karen Gunnarsdóttir fulltrúi foreldra - mæting: 17:15
  • Sigurður Gísli Guðjónsson skólastjóri grunnskólans

Skólanefnd - 172. fundur - 07.03.2024

Sigurður Gísli Guðjónsson skólastjóri Grunnskóla Grundarfjarðar sat fundinn undir þessum lið.
Skólastjóri sagði frá helstu verkefnum og starfsemi grunnskóla og Eldhamra, sbr. meðfylgjandi minnispunkta.


Gestir

  • Sigurður Gísli Guðjónsson skólastjóri Grunnskóla Grundarfjarðar - mæting: 18:20

Skólanefnd - 173. fundur - 08.04.2024

Drög að skóladagatali komandi skólaárs lögð fram.

Einnig skýrsla skólastjóra um starfsemina.



Menntastefna Grundarfjarðarbæjar:
Farið yfir vinnu við innleiðingu og verkefni tengd menntastefnu Grundarfjarðarbæjar hvað varðar grunnskólann. Gunnþór E. Gunnþórsson frá Ásgarði tók þátt í umræðum.

Tillaga að skóladagatali 2024-2025 lögð fram og rædd. Einnig rætt um samræmingu skóladagatala.

Umræðu og ákvörðun um skóladagatal vísað til næsta fundar skólanefndar.

Skólastjóri fór yfir framlagða minnispunkta sína um starfsemina.

Gestir

  • Sigurrós Sandra Bergvinsdóttir, fulltrúi kennara/starfsfólks Grunnskóla Grundarfjarðar - mæting: 17:30
  • Sigurður Gísli Guðjónsson, skólastjóri Grunnskóla Grundarfjarðar - mæting: 17:30
  • Sylvía Rún Guðnýjardóttir, fulltrúi foreldra v. Grunnskóla Grundarfjarðar - mæting: 17:30
  • Gunnþór Eyfjörð Gunnþórsson, ráðgjafi hjá Ásgarði skólaþjónustu - mæting: 17:30

Skólanefnd - 174. fundur - 24.06.2024

Farið var yfir framlögð gögn; skýrslu grunnskólans og Eldhamra um innra mat og tillögu um skóladagatal komandi skólaárs.



Gestir fundarins voru Sigurður Gísli Guðjónsson, skólastjóri Grunnskólans og Sylvía Rún Guðnýjardóttir, fulltrúi foreldra. Fulltrúar kennara komust ekki á fundinn.



Skólastjóri kynnti framlagða skýrslu og starf við innra mat grunnskólans, sem unnið er í samræmi við gæðaviðmið í skólastarfi sbr. nýja menntastefnu.

Framhald umræðu um skóladagatal, frá síðasta fundi nefndarinnar. Nefndin hefur lagt áherslu á samræmingu í skóladagatali allra skólastofnana bæjarins.

Skólanefnd samþykkir framlagt skóladagatal fyrir grunnskólann 2024-2025.

Gestir

  • Sylvía Rún Guðnýjardóttir, fulltrúi foreldra v. Grunnskóla Grundarfjarðar - mæting: 18:00
  • Sigurður Gísli Guðjónsson skólastjóri Grunnskóla Grundarfjarðar - mæting: 18:00

Skólanefnd - 176. fundur - 07.10.2024

Lögð fram starfsáætlun grunnskólans fyrir skólaárið. Ennfremur dæmi um bekkjarnámskrá.

Sigurður Gísli fór yfir starfsáætlun grunnskólans á yfirstandandi skólaári. Eldhamrar koma að hluta til inní þá áætlun.

Hann fór yfir helstu áherslur í skólastarfi vetrarins, en um þær segir í starfsáætlun:

- Áhersla verður lögð á að efla skólasamfélagið, bæði innra og ytra samfélag skólans enn frekar í vetur með ýmsum hætti.
- Sl. haust voru aftur teknir upp upplýsingafundir að hausti fyrir foreldra og ætlunin að framhald verði á því.
- Foreldrafundir eru haldir á fyrstu vikum skólaársins.
- Foreldra- nemendaviðtöl verða 9. október þar sem foreldrar fá boð um að hitta kennara einslega ásamt nemanda.
- Grunnskólinn heldur áfram markvissri vinnu við að innleiða útikennslu ásamt átthagafræði í starf skólans. Með tilkomu nýs útvistar- og útikennslusvæðis í Þríhyrningi gefst kostur á aukinni fjölbreytni.
- Grunnskóli Grundarfjarðar er skóli á grænni grein og flaggaði nýjum fána í janúar 2022. Unnið verður eftir umhverfisstefnu Grænfána verkefnisins í vetur. Sjálfbærni er partur af þeirri stefnu og er leitast við að vinna að aukinni sjálfbærni. Skólinn hefur fest kaup á gróðurhúsi sem sett verður upp á skólalóðinni nú í haust. Unnið verður að því í vetur að þróa það starf. Næsta vor ætti allt að vera tilbúið til ræktunar.
- Skólinn hefur mótað stefnu sem heilsueflandi skóli og verður úttekt nú í ár. Unnið verður markvisst áfram að heilsueflandi verkefnum.
- Þetta skólaár verður starfandi teymi í skólanum sem vinnur að því að samþætta áherslur í átthagafræði, grænfánaverkefni, heilsueflingu og útikennslu.
- Stefnt er að því að efla teymiskennslu enn frekar þar sem kennarar eru hvattir til að blanda saman árgöngum en reynt er að skapa grundvöll fyrir það t.d. með því að samstilla stundatöflur árganga eins og kostur er.
- Lögð verður áhersla á að efla enn frekar úrval valgreina á öllum stigum skólans en mikil þróunarvinna var unnin á síðasta skólaári sem við munum styrkja enn ferkar í vetur. Mörg skemmtileg verkefni voru sett á dagskrá. Eitt af þeim verkefnum var jólaskógurinn þar sem nemendur settu upp ævintýraskóg þar sem gestum og gangandi var boðið að koma í heimsókn.
- Á síðasta ári var stofnaður nemendakór og verður haldið áfram í vetur að efla hann og styrkja.
- Stefna skólans er að taka almennt þátt í Erasmus verkefnum, en skólinn mun þó ekki taka þátt í Erasmus verkefni á þessu skólaári.
- Unnið hefur verið að því undanfarin ár að efla leiklist og leiklistarkennslu við skólann. Það má sjá t.d í verkefninu jólaskógurinn og í valgreinum þar sem er í boði að velja leiklist, búningagerð, förðun og fl.