179. fundur 27. mars 2025 kl. 16:30 - 19:00 í Ráðhúsi Grundarfjarðar
Nefndarmenn
  • Loftur Árni Björgvinsson (LÁB) formaður
  • Hólmfríður Hildimundardóttir (HH)
  • Anna Rafnsdóttir (AR)
  • Davíð Magnússon (DM)
  • Guðbrandur Gunnar Garðarsson (GGG)
Starfsmenn
  • Björg Ágústsdóttir (BÁ) bæjarstjóri
Fundargerð ritaði: Björg Ágústsdóttir bæjarstjóri
Dagskrá
Formaður setti fund og bauð fundarmenn velkomna. Gengið var til dagskrár.

Gestir fundarins voru eftirtaldir:

Linda María Nielsen tók á móti nefndinni í tónlistarkóla, undir lið nr. 1.

Leikskólinn Sólvellir, undir dagskrárlið nr. 2:

- Heiðdís Lind Kristinsdóttir, skólastjóri
- Sigurborg Knarran Ólafsdóttir, fulltrúi kennara
- María Rún Eyþórsdóttir, fulltrúi foreldra

Grunnskóli Grundarfjarðar, undir liðum nr. 3 og 4, sem ræddir voru sameiginlega:
- Sigurður Gísli Guðjónsson, skólastjóri
Hvorki fulltrúi kennara né fulltrúi foreldra áttu heimangengt á fundinn.

Gunnþór E. Gunnþórsson, ráðgjafi hjá Ásgarði skólaþjónustu, í fjarfundi, á milli dagskrárliða nr. 2 og 3.

1.Málefni tónlistarskólans

Málsnúmer 2207007Vakta málsnúmer

Nefndarmenn hófu fundinn með heimsókn í tónlistarskólann.



Fyrir liggja einnig minnispunktar um starf skólans, þó þeir séu ekki teknir sérstaklega til umræðu.



Linda María Nielsen aðstoðarskólastjóri tók á móti nefndarmönnum og sýndi þeim breytingarnar á húsnæði og aðstöðu skólans, sem fram hafa farið undanfarna mánuði.

Gestir

  • Linda María Nielsen, aðstoðarskólastjóri Tónlistarskóla Grundarfjarðar - mæting: 16:30

2.Málefni leikskólans

Málsnúmer 2207006Vakta málsnúmer

Umræða um málefni leikskólans.



Lagðir fram minnispunktar leikskólastjóra um starfið og tillaga um breytt fyrirkomulag á skráningu í tíma milli 14-16 á föstudögum, með hliðsjón af reynslunni af því fyrirkomulagi sem verið hefur síðan í nóvember 2024.



Leikskólastjóri fór yfir framlagt minnisblað um starf leikskólans.

Endurskoðun á skólanámskrá er í vinnslu og vinna Sólvellir og leikskóladeildin Eldhamrar að því að skrifa sameiginlega skólanámskrá, með aðstoð skólaráðgjafa hjá Ásgarði. Unnið er að því að skýra betur stefnu leikskólans og sérstöðu. Unnið er með útikennslu, hæglátt leikskólastarf og læsi, sem megináherslu í leik og starfi og mun það endurspeglast í nýju námskránni.

Búið er að auglýsa stöðu aðstoðarleikskólastjóra sem kemur til með að sinna m.a. sérkennslu innan leikskólans, vera tengiliður farsældar og fleira. Umsóknarfrestur er til 2. apríl nk. um starfið.

Gæðaráð leikskólans hefur verið virkt og fundað reglulega í vetur. Gæðaráð fer yfir og metur hvernig starf skólans vinnst m.v. gæðaviðmið í skólastarfi.
Gerð er bæði foreldra- og starfsmannakönnun í mars og apríl, sambærileg því sem send var út á síðasta ári. Þar er áherslan á "leikskólabrag" og spurningar settar fram sem miðast við það.
Niðurstöður úr foreldrakönnun liggja nú fyrir, en þó á eftir að vinna betur úr þeim. Könnunin kemur mjög vel út og sýnir bætingu m.v. könnun frá í fyrra.

Skipulagið á deildum gengur vel. Sótt var um styrk í Sprotasjóð til þess að vinna betur með "tímalínu" leikskólans/námsvísi. Verkefnið gengur út á að finna leiðir, m.a. með aðstoð gervigreindar, til að styrkja og styðja allt starfsfólk í leikskólanum í að vinna markvisst og faglegt starf samkvæmt aðalnámskrá leikskóla, með sérstaka áherslu á starfsfólk sem hefur annað móðurmál en íslensku.

Búið er að festa námsvísi/tímalínu enn markvissara í starfi og er faglegt starf á deildinni orðið mjög flott, segir í minnispunktum leikskólastjóra.

Leikskólinn hefur opnað Instagram síðu þar sem hægt er að fylgjast með starfinu: "Leikskólinn Sólvellir" á Instagram.

--
Í minnispunktum leikskólastjóra er að finna tillögu um að á komandi skólaári verði prófað til reynslu annað fyrirkomulag með skráningu barna í tímana milli 14-16 á föstudögum, þannig að foreldrar geti valið mánaðarlega (fyrir 15. hvers mánaðar) hvernig þeir vilji skrá fyrir næsta mánuðinn. Misjafnt geti verið eftir mánuðum hvort foreldrar þurfi á tímum milli 14-16 að halda.

Leikskólastjóri telur æskilegt að hvetja enn frekar til þess að stytta dvöl barna, t.d. með því að helgarleyfi barna byrji fyrr, því 40 klst. viðvera barna og jafnvel 42,5 klst. hjá þeim sem lengst eru í leikskólanum sé langur tími. Stærsti hluti vökutíma barna sé auk þess í leikskólanum.

Skólanefnd gerir ekki athugasemd við þá tillögu leikskólastjóra að skráningu tímans milli 14-16 á föstudögum sé hagað þannig að skráð sé fyrir mánuð í senn, þannig að aukinn sveigjanleiki sé um nýtingu. Nefndin telur að leikskólastjóri hafi nú þegar umboð til að útfæra þetta nánar, sbr. samþykkt skólanefndar á fundi í júní 2024 og samþykkt bæjarráðs á því, þegar fyrirkomulagið var upphaflega lagt til.

Skólanefnd vísar því til bæjarstjórnar hvort breyta eigi gjaldskrá til að endurspegla betur muninn á dvöl barna til 14 eða 16 á föstudögum, fyrir næsta skólaár.

Leikskólastjóri óskaði jafnframt eftir áliti skólanefndar á því hvort auka-korter ætti að standa til boða á föstudögum, þ.e. frá 16-16:15.

Skólanefnd telur, m.v. upplýsingar leikskólastjóra um þá þörf og eftirspurn sem nú er uppi, að óhætt sé að fallast á tillögu um að auka korter sé ekki í boði á föstudögum.

--
Skóladagatal

Lögð fram tillaga/drög að skóladagatali leikskólans skólaárið 2025-2026. Fram kom að skólastjórar leik- og grunnskóla hafa unnið sínar tillögur í samráði.

Tillaga er um að í Dymbilviku verði skráningardagar, líkt og var í fyrra, þannig að foreldrar geti ráðið skráningu barns alla Dymbilvikuna, en ef ekki þá verði veittur afsláttur af gjöldum.

Skólanefnd tekur ekki afstöðu til gjaldskrár, en vísar þessu atriði til umfjöllunar bæjarstjórnar.

Skóladagatal er áfram í vinnslu og kemur til staðfestingar nefndarinnar síðar.

Hér kom Gunnþór E. Gunnþórsson, ráðgjafi hjá Ásgarði inná fundinn í gegnum fjarfund.

Gunnþór sagði frá stöðunni í vinnu við innra mat leik- og grunnskóla. Vinnan gengur vel.

Gunnþóri var þakkað fyrir komuna á fundinn og upplýsingarnar.

Gestir

  • Heiðdís Lind Kristinsdóttir, skólastjóri Leikskólans Sólvalla - mæting: 17:00
  • María Rún Eyþórsdóttir, fulltrúi foreldra - mæting: 17:00
  • Sigurborg Knarran Ólafsdóttir, fulltrúi kennara við Sólvelli - mæting: 17:00

3.Málefni leikskóladeildarinnar Eldhamra

Málsnúmer 2207008Vakta málsnúmer

Lögð fram drög að skóladagtali leikskóladeildarinnar Eldhamra fyrir skólaárið 2025-2026.

Eins og fram hefur komið hafa skólastjórar leik- og grunnskóla samræmt sínar tillögur að skóladagatali.

Áfram í vinnslu og kemur til staðfestingar skólanefndar síðar.

Gestir

  • Sigurður Gísli Guðjónsson skólastjóri grunnskóla, tónlistarskóla og Eldhamra - mæting: 18:00

4.Málefni grunnskólans

Málsnúmer 2207005Vakta málsnúmer

Framlagðir minnispunktar grunnskólastjóra um starfið, fundargerð skólaráðs frá 28. febrúar 2025, en skólaráð starfar skv. lögum um grunnskóla.



Einnig lögð fram drög skólastjóra að skóladagatali grunnskólans skólaárið 2025-2026.



Skólastjóri fór lauslega yfir minnispunkta sína um starfið.

Hann sagði frá leikritinu Fíasól, sem nemendur 6.-7. bekkjar hafa sett upp. Árshátíð grunnskólans fer fram í apríl, annars vegar fyrir 1.-7. bekk og eru Eldhamrabörnin með í þeim undirbúningi. Hins vegar fyrir unglingastigið.

Áhersla verður á umhirðu skólalóðarinnar, gróðursetningu og almenna útiveru í vor. Verið er að vinna í gróðurhúsi skólans og fyrir dyrum eru áframhaldandi umbætur á skólalóðinni. Keypt verða ný leiktæki til að skipta út rennibraut og klifurkastala á lóðinni.

Undirbúningur er í gangi fyrir skólahlaupið, en styrkur fékkst úr Lýðheilsusjóði, sem mun nýtast vel við framkvæmd hlaupsins, og eru aðstandendur afar ánægðir með það, að sögn skólastjóra.

Rætt um reglur um "símafrí" sem í gangi hafa verið í vetur og telur skólastjóri að almennt hafi tekist vel til með það.

--
Umræður um skóladagatal komandi skólaárs, en það er til áframhaldandi vinnslu og tekur til afgreiðslu skólanefndar síðar.

--

Skólanefnd vill sérstaklega hrósa og þakka nemendum, starfsfólki og öðrum sem að komu, fyrir glæsilegt leikrit "Fíasól gefst aldrei upp" sem sett var upp og sýnt fyrir fullu samkomuhúsi í fjögur skipti.

Gestir

  • Sigurður Gísli Guðjónsson skólastjóri grunnskóla, tónlistarskóla og Eldhamra - mæting: 18:00

5.Mennta- og barnamálaráðuneyti - Þakkar- og hvatningarbréf mennta- og barnamálaráðherra vegna fyrirlagnar PISA 2025

Málsnúmer 2503015Vakta málsnúmer

Lagt fram bréf mennta- og barnamálaráðuneytis.

Lokið var við fundargerð að fundi loknum og rafræns samþykkis aflað hjá nefndarmönnum.

Fundi slitið - kl. 19:00.