156. fundur 19. apríl 2021 kl. 16:15 - 18:28 í Samkomuhúsi Grundarfjarðar
Nefndarmenn
  • Garðar Svansson (GS) formaður
  • Ragnar Smári Guðmundsson (RSG)
  • Valdís Ásgeirsdóttir (VÁ)
  • Ásthildur E. Erlingsdóttir (ÁEE)
  • Freydís Bjarnadóttir (FB)
Starfsmenn
  • Björg Ágústsdóttir (BÁ) bæjarstjóri
Fundargerð ritaði: Björg Ágústsdóttir bæjarstjóri
Dagskrá
Formaður setti fund og bauð fundarmenn velkomna.

1.Málefni grunnskólans

Málsnúmer 1808034Vakta málsnúmer

Sigurður Gísli Guðjónsson skólastjóri og Eydís Lúðvíksdóttir fulltrúi kennara sátu fundinn undir þessum lið.
Sigurður fór yfir starfsemi grunnskólans.
Skólastjóri sagði meðal annars frá eftirfarandi:

* Árshátíð grunnskólans var haldin 24. mars sl., sama dag og "generalprufa". Árshátíðin var tekin upp og birt á vef skólans, þar sem ekki mátti halda hana þann dag sem til stóð, vegna samkomutakmarkana. * Grunnskólinn verður 60 ára í janúar á næsta ári. Skólinn mun minnast þeirra tímamóta og hefur hafið undirbúning að því.
* Skólasund hefst í næstu viku.
* Danskennsla verður í þar næstu viku, fyrir alla bekki grunnskólans og Eldhamradeildina.
* Grænfánaverkefni grunnskólans er komið aftur í gang og byggist á þemum sem skólinn vinnur að. Í vetur hefur verið unnið með hnattrænt jafnrétti og náttúruvernd, ásamt mörgu öðru. Á döfinni eru m.a. gróðursetning og hreinsunardagur.
* Heilsdagsskólinn er á nýju svæði, í hornstofunni nyrst á neðri hæð, sem og í náttúrufræðistofunni sem er samliggjandi. Gert var við hornstofuna, skipt um það og hún tekin í gegn á síðasta ári. Starfsemin kemur vel út á nýja staðnum.
* Útskrift 10. bekkinga og skólalok grunnskóla verða 3. júní nk.
* Undirbúningur er hafinn fyrir komandi skólaár. Starfsmannaviðtöl eru að klárast núna, þau eru árleg. Í framhaldi af þeim verður unnið skipulag komandi skólaárs.
* Auglýst hefur verið eftir deildarstjóra/kennara í grunnskóla, í stað Maríu Óskar, sem hættir í vor.
* Starfsmannakönnun Grundarfjarðarbæjar var gerð seint á síðasta ári og kom vel út. Niðurstöður lágu fyrir í janúar sl. og starfsmenn skólans hafa í framhaldi af því unnið tillögur að reglubundnum umbótaverkefnum, í nokkrum hópum.
* Sameiginlegur starfsdagur verður fyrir kennara, stuðningsfulltrúa, skólaliða og annað starfsfólk grunnskóla á Snæfellsnesi, 18. ágúst nk. Yfirskrift dagsins er "Nám við hæfi! Getum við gert enn betur?" og er skipulagt af Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga, með sex erindum og vinnustofum.

Rætt var um Mentor-kerfið og virkni þess.

Farið var yfir drög skólastjóra að skóladagatali skólaársins 2021-2022, sem lá fyrir fundinum.
Skóladagar nemenda skulu vera 180 á tímabilinu 20. ágúst til 10. júní. Gert er ráð fyrir skólasetningu mánudaginn 23. ágúst nk. og skólaslitum fimmtudaginn 2. júní 2022.
Gert er ráð fyrir 5 starfsdögum kennara á starfstíma nemenda og 8 starfsdögum utan starfstíma nemenda. Skólastjóri mun leggja skóladagatal undir skólaráð, lögum samkvæmt.
Skólanefnd samþykkir tillögu skólastjóra að skóladagatali.

Sigurður fór yfir niðurstöður úr foreldrakönnun sem gerð er annað hvert ár. Niðurstöðurnar koma mjög vel út í það heila og er það ánægjulegt. Ávallt er unnið með niðurstöðurnar og þær nýttar til reglubundinna umbóta.

Sigurði var þökkuð yfirferðin.
Hér vék Eydís af fundi og var henni þakkað fyrir komuna.

Gestir

  • Eydís Lúðvíksdóttir fulltrúi kennara - mæting: 16:15
  • Sigurður Gísli Guðjónsson skólastjóri - mæting: 16:15

2.Málefni leikskóladeildarinnar Eldhamra

Málsnúmer 1808036Vakta málsnúmer

Sigurður skólastjóri gerði grein fyrir starfsemi leikskóladeildarinnar Eldhamra.
Sigurður fór yfir starfsemi Eldhamra.

Níu nemendur eru nú á Eldhömrum og útskrifast af henni í vor.
Eldhamrar eru leikskóladeild 5 ára barna, undir stjórn skólastjóra grunnskólans. Skólanámskrá þeirra tekur verulega mið af námskrá og skóladagatali yngstu nemenda grunnskóla. Börnin fá að fara í sérgreinar, eins og íþróttir í íþróttahúsi, heimilisfræði í heimilisfræðistofu, handmennt, tónlistarstund í tónlistarskólanum o.fl.

Eldhamrar og Leikskólinn Sólvellir munu gera þá breytingu á gildandi skóladagatali að sumarleyfi þeirra hefjast viku síðar en gert var ráð fyrir. Eldhamrar hefja sumarleyfi mánudaginn 28. júní og Sólvellir mánudaginn 5. júlí.
Tíu nemendur koma inn í deildina á komandi hausti.

Skóladagatal Eldhamra var lagt fram, tvær útgáfur sem miða við mismunandi upphaf sumarleyfis 2022.
Gert er ráð fyrir að Eldhamrar hefji störf 11. ágúst nk. og leggur skólastjóri til að sumarleyfi Eldhamra 2022 hefjist mánudaginn 27. júní. Gert er ráð fyrir 4 starfsdögum á skólaárinu.

Skólanefnd samþykkir skóladagatalið og tillögu skólastjóra.

Gestir

  • Sigurður Gísli Guðjónsson skólastjóri

3.Málefni tónlistarskólans

Málsnúmer 1808035Vakta málsnúmer

Sigurður skólastjóri sagði frá starfsemi Tónlistarskólans.
Fram kom m.a. hjá skólastjóra að:

* Fyrir dyrum stendur hvatningarátak til að fjölga nemendum á blásturshljóðfæri.
* Þemavika verður fyrstu tvær vikurnar í maí, með uppbroti náms.
* Skólaslit Tónlistarskólans verða 19. maí nk. með vortónleikum. Fyrirkomulag tónleikanna ræðst þegar líður lengra að þeim og eru með fyrirvara um samkomutakmarkanir.

Skóladagatal tónlistarskólans 2021-2022 var lagt fram, en það gerir ráð fyrir kennslu í 35,2 vikur. Gert er ráð fyrir að kennsla hefjist 25. ágúst og að skólaslit verði 19. maí 2022.

Skólanefnd samþykkir skóladagatalið.

Gestir

  • Sigurður Gísli Guðjónsson skólastjóri

4.Skólastefna

Málsnúmer 1809028Vakta málsnúmer

Skólastefna Grundarfjarðarbæjar, sett í apríl 2014.

Í 5. gr. laga um grunnskóla segir: "Sveitarfélög setja almenna stefnu um grunnskólahald í sveitarfélaginu og kynna fyrir íbúum þess."
Sambærilegt ákvæði er í lögum um leikskóla.

Skólastefna Grundarfjarðarbæjar var samþykkt í apríl 2014. Í henni segir að meta skuli hvernig gangi að framfylgja henni, a.m.k. á tveggja ára fresti.

Skólanefnd hefur áður rætt um að setja þurfi nánari aðgerðaáætlun á grunni skólastefnunnar, þannig að unnt sé að leggja mat á það hvernig til tekst með að framfylgja stefnunni. Hún er almennt orðuð eins og hún var sett fram 2014 og ætlunin var þá, að fylgja henni betur eftir með nánari aðgerðum. Skólastefnan er engu að síður að nýtast í skólastarfinu.

Rætt var um heildarstefnumótun þá sem í gangi var hjá Grundarfjarðarbæ 2019-2020. Vinnan var lögð til hliðar tímabundið þegar samkomutakmarkanir stóðu sem hæst á síðasta ári, en verður lokið á næstu vikum. Bæjarstjóri sýndi og fór lauslega yfir efni og uppsetningu þeirrar vinnu. Út frá efnivið þeirrar stefnu, um skólahald og aðstöðu, er ætlunin að vinna nánar með atriði sem snúa að skólastarfsemi og menntun.

Skólanefnd telur í ljósi þessarar stefnumótunar, þeirra verkefna sem unnið hefur verið að og stöðu skólamálanna, að ekki sé þörf á heildarendurskoðun skólastefnunnar á komandi ári í það minnsta. Hvað varðar skilgreiningu aðgerða/verkefna á grunni skólastefnu, þá verði til að byrja með unnið með það sem kemur út úr heildarstefnumótuninni, sem og þau umbótaverkefni sem skólarnir eru sjálfir með í vinnslu og/eða undirbúningi.

Kl. 17:55 vék Sigurður Gísli af fundi og var honum þakkað fyrir komuna og góðar upplýsingar.

Björg sagði frá helstu framkvæmdum sumarsins við húsnæði leik- og grunnskóla.
Skipt verður um glugga í húsnæði grunnskólans, múrviðgerðir halda áfram og innanhússviðhald í framhaldinu. Árið 2017 var gerð úttekt á ástandi skólahúsnæðis (hluta) utanhúss og í framhaldinu ákvað bæjarstjórn utanhússframkvæmdir sem unnar hafa verið síðan. Í næstu viku verður ástandsúttektin endurmetin, af Eflu sem vann hana á sínum tíma, og staðan tekin á framkvæmdum.
Sömuleiðis verður unnið mat á þörf fyrir endurbætur á húsnæði íþróttahúss, utanhúss.

Björg sagði einnig frá því að Heilbrigðiseftirlit Vesturlands hefði komið í eftirlitsskoðun í leikskólann um miðjan febrúar. Eftirlitsskýrsla barst í mars. Þrjú minniháttar atriði voru til lagfæringa innanhúss og er þeim að hluta til lokið. Auk þess var lagt fyrir að gera við rennibraut í litla garðinum, en búið var að panta hluta rennibrautarinnar hjá söluaðila fyrir allnokkru. Rennibrautin var í framhaldinu tekin niður, til viðgerða.
Fyrir dyrum stendur verðkönnun vegna endurbóta á girðingarneti og frekara viðhald á lóð er sumarverkefni. Í sumar verður nýi áhaldakofinn einnig málaður.

Björg sagði frá því að bréf hefði borist frá foreldri, í lok mars, sem gerði athugasemdir við ástand leiktækja og lóðar leikskólans. Um er að ræða atriði sem þegar eru á framkvæmdalista sumarsins að mestu leyti.

Gestir

  • Sigurður Gísli Guðjónsson skólastjóri

5.Háskóli íslands - Rannsóknir á menntun leik- og grunnskólakennara

Málsnúmer 2103034Vakta málsnúmer

Lagðar fram til kynningar upplýsingar um rannsóknir á kennaramenntun sem gerðar hafa verið, einkum í ljósi þeirra breytinga sem urðu þegar nám bæði grunnskólakennara og leikskólakennara var gert að 5 ára meistaranámi með lögum frá 2008.

6.Samband íslenskra sveitarfélaga - Íslensku menntaverðlaunin 2021

Málsnúmer 2103035Vakta málsnúmer

Íslensku menntaverðlaunin er viðurkenning fyrir framúrskarandi skólastarf, menntaumbætur og þróunarverkefni. Markmið verðlaunanna er að auka veg menntaumbótastarfs og vekja athygli samfélagsins á metnaðarfullu og vönduðu skóla- og frístundastarfi með börnum og unglingum. Verðlaunin eru veitt í þremur aðalflokkum:

1. Framúrskarandi skólastarf eða menntaumbætur
2. Framúrskarandi kennari
3. Framúrskarandi þróunarverkefni

Að auki er veitt hvatning til einstaklings, hóps eða samtaka sem stuðlað hafa að menntaumbótum er þykja skara fram úr.
Tilnefningar skulu hafa borist fyrir 1. júní ár hvert.

Skólanefnd óskar eftir því að erindið verði sent skólastjórum til skoðunar með það í huga að tilnefningu verði skilað í ár.
Jafnframt hvetur nefndin skólana til að hugsa um þróunarverkefni komandi skólaárs með þetta í huga.

Stefnt er að næsta fundi uppúr miðjum maí. Skoðað verður hvort nefndin komist í heimsókn í grunn- og leikskólann, m.t.t. sóttvarnaráðstafana sem þá verða í gildi.

Gengið var frá fundargerð að afloknum fundi og hún send fundarmönnum til rafrænnar staðfestingar.

Fundi slitið - kl. 18:28.